24.01.1980
Neðri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

69. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hafði eiginlega sagt það sem segja þurfti varðandi þetta mál vegna þess að það má frekast líta á það sem hluta af því máli sem þegar hefur verið rætt. En mönnum hefur orðið tíðrætt um vissa hluti aðra en þá sem í frv. eru, eins og t.d. að borga uppbætur á línufisk, sem hafði verið gert í langan tíma, en hefur því miður verið lagt af núna.

Ég er sammála hv. 3. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, um að full er ástæða til þess að hvetja til og reyna að örva með einhverjum hætti línuveiðar á vissum stöðum við landið. Það er ekki nokkur vafi á að rétt væri að eitthvað verulegt væri gert í því efni, ekki aðeins með verðuppbótum, heldur einnig með því að skipuleggja t.d. sameiginlegar beitingastöðvar taka upp beitingavélar, sem eru í stöðugri framþróun þó að þær hafi þar sem gengur misjafnlega í þessum efnum, eins og að þeir skuli ekki geta tekið við karfa eins og aðrir landsmenn, svo að dæmi sé nefnt.

En það er mikil spurning í mínum huga hvort það sé rétt leið að sækja uppbæturnar á línufiskinn í Aflatryggingasjóð. Það er ekki eins tengt því, sem nú er verið að gera, og virtist koma fram í máli hv: þm. Halldórs Ásgrímssonar, það er svolítið annað þó að þetta sé allt dálítið skylt.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði að peningarnir rynnu frá bátunum til togaraútgerðarinnar. Allt er það rétt. Það er þó aðeins rétt að hluta, því að það gefur auga leið, að sá stóri floti togara, sem veiðir næstum eingöngu þorsk, hlýtur að leggja býsna mikið af mörkum í þessu skyni. Það má benda á að talsverður hluti togara fer ekki á karfa- og ufsaveiðar. Þarna er því ekki eingöngu um að ræða að færa peninga frá bátaflotanum yfir til togaranna, heldur einnig tilfærslu innan togarahópsins.

Svo má líka benda á, ef menn hafa ekki vitað það, að bátar fiska líka ufsa þó að þeir stundi lítið karfaveiðar af eðlilegum ástæðum. Og ég vil segja það hérna, hafi menn ekki haft hugmynd um það, að hér við suðurströndina hafa menn árum saman og áratugum veitt býsna mikinn ufsa. Sem dæmi um það get ég sagt ykkur að uppistaðan í sumarafla bátaflotans á Suðurlandi var lengi ufsi og það m.a.s. meira en helmingur alls aflans á sumrin og fór upp í 70% sum árin af aflanum. Nú hefur hins vegar brugðið svo við að þegar fiskifræðingarnir okkar, þeir ágætu og vísu menn, bentu á að ufsastofninn væri vannýttur sést ekkert af honum. Ég er ekki að efast um að hann hafi verið til, því að útreikningarnir hér á skrifborðunum hljóta að vera réttir. En hann er bara ekki í sjónum þar sem við erum að gá að honum. Þeir Breiðfirðingar fengu að vísu að sjá dálítið af honum í haust, vestur af bjarginu, að mig minnir, og voru að reyna að sækja hann þangað við erfið skilyrði. En ufsaveiðin hefur minnkað mjög mikið við Suðurlandið.

Það væri gersamlega útilokað að gera út á togveiðar á ufsa með því verði sem er á honum núna án þess að verðið yrði bætt upp. Það er því ekki eingöngu neikvætt fyrir bátaflotann að taka þátt í þessu, þó að ljóst sé að meginástæðan til þess að verið er að þessu er að hægt er að halda togurunum úti þó að þorskveiðibann sé. Það er auðvitað kjarni málsins. Togarar ern dýr og mikil tæki og erfitt að binda þá við bryggju meira en þrjá mánuði á ári, því að þorskveiðibann á þessu ári er gert ráð fyrir að standi yfir 100 daga.

Ég vil að lokum geta þess að hæstv. sjútvrh. er ánægður með afgreiðslu, nefndarinnar á frv., þó að við höfum orðið til þess að breyta nokkuð hugverki hans.