18.12.1979
Sameinað þing: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

Skýrsla forsætisráðherra

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Við framsóknarmenn gerum ekki aths. við það og höfum reyndar samþykkt að stefnuræðu er frestað. Sömuleiðis gerum við enga aths. við það, að þjóðhagsáætlun er ekki lögð fram á þessum fundum Alþ., enda vekjum við athygli á því, að ítarleg jóðhagsáætlun var lögð fram af fyrrv. hæstv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni, og hygg ég að litlu sé við hana að bæta. Þar er gerð ítarleg úttekt á þjóðarbúinu og horfum. Við munum einnig stuðla að því, að þau mál fái framgang á þingi sem nauðsynleg eru fyrir þjóðarbúið. Verður að sjálfsögðu að meta það í hverju tilfelli sameiginlega af flokkunum og munum við taka þátt í því. Ég vil hins vegar lýsa efasemdum mínum um þá hugmynd að fresta þingi og tel réttara að ákveða þinghlé. Það stendur ekki á okkur framsóknarmönnum að mæta til þings strax eftir slíkt þinghlé yfir hátíðarnar, enda sýnist mér af ýmsu að það kunni að teljast nauðsynlegt.

Ég ætla svo að þessum orðum loknum að snúa mér með fáeinum orðum að því sem er aðalinnihald í ræðu hæstv. forsrh., þ.e. ástandi og horfum í efnahagsmálum. Hæstv. forsrh. lýsti ástandi og horfum í efnahagsmálum. Það er allt rétt, en þetta lá allt saman fyrir t.d. í ágúst s.l. þegar innan fyrrv. ríkisstj. hófust ítarlegar umr. um hertar aðgerðir í efnahagsmálum. Ég hygg að staðreyndin sé þó sú, að þetta ástand hafi töluvert versnað síðan. Ég er ekki með þeim orðum að kenna núv. ríkisstj. um það. En ég hygg að í kosningabaráttu og við þá minnihlutastjórn sem við búum hafi þegar verið sýnt að þetta ástand mundi versna. Við framsóknarmenn bentum á þetta þegar við lögðumst gegn því að efnt yrði til kosninga á þessum tíma. Við töldum og teljum enn, að þá hefði verið réttara að sameinast um hertar aðgerðir í efnahagsmálum til þess að bægja frá þeim vandræðum sem voru augljós og eru orðin enn þá augljósari nú og ég þarf ekki að endurtaka, þau hafa verið talin upp af ýmsum, m.a.nú af hæstv. forsrh. Það var af þessari ástæðu sem í fyrri ríkisstj. hófust umr. um það sem ég vil kalla hertar aðgerðir í efnahagsmálum. Ætla ég að fara nokkrum orðum um þær og m.a.að rekja þá útfærslu sem við framsóknarmenn höfum lagt til grundvallar í þeim umr. um stjórnarmyndun sem nú fara fram.

Ég vil þó áður taka fram, út af orðum hv. 1. þm. Reykv. um aðgang að gögnum, að ég hef síður en svo nokkuð við það að athuga að allir þingflokkar fái aðgang að þeim almennu upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun hefur útbúið og afhent viðræðunefndinni, slíkt er sjálfsagt. Hitt er svo annað mál, að það er að sjálfsögðu á valdi einstakra flokka hvort því er dreift, sem þeir leggja fram í þessum viðræðum, eða því áliti sem Þjóðhagsstofnun kann að gefa að þeirra ósk um slíkar till. einstakra flokka. Við höfum talið réttara, meðan á þessum viðræðum stendur, að dreifa slíku ekki almennt.

