24.01.1980
Neðri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Mér hefur skilist, að mjög mikilvægt sé að ljúka þessum málum í dag, og er nokkuð undrandi á að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera viðstaddur. (Forseti: Mér er um það kunnugt að hæstv. ráðh. er við það bundinn í Ed. að mæla fyrir frv. sem snertir þetta mál, um olíugjald.) Ég ætla þá ekki að gera hlé á máli mínu, en skil að hæstv. ráðh. verður að sinna því einnig og erfitt er fyrir hann að vera á báðum stöðum. Ég tek orð forseta til greina að því er það varðar.

Hér er um að ræða mjög umfangsmikið mál. Það er í sjálfu sér mjög erfitt fyrir þm. að standa frammi fyrir svo stórum málum sem þessu og það skuli ekki vera tími til að líta á hvaða áhrif slík lagasmíð muni hafa.

Það kemur hér fram að gert er ráð fyrir að koma upp verðjöfnunardeild sem á að hafa til umráða 2.7 milljarða kr. til að hafa áhrif á fiskveiðistefnu okkar, hvaða fisktegundir skuli veiddar. Ég á von á að þeim peningum verði fyrst og fremst varið til þess að auka karfaveiði. Það er nefnd hér ufsaveiði, þó að ég sé mjög efins um að það sé svo mikill ufsi við landið að ástæða sé til að auka mjög sókn í hann. A.m.k. verður hans ekki mikið vart á grunnslóð eins og oft var fyrir nokkrum árum.

En það, sem mér finnst mestu máli skipta í þessu sambandi, er ekki einstakir fiskstofnar, sem þó eru mikilvægir, heldur einnig veiðiaðferðir. Það skiptir mestu máli varðandi veiði okkar að koma afla okkar sem bestum á land og ná sem bestum gæðaflokki. Við erum hér einnig með bátaflota, sem á í erfiðleikum, þótt hann vilji oft gleymast í umr. um fiskveiðimál. Hér er bæði bátafloti og togarafloti. Bátaflotinn hefur átt í erfiðleikum á undanförnum árum og þar hefur ekki farið fram nein eðlileg endurnýjun. Ég tel fulla ástæðu til þess að einnig væri heimilt að greiða nokkra uppbót á línufisk, t.d. að sumarlagi, til þess að beina áhuganum að þeirri veiðiaðferð. Mikill hluti bátaflotans er á trolli yfir sumartímann. Það er dýrt þeir eyða mikilli olíu. Það gæti verið þjóðhagslega rétt að beina bátaflotanum meir að línuveiðum. Það er greidd 10% uppbót á línufisk af fiskkaupendum. Ég teldi koma fyllilega til greina að nota hluta af því fjármagni til slíkra hluta, sem sagt ekki aðeins til að hafa áhrif á hvaða tegundir fisks eru veiddar, heldur einnig með hvaða aðferðum, til þess að koma því til leiðar að sem mest og best verði gæði aflans sem kemur á land.

Þar sem þannig stendur á, að mér skilst að ekki sé hægt að ganga frá ákvörðun fiskverðs án þess að þessum málum ljúki, hef ég ekki hugsað mér að flytja brtt. við frv. á þessu stigi máls, enda erfitt að kasta fram slíkum till. án þess að þær hljóti nauðsynlega athugun í stofnunum sjávarútvegsins. En ég vil harma að hv. n. hefur ekki gefist tími til að fjalla nánar um með hvaða hætti stjórnun skuli fara fram og ráðstöfun á þessum peningum og þá sérstaklega með tilliti til bátaflotans, því að ljóst er að bátaflotinn mun ekki njóta þeirra peninga sem á að leggja í þennan sjóð. Hann mun að mestu leyti, ef ekki að öllu leyti, renna til togaraútgerðarinnar. Ég er ekki að segja það með því hugarfari að þessum tveimur flotum eigi að stilla upp sem einhverjum andstæðum, þvert á móti. Ég er aðeins að minna á að menn verða einnig að íhuga að hér er bátafloti sem á í erfiðleikum, sem hefur orðið út undan og hefur ekki verið hafður í huga sem skyldi varðandi fiskveiðimál okkar og mörkun fiskveiðistefnu okkar.