23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að verja löngum tíma í að ræða um Framkvæmdastofnun ríkisins og síst við hæstv. dómsmrh., því að hann er aldeilis ófær til þess, því að hann þekkir ekkert til starfsemi hennar, hefur aldrei haft fyrir því að kynna sér hana að einu eða neinu leyti, heldur búið sér til mynd af henni sem hann annaðhvort hefur hróflað upp sjálfur af fullkominni vanþekkingu eða farið eftir fullyrðingum annarra sem hafa haft svipað viðhorf til að bera, kjallaramanna Dagblaðs o.s.frv.

Það eru sjö þm. í stjórn Framkvæmdastofnunar, en ekki fimm, svo að ég byrji fyrst á stafrófinu fyrir hæstv. dómsmrh. því fer auðvitað víðs fjarri að hér sé risinn upp ríkisbanki. En á það má minna og kynna honum, að framkvæmdasjóður, sem starfar í þessari stofnun, var arftaki Framkvæmdabankans á sínum tíma og að því leyti er þetta banki sem starfar með mjög líku sniði að öðru leyti en því, að Framkvæmdasjóður gegnir ekki almennum viðskiptum, heldur er nær eingöngu endurlánasjóður fyrir atvinnuvegasjóði og þýðingarmikill hlekkur í fjármálastjórn ríkisins, enda er lánsfjáráætlun, að því leyti sem heyrir til Framkvæmdasjóðs, úfbúin af stjórn sjóðsins og afgreidd af ríkisstj. og Alþ. þegar svo ber undir.

Ég hef ekki í höndum reikninga Framkvæmdasjóðs Íslands eins og þeir standa nú, en ég vil fullyrða fyrir fram að afkoma hans er miklu best af öllum þeim sjóðum, sem reknir eru í þessu landi, og hefur hann verið rekin harðar og skilvísar en aðrar fjármálastofnanir þessarar þjóðar, — Þetta bið ég menn að dæma þegar hægt er að leggja fyrir reikninga sjóðsins, — og einmitt á þá vísu sem hæstv. dómsmrh. og hans flokkur hafa þóst berjast fyrir, að fé hans hefur verið betur verðtryggt en fé annarra sjóða. Er ég þá ekki að rugla saman almennum vöxtum og verðtryggingu, sem mönnum hættir allt of oft til, líka hæstv. dómsmrh. og flokksmönnum hans.

Það var talað um miklar freistingar í sambandi við vaxtakjör Byggðasjóðs. Það er rétt, að í upphafi voru vextir af almennum lánum Byggðasjóðs 6%, ákveðnir af vinstri stjórninni sem setti þessa stofnun á fót. Ef menn skoða nú söguna, þar sem menn eru farnir að rifja tíðum upp fyrir sér hinar sögulegu staðreyndir, hvort sem það leiðir til sátta eða ekki, skulu menn athuga að það, sem lagt var úr vör með á sínum tíma, 1971, með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins hefur ekki náð fram að ganga. Það var reitt hátt til höggs þá með stofnun sem virtist eiga að vera yfirbjóðandi lands og sjávar. En því fór víðs fjarri að hún yrði í framkvæmd neitt með því sniði, enda lögunum breytt í grundvallaratriðum frá því sem þá var, fyrir utan það sem lögin, eins og þau voru í upphafi, frá des. 1971, voru aldrei framkvæmd, en það sá m.a. ríkisstj. 1971–1974 um, af því sem þáv. ráðh. sáu í hendi sinni að ekki kom til nokkurra greina að slíkt nýtt drottnunarvald tæki við e.t.v. meginhluta af því verkefni sem þegar átti að vera í höndum framkvæmdavaldsins. — Freistingar fylgja og síðan eru nýir pennar og fjölmiðlafulltrúar mættir til leiks hér sem snúa sömu sveifinni og halda fundi í sjónvarpssal, þar sem þeir beina allri orku sinni að því að dekkja sem mest myndina af starfsemi þessa háa Alþingis og þeim fulltrúum sem þar sitja. Nýjasta dæmið er frá því í gær og ætti hæstv. dómsmrh. manna best að kannast við sviðsetninguna. Ef því er haldið fram, að þeir fjölmiðlar séu aðeins símstöð sem gefur samband og rétta mynd af störfum á hinu háa Alþingi, þá eru það vægast sagt ósannindi.

En ég vil biðja hæstv. dómsmrh. að athuga það. hjá félaga sínum, hæstv. bankamálaráðh., viðskrh. Kjartani Jóhannssyni, hvernig standi hjá þeim, hvernig þeir hafi það viðskiptabankarnir sem hann hefur yfir að segja, hvernig afkoma hafi verið hjá þeim, hvort svo kunni til að bera að t.a.m. Landsbanki Íslands hafi þurft að láta prenta fyrir sig seðla í ómældu upplagi á s.l. ári. Viðskiptabankarnir eru meginstoðin ef á að takast að draga úr spennu og peningamagni í umferð í þessu þjóðfélagi. Ég veit vel að þeir komast vel af í Búnaðarbankanum, enda er sú stofnun sérkennilega rekin, svo að ekki sé meira sagt. En ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, sem ég hef ekki í höndum, hversu miklum fjárfúlgum sú fjárhæð nam, hversu mikil fjárfúlga það var sem Seðlabankinn þurfti að prenta fyrir viðskiptabankana. Það vill nefnilega þannig til, að þeir, sem láta undan freistingunum, að því er talið er og fullyrt er, í Byggðasjóði þurftu ekki á seðlaprentun að halda vegna þess að þar í sjóði voru 710 millj. á s.l. áramótum. Enda þótt, eins og fram hefur komið í þessum umr., fjárveiting til hans væri skorin niður um 1130 millj. við fjárlagaafgreiðsluna í des. 1978 voru 710 millj. þar í sjóði og mundi þó margur vilja kannske renna augunum til þess að þá var kosningaár, þeir a.m.k. sem ætla að þetta gangi yfirleitt fyrir sig sem kosningaveiðar eða mútumennska. Allt þetta hlýtur að koma fram hér og ætti að vera til umr. þegar skýrsla Framkvæmdastofnunar ríkisins liggur fyrir, eins og hún gerir á hverju ári, þar sem lesa má hverja einustu smáfjárveitingu sem veitt er af hálfu stofnunarinnar, bæði Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs, og væri gaman að fá að líta ofan í slíkar skýrslur frá öðrum lánastofnunum og væti þess þá að vænta að hæstv. bankamálaráðh., viðskrh., sæi okkur fyrir slíku gagni. En þá kemur skýrsla um starfsemi stofnunar þessarar til umr. hér í Alþ. þegar forsrh., sem hún heyrir undir, flytur skýrslu sína og hún liggur fyrir í heild og þm. hafa kynnt sér hana.

