24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Lögin um hvernig aðlögunargjaldi skuli ráðstafað hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjum af aðlögunargjaldi á árinu 1979 skal varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða samkv. nánari ákvæðum ríkisstj., að fengnum tillögum iðnrh.

Á sama hátt skal tekjum af gjaldinu á árinu 1980 varið til eflingar iðnþróunar samkv. ákvæðum fjárlaga.“ Það var engin spurning um, að tekjur af þessu gjaldi mundu nema um 1700 millj. kr. á þessu ári, í þann mund sem gengið var frá fjárlagafrv. En það lágu ekki fyrir neinar tillögur frá iðnrn. um til hvaða sérstakra iðnþróunaraðgerða gjaldið skyldi renna. Og það var aldrei ætlun mín að þannig væri farið að með þetta mál að iðnrn. eitt réði hvernig frá því væri gengið. Gert er ráð fyrir því samkv. lögunum að það skuli gert í fjárlögum. Þess vegna vildi ég ekki ganga frá málinu í einu lagi þannig að það væri á færi iðnrh. eins og fjvn. að ganga frá ráðstöfun gjaldsins. Ég vildi að það væri ríkisstjórnarmál og kæmi fram í fjárlagafrv. sundurliðað. Um það hefur þessi deila snúist.