Við framsóknarmenn sögðum þegar í ágúst, að nauðsynlegt yrði að taka töluvert harðar á í efnahagsmálum ef takast ætti að halda þeim markmiðum sem höfðu verið sett. Þetta stafaði m.a.af því ástandi, sem skapast hafði í alþjóðamálum og rakið hefur verið og kemur fyrst og fremst fram gagnvart okkur í þeirri gífurlegu olíuverðshækkun sem yfir okkur hefur dunið. Við lögðum þá áherslu á að við vildum gera þetta í samráði við launþega þessa lands, við vildum gera þetta án þess að það leiddi til atvinnuleysis og við vildum gera þetta þannig og á þeim tíma að unnt væri að sýna fram á batnandi lífskjör þegar til framtíðarinnar er lítið. Við töldum jafnframt nauðsynlegt að í slíkum aðgerðum yrði kaupmáttur lægri launa tryggður. Við gerum okkur að sjálfsögðu ljóst, að ef mæta á öllum þessum skilyrðum mun ganga hægar að ná verðbólgunni niður, en við teljum það mikilvægara en harðar og óvissar aðgerðir sem leiða til atvinnuleysis, hörku á vinnumarkaði og eru þar að auki mjög óvissar um árangur.

Nú höfum við í þeim viðræðum, sem fram hafa farið, útfært þessar till. töluvert ítarlega og ætla ég ekki að fara nákvæmlega í það í öllum atriðum, en um þær hafa orðið töluverðar umr., m.a. í blöðum í morgun. Í Morgunblaðinu er fjallað um álit Þjóðhagsstofnunar þannig að nauðsynlegt er að leiðrétta.

Við leggjum í umræðugrundvelli okkar áherslu á grundvallaratriði þau sem ég nefndi áðan og viljum að sú ríkisstj., sem mynduð verður, setji sér markmið. Við höfum lagt til að markmiðið verði að koma verðbólgunni niður fyrir 30% á ársgrundvelli 1980 og 18% á ársgrundvelli 1981. Út frá þessum markmiðum göngum við í till. okkar. Við leggjum jafnframt til leiðir að þessum markmiðum og tökum þar á hinum ýmsu þáttum sem mikilvægastir eru í viðureigninni við verðbólguna.

Við leggjum áherslu á að ríkissjóður verði rekinn hallalaust. Við teljum ekki kleift að hækka skatta frá því sem nú er, og leiðir það til þess að skattheimtan verði innan við eða um 29% af þjóðartekjum. Við leggjum áherslu á að rekstur ríkissjóðs verði bættur, m.a. með því að draga úr þeim halla sem er á ríkissjóði fyrri hluta árs. Við teljum jafnframt nauðsynlegt að fundið sé svigrúm til þess að verja nokkru fjármagni til að styrkja ríkissjóð og jafnframt til þess að styrkja kaupmátt lægri launa sem þátt í launamálastefnu ríkisstj. Um þennan þáttinn í tillögum okkar framsóknarmanna segir Þjóðhagsstofnun orðrétt, að þær tillögur séu „hóflega aðhaldssamar.“ Þetta er rétt.

Við höfum gert okkur far um að skoða hvers kyns verðbólgan er. Vafalaust er að verðbólga hér á landi hefur á undanförnum árum breyst töluvert frá því að vera þensluverðbólga í að vera víxlverkandi verðbólga. T.d. benda tölur um einkaneyslu til þess. Aukning á einkaneyslu hefur dregist saman ár eftir ár. Aukningin var um 6% 1976, en 1.5% 1978. Engu að síður er verðbólgan að sjálfsögðu blanda af þessu tvennu, og þess vegna teljum við að aðhald verði engu að síður að vera í ríkisfjármálum. En við teljum þó unnt að beita ríkissjóði að nokkru leyti til þess að ná viðunandi stöðu í atvinnumálum og kjaramálum.

