18.12.1979
Efri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

3. mál, lántaka vegna framkvæmda á sviði orkumála

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á fundi fyrrv. ríkisstj. 25. júní 1979 ákvað hæstv. þáv. ríkisstj. að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til að bregðast við fyrirsjáanlegum afleiðingum mikillar hækkunar á innfluttu eldsneyti. Hluti þessara aðgerða fólst í því að flýta opinberum framkvæmdum á sviði raforku- og hitaveituframkvæmda umfram það sem að var stefnt í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1979. Þetta var gert til þess m.a. að draga úr innflutningi olíuvara svo sem frekast var kostur og mæta þeim samdrætti með aukinni nýtingu innlendra orkugjafa.

Þáv. fjmrh. var með samþykkt þessari falið að afla viðbótarlánsfjár að upphæð 2 275 millj. kr. og samkv. samþykkt ríkisstj. skiptist ráðstöfun fjárins þannig:

1. Raflínulagnir á vegum RARIK 620 millj. kr.

2. Styrking dreifikerfa í sveitum 295 millj. kr.

3. Til aukins öryggisbúnaðar byggðalina 40 millj. kr.

4. Til ýmissa hitaveituframkvæmda 705 millj. kr.

5. Til jarðhitaveitna 250 millj. kr.

6. Til borunar holu í Bjarnarflagi, ef nauðsyn mundi krefjast, og til að mæta óvæntum verkefnum 365 millj. kr.

Alls 2 275 millj. kr.

Í samþykkt þessari var jafnframt ákveðið að ráðstafa fjáröfluninni til raflínulagna þannig, að 250 millj. kr. færu til lagningar línunnar Dalvík —Ólafsfjörður og til tengingar orkuveitusvæðis Skeiðsfossvirkjunar við aðalorkuveitusvæði landsmanna. Flýting framkvæmda nemur 240 millj. kr. lánsfjáröflun. Þá var einnig ákveðið að verja 90 millj. kr. til hönnunar og mælingar fyrir línu frá Hryggstekk í Skriðdal um Djúpavog til Hafnar í Hornafirði. Aðkallandi var að hraða línulögn til Hafnar og ljúka þannig samtengingu við landskerfið. Loks var í ákvörðun ríkisstj. ákveðið að 40 millj. kr. færu til lagningar línunnar Laxárvatn — Reykir, m.a. vegna dælustöðvar Hitaveitu Blönduóss.

Í allar framannefndar framkvæmdir var ráðist til þess að draga sem mest úr olíunotkun, sem hlaust af keyrslu dísilvéla til raforkuframleiðslu og við húshitun. Þá gerði styrking dreifikerfa í sveitum aukna rafhitun til sveita mögulega. Þá hafði ríkisstj. lagt áherslu á að leita að jarðvarma og virkja hann við ýmsa helstu þéttbýlisstaði. Til þess að hraða framkvæmdum víðs vegar um land ákvað hún að afla 705 millj. kr. viðbótarlánsfjár, og til þess að flýta fyrir nýtingu jarðvarma var ákveðið að útvega viðbótarfé til jarðhitaleitar að upphæð 250 millj. kr.

Þá var enn fremur unnið að borun í Bjarnarflagi til gufuöflunar fyrir Kísiliðjuna og var áformað að því verki lyki um miðjan júlímánuð, en samkv. samningum eru Jarðvarmaveitur ríkisins skuldbundnar til þess að sjá Kísiliðjunni fyrir gufuafli. Ákvörðun um frekari boranir í Bjarnarflagi átti hins vegar að taka þegar reynsla yrði fengin af framkvæmdum þeim sem þá stóðu yfir.

Ákveðið var að afla lánsfjárins, 2 275 millj. kr., á innlendum eða erlendum lánsmarkaði, en heimildar til lántöku yrði aflað með útgáfu sérstakra brbl. Þessi samþykkt ríkisstj. var tilkynnt af fjmrn. 11. júlí í sumar.

Frv. það, sem hér er lagt fram á þskj. 3 í þessari hv. d. er um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimildar vegna þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, og er til staðfestingar á brbl. um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimilda vegna framkvæmda á sviði orkumála 1979 o.fl., sem sett voru þann 16. okt. 1979. Þau brbl. voru sett vegna þess að ekki var kostur á að fjalla um brbl. nr. 71 frá 10. júlí 1979 um sama efni, sem fyrrv. ríkisstj. hafði sett, þar eð þing var rofið áður en tækifæri gæfist til þess.

Ein breyting hefur þó verið gerð á því frv., sem leitt var í lög um brbl. frá 16. okt. 1979, frá upphaflegum brbl. hæstv. ríkisstj. Sú breyting er fólgin í 7. gr. þessa frv., þ.e. 7. gr. brbl., en þar var ákveðið að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs væri heimilt að taka skammtímalán hjá Seðlabanka Íslands allt að 4.5 milljörðum kr. Þetta ákvæði var upphaflega í brbl. sem sett voru á s.l. hausti vegna hækkunar á söluskatti og í framhaldi af ákvörðun ríkisstj. um nýja tekjuöflun. Hins vegar þótti eðlilegra að taka þetta ákvæði úr þeim lögum og fella það inn í þetta frv. til laga um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimild vegna framkvæmda á sviði orkumála o.fl. Þetta er eina breytingin sem gerð hefur verið á þessum brbl. frá því að þau voru upphaflega sett og þar til þau voru endursett og endurútgefin 16. okt. 1979. Þessi breyting er, eins og ég segi, ekki efnisbreyting á því sem fyrrv. ríkisstj. hafði áður ákveðið með bráðabirgðalagasetningu, heldur aðeins verið að færa þarna tiltekna lántökuheimild yfir í frv. til l. um heimildir til viðbótarlántöku o.fl.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.