24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við fsp. mínum um þetta efni. Ekkert í þeim svörum kom mér út af fyrir sig á óvart, þar eð í fréttatilkynningu sem iðnrn. sendi frá sér í nóv. komu fram röksemdafærslur af svipuðu tagi og hér voru fram bornar.

Mér þótti athyglisvert að hæstv. ráðh. vitnaði allmikið í upphafi í grg. með frv. um aðlögunargjald, en hann vék ekki að því atriði, sem ég kom að áðan, að samkomulag það, sem náðist við EFTA um álagningu gjaldsins, byggðist ekki á þeirri röksemdafærslu sem iðnrn. nú ber fram varðandi ráðstöfun gjaldsins. Það „uppsafnaða óhagræði“, sem þar er lagt til grundvallar og Félag ísl. iðnrekenda hefur sérstaklega fært rök fyrir að sé á rekstraraðstæðum íslensks samkeppnisiðnaðar miðað við sjávarútvegs og komi fram í gengisóhagræði, hreif ekki sem röksemd á vettvangi þessara fríverslunarsamtaka sem við eigum aðild að. Og ég get vel skilið að aðstæður, sem við höfum í hendi okkar varðandi þessa atvinnuvegi okkar, séu ekki taldar sérstakt tilefni til styrkja af þessu tagi eða álagningar slíkra gjaldstofna.

Meginatriðið í þessu máli, sem kann að virðast nokkuð flókið fyrir suma hv. þm. sem ekki hafa sett sig þeim mun meira inn í það, er að brýn nauðsyn er á að treysta undirstöður samkeppnisiðnaðar okkar. Það verður ekki best gert með því að dæla inn tímabundið styrkjum til íslenskra iðnfyrirtækja, eins og hér er verið að gera, án þess að tryggja að ástæðurnar fyrir umræddu óhagræði séu afnumdar. Það verður best gert með því að gera almennar ráðstafanir til að treysta margháttaðar undirstöður í iðnaði okkar og skjóta fótum undir ný verkefni á sviði iðnaðar okkar og efla þannig iðnþróun.

Ég tel því að sú gagnrýni, sem ég bar fram áðan, hafi við fyllstu rök að styðjast og að það sé hið mesta óráð hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekið á þessu máli, það séu handahófsvinnubrögð. Hún hefur ekki beitt sér á neinn hátt fyrir því, svo mér sé kunnugt, og hæstv. ráðh. staðfesti það raunar, að afnumið verði hið „uppsafnaða óhagræði“, sem lagt er til grundvallar úthlutun á verulegum hluta af þessu gjaldi. Og ég verð að segja það, að ég tel að þetta mál sé eitt af nokkrum málum sem upp úr standa og eru þess eðlis að með öllu er óeðlilegt að stjórn af því tagi sem nú situr taki ákvarðanir í slíku máli, nema það sé þá ábyrgðarflokkur ríkisstj., Sjálfstfl., og hv. þm. hans sem styðja slíka gjörð. Mér þykir rétt að spyrjast sérstaklega fyrir um, hvort þar hafi verið leitað álits á þessu máli.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að iðnrn. hafi gert tillögur vegna ársins 1980 um að halda áfram endurgreiðslum á „uppsöfnuðu óhagræði“ að upphæð 1200 millj. kr. af áætluðum 1700 millj. kr. tekjum af þessu gjaldi. Ég tel þessa fyrirætlan á sama hátt mikillar gagnrýni verða. Ég vil benda sérstaklega á að í fjárlagafrv. hæstv, fjmrh. er alls ekki gert ráð fyrir þeim greiðslum. Þær eru þar hvergi gjaldamegin svo mér sé kunnugt. Ég vænti að hv. fjvn.-menn leggi við eyra. Hitt er rétt, að þar er gerð þó bragarbót frá þeirri dæmalausu meðferð hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, að ætla að hirða tekjur af þessu tímabundna gjaldi til stuðnings iðnaðinum í ríkiskassann á árinu 1980, en það er látið að því liggja í aths. við frv. hans, að þær geti verið til ráðstöfunar á árinu 1981. Þetta er þó aðeins skárra hjá hæstv. ríkisstj. sem nú situr. Hún er þó með 500 millj. kr. til sérstakra verkefna og fyrirhugaðra lánveitinga til iðnþróunarverkefna, en hjá fyrrv. hæstv. fjmrh. var, algerlega andstætt þeim tillögum, sem fyrir honum lágu, og gegn þeim samtölum, sem milli okkar höfðu farið, ekki gert ráð fyrir krónu af þessu gjaldi til iðnþróunaraðgerða á árinu 1980.