Í fjárfestingarmálum teljum við að fjárfestingin geti orðið á milli 25 og 26% af þjóðartekjum. Þetta er nokkur aukning frá því sem er á yfirstandandi ári. En við teljum ákaflega mikinn mun á því, til hvers fjármagnið er notað. Að sjálfsögðu verða erlend lán að takmarkast við greiðslugetu þjóðarinnar. Var endurgreiðslan á síðasta ári um 14.1%. Það er hæfilegt almennt séð. Við teljum þó að þetta megi auka eitthvað, ef þess er vandlega gætt að slíkar lántökur séu til framleiðsluaukningar eða gjaldeyrissparnaðar og sé fyrst og fremst varið til kaupa á vélum og erlendum hlutum sem ekki leiða til óeðlilegrar þenslu í þjóðarbúskapnum.

Þau drög, sem liggja fyrir að lánsfjáráætlun, gera ráð fyrir 25.8% fjárfestingu af þjóðartekjum. Þau gera jafnframt ráð fyrir erlendri lántöku um 80–85 milljarða. Við teljum að sú erlenda lántaka sé of mikil og þurfi að draga þar nokkuð úr og eigi að gera það með auknum innlendum sparnaði. Ég veit að ýmsir telja að draga beri úr fjárfestingu, en orkuframkvæmdir eru mjög stór hluti sem við teljum að eigi að hafa forgang. Um þennan þáttinn segir Þjóðhagsstofnun jafnframt, að þarna sé um auknar framkvæmdir að ræða og því ekki í þeim aðhald að þessu leyti frá því sem var 1979. Vísa ég til þess sem ég sagði áðan um það.

Í peninga- og lánamálum teljum við að til lítils sé að setja ákveðinn hundraðshluta í lög um hvað peningamagn megi aukast í umferð. Ég held að það standist satt að segja ekki. Hins vegar er alveg ljóst, að ríkisvaldið verður ætíð að vera tilbúið til þess að beita þeim tækjum sem það á tiltækt til þess að peningamagn aukist ekki óeðlilega umfram það sem almennar verðlagshækkanir eru í þjóðfélaginu. Við leggjum áherslu á að sú vaxtastefna, sem fylgt hefur verið, verði vandlega skoðuð. Við teljum að óráðlegt sé að hækka vexti og verðtryggingu frá því sem nú er, en viljum hins vegar að verðtrygging og verðbólga mætist fremur með ákveðinni áfangahjöðnun verðbólgunnar.

Hins ber þó að gæta í þessu sambandi, að áreiðanlega er mjög nauðsynlegt eins og nú stendur að leita leiða til þess að létta greiðslubyrði af atvinnuvegunum. Þar stefnir í strand, m.a. vegna þess að ákvæðum laga um stjórn efnahagsmála o.fl. frá 10. apríl hefur ekki verið framfylgt. Lenging lána hefur ekki orðið eins og þar hefur verið ætlast til, og það er rétt, sem kemur fram í fréttum, t.d. frá forsvarsmönnum frystiiðnaðarins og útgerðar, að rekstrarlán hafa alls ekki aukist eins og gera verður ráð fyrir með auknum kostnaði. Þarna er brotalöm á sem verður að leiðrétta. Einnig virðist óeðlilegt að lán til fiskiðnaðarins séu bundin byggingarvísitölu eins og gert er. Ég hygg að töluvert svigrúm sé til þess að létta a.m.k. greiðslubyrði verulega af atvinnuvegum landsins.

Um þetta má einnig segja að það sé hóflega aðhaldssamt. Vitanlega er hægt að ganga lengra og þrengja meira að, en eiga á hættu atvinnuleysi og stöðvun. Það getum við allir séð í hendi okkar. Það viljum við framsóknarmenn ekki.

Við viljum jafnframt taka á verðlagsmálunum þannig að setja ákveðið hámark á leyfilegar verðhækkanir ársfjórðungslega. Okkar till. voru og eru að þetta hámark verði 8% til 1. mars, 7% til 1. júní, 6% til 1. sept. og 5% til 1. des. Ljóst er að þegar er mikið af verðlagi komið út sem brýtur þessi mörk og því ræðst alls ekki við þetta nú á þessum ársfjórðungi. Við höfum þó talið rétt að halda þessum mörkum eftir sem áður, eins og við höldum því grundvallarmarkmiði að ná verðbólgunni niður fyrir 30% á ársgrundvelli.

