24.01.1980
Neðri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Austurl. í sambandi við þetta mál, ekki hvað síst um málefni bátaflotans, því að það atriði er þegar orðið stærra vandamál en fram hefur komið til þessa, hvernig á að fara með bátaflotann, ekki síst þann hluta hans sem hefur orðið að stunda togveiðar, miðað við þær nýju aðstæður sem nú liggja fyrir í þjóðfélaginu, olíuverðshækkunina. En ég vildi koma hér að því sem snýr að stjórnun fiskveiðanna — því miður er hæstv. sjútvrh. ekki viðstaddur, — en ég tel að það sé miður farið að í eins veigamiklu málefni og fiskveiðar eru fyrir þjóðina skuli ekki hafa verið unnið öðruvísi að en raun ber vitni.

Ég vil minna á það hér, að nokkrir alþm. fengu skipunarbréf á s.l. hausti, í byrjun sept. ef ég man rétt, um að þeir væru skipaðir í nefnd til þess að gera tillögur og ræða við hagsmunaaðila um fiskveiðistefnu og gera þar jafnvel ákveðnar tillögur til lagasetningar. Nefndin hefur aldrei verið kölluð saman.

Ég tel að það sé einnig í sambandi við svona viðamikil mál lágmarkskrafa að haldnir séu fundir í landshlutunum með sjómönnum og öðrum aðilum til þess að ræða í fullri hreinskilni um þessi mál og hvernig best væri að haga stjórn á þeim.

Hins vegar er ljóst að eins og málum er nú háttað er ekki um annað að ræða en afgreiða þessi mál, eins og hér hefur verið farið fram á. Ég mun að sjálfsögðu standa að því. Ég vil lýsa ánægju yfir að n. hefur þó gert þá breytingu, sem mér finnst mikilvæg í þessu máli, að lögin eiga ekki að gilda nema í tvö ár.