24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið né heldur taka upp þau efnisatriði sem hér er verið að ræða, en þessar umr. eru satt að segja dálítið skringilegar. Hér er verið að krefja starfsstjórn sagna og bera henni á brýn að hún fari ekki að lögum. Það gerir hæstv. fyrrv. iðnrh., þótt vitað sé að hann átti í stríði innan sinnar hæstv. ríkisstj. um sömu mál og varð reyndar að lúta í lægra haldi fyrir hv. þm. Tómasi Árnasyni, sem þá var fjmrh. Hitt er svo annað mál, að það er eðlilegt að fyrrv. hæstv. ráðh. komi í ræðustól nú og afsaki sig í bak og fyrir þar sem hann hafi ekki farið að lögum. Undir það skal tekið og undirstrikað að þessar umr. eru þess vegna kannske eðlilegar.

Ég vil láta koma fram, að ég hef fulla samúð með þeim málstað sem kemur fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni efnislega. En ég get ekki orða bundist þegar hann kemur hér og fer að skammast út í þá stjórn sem nú situr og er valdalaus með öllu, er starfsstjórn, og ætlast þannig til meira af henni en eigin stjórn. Það er raunar það sem hv. þm. er að gera.

Við þurfum jafnframt að hafa í huga, að þessi tvö mál, sem hefur verið rætt um í dag, eru samofin aðildinni að Fríverslunarbandalaginu og samningum við Efnahagsbandalag Evrópu. Þeir samningar eru ekki einhliða til hagræðis fyrir þær þjóðir sem flytja til landsins. Þeir eru öðrum þræði til þess að við getum eflt útflutning okkar. Þetta eru tvíhliða samningar sem báðir aðilar eiga að hafa gagn af. Því er rangt þegar hv. þm. Svavar Gestsson, fyrrv. viðskrh., kemur hér upp í stól og lætur líta svo út að þetta sé einhliða fyrirbæri orðið til að hamast á Íslendingum, þannig að útlendingar geti flutt hingað vörur til landsins og skákað íslenskum iðnaði. Þetta verða menn ætíð að hafa í huga þegar rætt er um þessi viðskiptamál.

En það, sem eiginlega rak mig upp í ræðustólinn, eru þau orð fyrrv. hæstv. ráðh., að hér beri að fara að lögum. Ég veit ekki betur en í þeim lögum, sem heita lög um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13 frá 1979, finnist varla grein sem farið hafi verið eftir.

Ég get nefnt ýmsar tölur í þessum lögum. Í 10. gr. segir, að það eigi að lækka ríkisútgjöld, og nefndar 1000 millj. kr. Við getum flett þessum lögum áfram og lítið á ýmsar tölur. Við getum litið á 30. gr.: „Á árinu 1979 skal að því stefnt að aukning peningamagns í umferð fari ekki fram úr 25% frá upphafi til loka árs.“ Með leyfi forseta er ég að lesa úr þessum lögum. — Var farið að þeim lögum? Í 31. gr. er fjallað um innistæðubindinguna 28%. Svona má lengi telja. Svo kemur fyrrv. ráðh. í ræðustól á Alþ. og segir: Á ekki að fara að lögum? Það hefur aldrei verið farið eftir þessum lögum, og væri viðurlagabálkur í þeim sætu kannske einhverjir hv. alþm. inni fyrir vikið.