24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins af því, að hv. þm: Friðrik Sophusson fór að blanda inn í umr. óskyldu atriði og dálítið einkennilegu, sem ég vil segja örfá orð.

Hann sagði að lögin um stjórn efnahagsmála, nr. 13 frá 1979, hefðu alls ekki verið framkvæmd. Ég held að þetta séu stóryrði sem hv. þm. geti ekki staðið víð. Ég hef ekki lögin við höndina, en ég kann svolítinn graut í þeim. M.a. vil ég benda honum á að 11. kafli fjallar um samráð. Það var eitt af seinni verkum mínum í fyrrv. ríkisstj. að ganga frá reglugerð um það efni. Ef samráð hefur ekki verið framkvæmt eins og stendur í þeirri reglugerð og lögunum er það á ábyrgð þeirrar stjórnar sem nú situr. Það þýðir ekkert að vera að klifa á því að hún sé starfsstjórn. Þetta er stjórn sem ber fulla ábyrgð. Og ef ráðh. vilja ekki bera ábyrgð verða þeir að gera svo vel að fara til forseta og fara þess á leit við hann að hann hverfi frá fyrri ákvörðun sinni um að biðja þá að sitja lengur, því að þeir losna ekki undan ábyrgðinni meðan þeir sitja í stólunum.

III. kaflinn fjallar um fjárlagagerð, ef ég man rétt. Ég hygg að við fjárlagagerð og við undirbúning fjárlagafrv., sem fyrrv. ríkisstj. stóð að, hafi verið fylgt ákvæðum laganna bókstaflega. Annars er fyrrv. fjmrh. betur fær til frásagnar um þau atriði.

IV. kaflinn fjallar, ef ég man rétt, um lánsfjáráætlun og atriði þar að lútandi. Mér er óhætt að segja að í tíð fyrrv. ríkisstj. var líka unnið að undirbúningi lánsfjáráætlunar á þeim grundvelli sem er lagður í efnahagslögunum.

V. og VI. kaflinn munu fjalla um peningamál og vaxtamál. Þar er m.a. gert ráð fyrir að tekin verði upp verðtrygging og að henni verði að fullu komið á í áföngum fyrir árslok 1980. Ég veit ekki betur en í höfuðatriðum hafi verið farið eftir því og þeim stefnumörkum sem sett eru í þessum köflum. Vera kann að það séu einhverjar prósentur nefndar þar sem einhverjir höfðu sérstakan áhuga á. Það er gott að hafa þær á pappír, en það er ekki alltaf sem þær standast í veruleikanum. En það er hæpið af hv. þm., sem er lögfræðingur, að vera að tala um lögbrot í því sambandi eins gífuryrt og hann gerði, að jafnvel mundu menn sitja inni fyrir þær sakir að ekki hefði verið farið eftir þessum lögum.

Ef ég man rétt er næsti kafli á eftir um verðbætur á laun. Ég veit ekki betur en að farið hafi verið alveg nákvæmlega eftir þeim kafla við útreikning á verðbótavísitölu. Að vísu var gerð breyting á bráðabirgðaákvæði hans með lögum.

Svo er kafli um vinnumarkaðsmál. Ég veit ekki betur en hæstv. félmrh. hafi unnið að því að hrinda honum í framkvæmd, jafnt fyrir andlátið sem eftir upprisuna, — jafnt í tíð fyrrv. ríkisstj. og í tíð núv. stjórnar. Hann hefur ráðið sérstakan mann, að ég ætla, sem fulltrúa eða deildarstjóra í félmrn. til þess að annast um þessi mál, sem geta verið mjög mikilvæg að mínum dómi.

Svo er kafli um endurskoðun á sjóðum sjávarútvegsins. Ég efast ekki um að hæstv. sjútvrh. hefur hugað að þeim málum.

Það eru því ekki rök til þess fyrir hv. þm. að haga máli sínu eins og hann gerði.

Herra forseti. Það er stærra viðfangsefni að ræða um þessa löggjöf en svo að hægt sé að gera slíkt í fyrirspurnatíma, enda var þetta innskot og aukaþáttur hjá hv. þm. En jafnvel þó menn hafi ánægju af því að auglýsa sjálfa sig og skjóta auglýsingaþáttum inn í annars óskyld mál mega menn ekki gerast offara eins og hv. þm. með því að vera með jafngífurlegar fullyrðingar og hann fór með áðan.