Ég lagði aðeins lykkju á leið mína vegna þeirrar umr. sem orðið hefur um Framkvæmdastofnunina í tilefni af frv. hv. 6. þm. Suðurl. Það er alveg rétt, að menn hafa hugað að því að Byggðasjóðurinn gæti tekið að sér fleiri verkefni, og ég er m.a. þeirrar skoðunar. Það er rangt, sem hefur verið haldið fram hér, að „landamæri“ hans séu úr sögunni. Á hinn bóginn er það mín skoðun að hann eigi í vaxandi mæli að beina sjónum sínum að almennum fjárfestingum, eftir að talið verður að hans þurfi ekki eins við til að rétta við atvinnumál í hinum dreifðu byggðum landsins og áður var. Þar hefur okkur tekist vel upp og náð stórkostlegum árangri. Þessi sjóður hefur eflst að fjármunum og ég álít að í vaxandi mæli hljóti hann að beina spjótum sínum að því að verða almennur fjárfestingarlánasjóður. Þá hlýtur verksvið hans að víkka og mat hans meira að fara eftir gagnsemi og nytsemi framkvæmdanna en staðsetningu fyrirtækja. Eins er það að ég hef haft mestan áhuga á að Byggðasjóður, svo öflugur sem hann er orðinn, haldi tekjum sínum, en hann taki þátt í að verulegum hluta einu mesta byggðamáli þessarar þjóðar og það eru bættar samgöngur. Og það var í upphafi tillögugerðar minnar og fleiri Sjálfstfl.-manna um varanlega vegagerð sem ég lagði til að þá, þegar sú till. var lögð fram, yrði veittur 1 milljarður úr Byggðasjóði í óafturkræfu framlagi til þessara mikilvægu og einna mikilvægustu framkvæmdanna sem okkar bíður að ráðast í, varanlegrar vegagerðar. Ég held einmitt að þetta sé, fyrir utan að vera eitt brýnasta byggðamálið, eitt mikilvægasta málið til þess að sætta þéttbýli og strjálbýli um þennan lífsnauðsynlega sjóð strjálbýlisins. — Ég get í framhjáhlaupi minnt hv. þm. á uppruna hans, sem var gamli Atvinnubótasjóðurinn sem þm. strjálbýlisins börðust fyrir og fengu stofnaðan á sínum tíma, að vísu ekki með miklu fjármagni, en síðan var gamli Atvinnujöfnunarsjóðurinn sem stofnaður var við byggingu álversins í Straumsvík. Til hvers halda menn? Til þess að láta strjálbýlið njóta einhvers af ávöxtunum af því stórfyrirtæki sem byggt var hérna á þéttbýlissvæðinu. Síðan tók hann nafnið Byggðasjóður við stofnun Framkvæmdastofnunarinnar.

Það er of langt mál hér að fara að rekja sögu baráttunnar fyrir jafnvægi í byggð landsins. En ef menn halda að þeir geti rifið hana upp með rótum með svo yfirborðskenndum kjaftavaðli sem uppi hefur verið hafður í sambandi við starfsemi Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar er það mikill misskilningur, þá er það grundvallarmisskilningur. Ég hef árum saman setið hér þegjandi undir þessu skvaldri af því að það hefur varla verið hönd á það festandi í manneskjulegum og röksemdalegum umr. En af því sem stutt var í varaforseta gerði ég mér hingað erindi vegna þess að þessar fávíslegu fullyrðingar koma enn á ný í dagsljósið án nokkurs tilefnis án þess að málið hefði verið rannsakað eða haft hefði verið fyrir því að kynna sér málavexti að einu eða neinu leyti.

Ég sé á hinn bóginn ekki beina ástæðu til þess, ef menn marka ákveðna stofna fjármagns til ákveðinna aðgerða eins og að jafna orkuverð í landinu, að því fjármagni sé rennt í gegnum Byggðasjóð. Ef markaður verður tekjustofn til að veita til þessara hluta, eins og hér er gerð tillaga um, sé ég ekki að hann eigi erindi í gegnum Byggðasjóð. Þá er hægt að verja fé á fjárlögum beint til þess arna og aðrar stjórnsýslumiðstöðvar geta annað því. — En sem ég segi, um Framkvæmdastofnunina sem slíka mun ég ekki frekar ræða, heldur bíða þess tíma sem skýrsla verður um hana flutt af hæstv. forsrh. og öll kurl hafa komið til grafar, reikningar hennar og nákvæmar skýrslur sem jafnan eru gefnar og útbýtt er hér í þingsölum.