Ég tel að hér sé um eitt af eflaust mörgum stórum málum að ræða, sem hv. fjvn. þurfi að taka til gaumgæfilegrar athugunar, og ég vænti þess, að það verði gert og þá höfð til hliðsjónar lagafrv, og grg. með lagafrv. ásamt lögunum, sem samþykkt voru s.l. sumar, og þau áform, sem uppi voru hjá fyrrv. ríkisstj. og iðnrn. á þeim tíma um ráðstöfun á þessu gjaldi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli hv. þm. á þeirri meðferð sem fjárveitingar til iðnaðarmála hafa fengið á hv. Alþ. um árabil. Það er með þeim hætti að það er Alþ. til lítils sóma. Beinar fjárveitingar til málefna iðnaðarins hafa farið lækkandi ár frá ári frá árinu 1973 að telja. Þær námu um 0.84% af upphæð fjárlaga á því ári og höfðu ekki farið hærra um skeið. En þær voru komnar á s.l. ári niður í 0.46% af fjárlagaupphæð, og samkv. fjárlagafrv. fyrrv. hæstv. fjmrh. var þetta hlutfall enn lækkað niður í 0.32%. Það kann að vera að hlutfallið nú sé aðeins skárra vegna 500 millj. sem ég gat um áðan, ég vil ekki fara með það, en eftir stendur að málefni iðnaðarins hafa fengið hina hraklegustu meðferð í sambandi við stuðning af opinberri hálfu á undanfórnum árum. Þetta gerist á sama tíma og eiginlega allir stjórnmálaflokkar ljá iðnþróun varaþjónustu, hafa á orði nauðsyn iðnþróunar í landinu og hafa fyrir augum í skýrslum og grg. að það eru ekki aðrir atvinnuvegir líklegri til þess að taka við mönnum sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Um það liggja fyrir skýrar grg., m.a. frá Framkvæmdastofnun ríkisins, að á næstu þremur árum séu líkur á að iðnaðurinn þurfi að taka við 3000 nýliðum í störf og 5–6 þús. ef horft er til næstu 8 ára. Það gerist ekki nema menn taki sig á í sölum Alþingis og taki með öðrum hætti á fjárveitingum til iðnaðarmála en gert hefur verið. Það verður vissulega ekki allt tekið beint úr ríkissjóði. Þar skiptir að sjálfsögðu meðferð á lánasjóðum iðnaðarins og fjárveitingum til þeirra talsverðu máli. Á því kom fram aukinn skilningur í tíð fyrrv. ríkisstj., þannig að staða t.d. Iðnlánasjóðs vænti ég að verði betri en áður var, en sótt var fast á að fá aukið fjármagn til hans.

En það verður að brjóta hér í blað, og það má til, að mínu mati; að hverfa frá þeirri stefnu sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að burðast við að setja fram, því að það er í engu samræmi við það, hvernig æskilegt er og réttmætt er að ráðstafa þessu gjaldi, burt séð frá þeim samningum sem gerðir hafa verið. Ég treysti því, að hv. fjvn. taki þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar og líti á tillögurnar sem lágu fyrir s.l. haust frá iðnrn. um þetta efni.