24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég er bæði sammála og ósammála hv. þm. sem talaði áðan. Ég leit svo á að þær tillögur, sem lágu fyrir í iðnrn. frá honum og hv. starfsmanni sem hann hafði aðallega fengið til að skoða þessi mál, væru að verulegu leyti skýjaborgahugmyndir. Og ég leit líka svo á að í þeirri aðstöðu, sem við erum nú í, þýddi ekki að horfa á skýjaborgir, þó það væri skemmtilegra, við yrðum að skoða raunveruleikann. Raunveruleikinn var sá, að þessi gjöld voru lögð á til að bæta hag útflutningsiðnaðarins og hag þeirra sem áttu í samkeppni við innflutningsiðnað. Þess vegna hagaði ég mér eftir því að þeir aðilar, sem gjöldin voru ætluð til hagræðis, fengju að njóta þessa, en ekki að fénu væri dreift í smáum upphæðum hingað og þangað til undirbúnings einhverju sem væri æskilegt að kæmi eftir 2, 3, 4, eða 10 ár. Þetta er grundvallarmunurinn á skoðun minni og hæstv. fyrrv. ráðh. um hvernig nota skyldi fé þetta.

En ég er sammála hv. þm. um að hv. fjárveitingavald þarf að veita iðnaðinum miklu betri fyrirgreiðslu en hefur verið gert undanfarið, vegna þess að hjá iðnaðinum hlýtur að liggja vaxtarbroddurinn að þeim atvinnugreinum sem geta tekið við þeim aukna mannafla sem kemur á vinnumarkaðinn næstu ár. Hinu verð ég jafnframt að vekja athygli á, að undir iðnaðinn heyra líka orkumálin og þar hefur að mörgu leyti verið reynt að taka talsvert á málum, þannig að ef það er skoðað líka er framlagið til iðnaðarins ekki eins hraklegt og ef maður tekur iðnaðinn í þrengri merkingu. En ég skal samt sem áður fúslega taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, að það þarf bæði í fjárlögum, lánsfjáráætlun og í umr. og atfylgi hér á Alþ. að taka meira og betra tillit til iðnaðarins með það fyrir augum að gera hann hæfari um að taka við þeim mannafla sem auðsjáanlega hlýtur að bætast á vinnumarkaðinn hvað úr hverju og við sjáum ekki að hinir atvinnuvegirnir, aðalatvinnuvegirnir, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, geti nema mjög takmarkað tekið við.