24.01.1980
Efri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

79. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Strax að loknum þeim umr., sem fóru fram hér í desembermánuði, ef ég man rétt, og hv. þm. vitnaði til, gerði ég ráðstafanir til þess að aflað yrði upplýsinga af því tagi sem óskað hafði verið eftir. Ég stóð reyndar í þeirri meiningu að þær hefðu borist sjútvn., en ég mun að sjálfsögðu að fenginni þessari aths. gera ráðstafanir til að ýta við því máli og sjá til þess að þær berist, ef þær hafa ekki verið sendar, sem nú virðist vera upplýst.

Í annan stað var minnt á að frv. væri seint fram komið. Það er að sjálfsögðu rétt. Efnisatriði frv. voru send sjútvn. til kynningar fyrir nokkrum dögum, en ekki var unnt að móta afstöðu til upphæðar olíugjaldsins fyrr en í gær, þegar fyrir lá með hvaða hætti væri unnt að ná samkomulagi um fiskverð á grundvelli þess frv. þá um leið sem hér liggur fyrir. Ég hefði viljað geta komið frv. að fyrr og að tími hefði verið rýmri, en aðstæðurnar hafa sniðið mér þennan stakk og ég vænti þess, að menn mæti því með skilningi og það þurfi ekki að verða til þess að raska þeim áætlunum sem þm. hafa haft um notkun tíma síns í kvöld, enda trúi ég að þessi d. sanni það eins og oft áður að hún getur rösklega á málum haldið þegar henni sýnist svo.