24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar vinstri stjórnin hóf störf haustið 1978 var það eitt af stefnumiðum hennar að freista þess að fá framlengdan aðlögunartíma Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Hugmynd ríkisstjórnarflokkanna var að fresta lækkun tolla, því þrepi sem átti að taka gildi frá og með 1. jan. 1979. Enda þótt þetta væri mjög skýrt ákvæði í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, sem þá voru, náðist ekki um það samkomulag, þegar á átti að herða, innan þáv. ríkisstj. og því var valin sú leið að reyna aðrar aðferðir til þess að knýja á um lengdan aðlögunartíma Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu.

Undir þeim forsendum var aðlögunargjaldið samþykkt af Fríverslunarbandalaginu á sinum tíma, að hér væri verið að grípa til ráðstafana til að styrkja íslenskan iðnað til frambúðar gagnvart þeirri samkeppni innflutningsvara sem fylgdi aðildinni að EFTA. Þetta grundvallaratriði finnst mér alveg óhjákvæmilegt að menn hafi í huga og þm. átti sig skýrt á því, að þessi ráðstöfun hafði þann tilgang númer eitt að styrkja íslenskan iðnað, samkeppnishæfni hans til frambúðar, þ.e. í lengd, en ekki aðeins í bráð. Sú aðferð, sem fyrrv. hæstv. fjmrh., Tómas Árnason, ætlaði að nota í þessu skyni, að taka þessa peninga í ríkissjóð, í ríkishítina, en ætla þeim ekki sérstakan farveg til iðnaðarins, var vitaskuld algjörlega fráleit. Og sú aðferð, sem núv. hæstv. ríkisstj. virðist beita í þessu skyni, er einnig fráleit, eins og hér hefur verið lýst af hv. 5. þm. Austurl. Þó er hún alveg sérstaklega fráleit vegna þess að hér er um að ræða starfsstjórn annars vegar og hins vegar er hér um að ræða tiltekinn milliríkjasamning sem Íslendingar hafa gert gagnvart Fríverslunarbandalaginu þegar samþykkt þess er gerð í maímánuði 1979 um álagningu þessa aðlögunargjalds.

Mér finnst að það skipti ákaflega miklu máli að allir hv. alþm. átti sig á hvað hér var í rauninni um þýðingarmikið skref að ræða þegar Fríverslunarbandalagið samþykkti lengri aðlögunartíma. Það skref þýddi að Fríverslunarbandalagið viðurkenndi að Ísland hefði algjöra sérstöðu innan bandalagsins. Það hefur ekki gerst áður og kemur í rauninni þvert á kenningar ýmissa embættismanna og annarra sem börðust fyrir aðild Íslands að EFTA á sínum tíma og töldu útilokað að Íslendingar gætu náð fram slíkri sérstöðu. Félag ísl. iðnrekenda hafði árum saman reynt að knýja á um að viðurkennd yrði sérstaða sem fælist í svokölluðu „gengisóhagræði“. Því var algjörlega hafnað af þessum aðilum. En þegar fyrrv. vinstri stjórn lagði spilin þannig á borðið að hér væri verið að knýja á um aðeins lengri aðlögunartíma vegna sérstöðu hins íslenska markaðar og hins íslenska iðnaðar, þá var á þau sjónarmið fallist. Mér finnst mikilvægt að átta sig á þessu, ekki síst fyrir þá hv. alþm. sem hér sitja enn og báru ábyrgð á því að Ísland var knúið inn í fríverslunarbandalagið á sínum tíma.