Ég kem nú að því sem segja má að sé niðurstaða af þeirri úttekt sem Þjóðhagsstofnun hefur gert og hefur verið mjög rangtúlkuð og ég tel mér því nauðsynlegt að ræða nokkuð.

Þjóðhagsstofnun telur að ekki verði unnt að ná hækkun framfærsluvísitölu niður í 8% 1. mars, af því að svo mikill þungi sé á verðhækkunum. Ekki var gripið í taumana þegar í nóv. og þak sett á þær eins og við vildum og Alþfl.-stjórnin gerir raunar núna. Hún hefur sett 9% þak á verðhækkanir, sem er sú tala sem við nefndum þegar í nóv. og hefði betur verið gert þá að sjálfsögðu. Því telur Þjóðhagsstofnun að þrátt fyrir þessa viðleitni hækki framfærsluvísitala um 10–11% 1. febr. n.k. Hagstofan gerir sér vonir um nokkru minni hækkun, en yfirleitt hefur slíkt farið fram úr áætlun og því ráðlegast að hafa þá töluna sem hærri er. Þjóðhagsstofnun telur að vegna þess þunga, sem er, muni taka eitthvað lengri tíma í upphafi að komast niður í umrædda áfangahjöðnun verðbólgunnar. Þjóðhagsstofnun segir í áliti sínu, að í árslok ætti með þessu móti verðbólgan á ársgrundvelli að vera komin niður í 37–38%, en ekki 40–45 eins og skýrt var frá í Morgunblaðinu í morgun að yrði eftir áramótin. Og vitanlega er hraði verðbólgunnar kominn töluvert neðar, niður í kringum 32–33 %. En það mikilvægasta, sem ég sé í þessari úttekt, er að Þjóðhagsstofnun telur jafnframt, að ef markvisst er unnið á þessari braut verði verðbólgan komin niður í 20% í lok ársins 1981 á ársgrundvelli. Í raun og veru er mikilvægara, sýnist mér, að ná verðbólgunni niður markvisst og geta staðið við þau grundvallaratriði, sem ég nefndi í upphafi máls míns, en ráðast á hana með einhverjum látum, einhverju áhlaupi og hafa óvissuna alla fram undan. Við erum að sjálfsögðu tilbúnir að skoða leiðir til þess að ná verðbólgu niður hraðar og það væri æskilegt, enda verði þá þeim markmiðum, sem ég nefndi áðan, ekki stefnt í óeðlilegan voða.

Við leggjum á það höfuðáherslu í þessum hugmyndum okkar að leitað verði samkomulags við launþega um launastefnu, og ég vil leyfa mér að segja að hvaða ríkisstj. sem er mynduð hlýtur að leita eftir slíku samkomulagi, ef henni er annt um árangur af aðgerðum sínum. Við leggjum til að leitað verði samkomulags við launþega um takmarkanir á launahækkunum ársfjórðungslega, eins og ég hef áðan rakið um verðlag, en við leggjum jafnframt áherslu á að náist það ekki verði sá mismunur bættur með félagslegum umbótum, með skattaívilnunum eða að öðrum leiðum sem menn koma sér saman um, þannig að kaupmáttur lægri launa verði tryggður í hæfilegu stigi miðað við það sem hann hefur verið. — Ég skal ekki segja hvað hann á að vera. Það á að vera athugunaratriði. Kaupmáttur launa verkamanna var að meðaltali á árinu 1979 116.4%, en á síðasta ársfjórðungi 1979 er hann 113.1 miðað við 100 í janúar 1977. Ég gæti vel ímyndað mér að unnt væri að tryggja kaupmátt einhvers staðar þarna á milli, ef menn fara ekki of hátt upp eftir launaskalanum. Til þess eru ýmsar leiðir að sjálfsögðu.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því í þessu sambandi, þegar litið er á kaupmáttartölur, að kaupmáttaraukning hinna ýmsu stétta í þjóðfélaginu er ákaflega mismunandi. Kaupmáttaraukning hjá opinberum starfsmönnum, miðað við 100 í janúar 1977, er 127 borið saman við 116 hjá verkamönnum. Þarna er um mikinn mun að ræða sem vitanlega gerir málið stórum erfiðara gagnvart þeim sem hafa orðið á eftir, en stunda oft og iðulega sömu vinnu. Þetta er stórt vandamál sem menn ættu að hafa í huga.

Í niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar um þessar till. okkar framsóknarmanna segir, að án þess að tekið sé tillit til þeirra aðgerða, sem við teljum nauðsynlegar til að tryggja kaupmátt lægri launa, verði kaupmáttarskerðingin um 5–6% árið 1980 og 3% á árinu 1981. Verði hins vegar bætt um 1% — við leggjum til 2% — þá verði kaupmáttarskerðingin á árinu 1980 4–5%, en engin á árinu 1981. Hins vegar skal tekið fram, að árið 1981 er ákaflega erfitt í öllum slíkum útreikningi. Þarna er miðað við meðalkaupmátt ársins 1979, sem er 116.4 hjá verkamönnum, eins og ég sagði áðan. Með 1% lagfæringu, eins og er í síðara dæminu, verði kaupmáttur svipaður og hann er síðasta ársfjórðung 1979. Í þessu sambandi er einnig rétt að vekja athygli á þeirri kaupmáttarskerðingu sem mun verða ef ekkert er að gert. Samkv. áætlun Hagstofunnar er þegar í farvatninu kaupmáttarskerðing 1. mars sem nemur 2% frá framfærsluvísitölu. Hagstofan telur að framfærsluvísitala hækki um 10%, en verðbótavísitala um 8%, þannig að þótt ekkert sé gert verði kaupmáttarskerðing á næsta ári um 4–5% að mati sérfræðinga.

Í niðurstöðunum segir orðrétt:

„En eitt er víst, að miklum örðugleikum er bundið að ná verðbólgunni niður í það, sem sett er sem markmið till., á skemmri tíma en hér er reiknað með,“ þ.e.a.s. 30% 1980, og 18% 1981. Þarna er að sjálfsögðu um að ræða að standa við þau markmið sem menn hafa sett sér.

Það er skoðun okkar framsóknarmanna, að þannig beri að vinna að hjöðnun verðbólgunnar.

Ég skal ekkert um það segja, hvort samstaða næst í þeim viðræðum sem nú fara fram. Ljóst er að það hriktir í og er margt sem bendir til að litlar líkur séu til þess að stjórnarmyndun takist. Á það hlýtur að reyna allra næstu daga. Það er hins vegar einlæg von mín, að þær tilraunir, sem gerðar verða, endi með því að takist að mynda þingræðisstjórn, því að það er þjóðinni nauðsynlegt. Ég er í engum vafa um að stuðningsmenn þeirra þriggja flokka, sem nú ganga til viðræðna, hafa með atkv. sínu að mjög miklum meiri hl. óskað eftir því, að vinstri stjórn yrði mynduð. Þetta er okkar mat og er byggt á mörgum viðtölum við menn. Því er það skoðun mín, að reyna beri á það til hins ítrasta hvort málefnasamstaða næst, en þó ekki það lengi að slíkt verði til að tefja fyrir öðrum möguleikum á stjórnarmyndun. Ég mun því ekki halda föstu því umboði, sem ég hef, langt umfram þennan dag.

Hvaða ríkisstj. sem verður mynduð verður að ráðast gegn verðbólguvandanum og verður að gera það á þann máta, að mínu mati, að ekki leiði til mikilla erfiðleika vegna atvinnuleysis og vegna átaka á vinnumarkaði. Þá hygg ég að niðurstaðan verði eitthvað á þann veg sem ég hef rakið.