28.01.1980
Neðri deild: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

75. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. miðar þetta frv. að því að gera einfaldari alla meðferð brota varðandi ranga notkun stöðureita, þ. á m. stöðumæla. Enn fremur er það veigamikill þáttur í frv. að brot samkv. þessum lögum teljast ekki refsiverð í skilningi refsiréttar, þau koma t.d. ekki fram á sakavottorði eða, eins og það heitir á lélegu máli, brot þessi eru „afkriminaliseruð“.

Áður en mál þetta fer til þn. í þessari d. vil ég koma að nokkrum aths. og vil þá víkja að því, sem reyndar kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að þegar hafa komið fram ýmsar aths. við frv. sem áður hafa verið sendar þeirri n. sem fjallaði um frv. ð fyrri stigum. T.d. hefur sú aths. komið fram, að eðlilegt sé að sami aðili sjái um eftirlit samkv. þessum lögum og fái tekjurnar af innheimtunni. Þá hefur verið talið eðlilegt að sveitarfélagið sé sá aðili sem það gerir. Það er ekki nægilega skýrt í frv. Reyndar er aðalreglan samkv. 2. gr. frv. að gjald skuli lagt á í ríkissjóð vegna brota sem þetta lagafrv. fjallar um, en hins vegar mjög óljóst ákvæði í 3. mgr. 3. gr. um hvaða gjöld eigi að renna í sveitar- eða bæjarsjóði, en þar er talað um að stöðumælaverðir taki laun úr sveitar- eða bæjarsjóði, enda renni stöðumælagjöld í sveitar- eða bæjarsjóð. Nú eru stöðumælagjöld a.m.k. tvenns konar, þ.e. þau gjöld sem sett eru í sjálfa mælana, en hins vegar svokallað aukaleigugjald sem menn greiða eftir að þeir hafa fengið miða á bíla sína. Það gjald rennur nú einnig í sveitarsjóð, en ekki er að sjá samkv. frv. að sveitarsjóður eigi að halda þeim tekjum svo sem hingað til hefur verið. Ég held því að hér sé um að ræða atriði sem nauðsynlegt sé að taka tillit til og það sé eðlilegra og horfi til meiri einföldunar og betri vinnubragða að einn og sami aðili sjái um stöðumæla- og bílastæðamál yfirleitt og þá sé eðlilegt að það sé sveitarstjórn og sveitarsjóður sem hafi þær tekjur sem koma vegna brota á settum reglum, enda hafi þá sveitarsjóður jafnframt eftirlitið og þau útgjöld sem því fylgja.

Það er annað atriði samkv. þessu frv. sem ég vil gjarnan koma með aths: við, en það er aths. sem ég held að ekki hafi komið fram áður. Í 7. gr. er gert ráð fyrir að gjöld, sem á falla, njóti lögtaksréttar og lögveðs í viðkomandi ökutæki. En í 2. tl. segir að lögveð samkv. þessari grein gangi á undan öllum veðum öðrum en lögveðum vegna bifreiðagjalda og iðgjalda vegna lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækisins. Við þetta ákvæði vil ég gera aths. Hér er um að ræða mjög óvissar upphæðir sem kunna að falla á einstakar bifreiðar, og því skapar það ákaflega mikið óöryggi fyrir þá sem eiga t.d. samningsveð í bifreiðum, en bifreiðar eru mjög algengar sem andlag fyrir samningsveð, t.d. í sambandi við kaup og sölu, bæði á nýjum og notuðum bifreiðum. Ef jafnóvissar upphæðir og hér um ræðir eiga ávallt forgang fyrir samningsveðum er líklegt að bifreiðar verði lítt nothæfar sem andlag fyrir veð, því að slík gjöld koma aldrei fram á veðbókarvottorðum og menn því ávallt í fullkominni óvissu um hvað hvíli á viðkomandi bifreið þegar menn fá veðbókarvottorð. Ég held að óþarflega strangar reglur séu þarna settar — eða lagt til að séu settar — og þess vegna sé eðlilegra og raunar ekki mikil áhætta fyrir ríkissjóð eða sveitarsjóð að hafa einungis lögveð eða lögtaksrétt, en að lögveðið sé þá í tímaröð eins og önnur veð, þannig að þeir, sem vilja nota bifreiðar sem samningsveð, séu ekki í jafnmikilli óvissu og þeir yrðu ef þetta yrði regla. Þessi regla gildir um skip og hefur gert það að verkum, eins og mönnum er kunnugt um, að skip eru ákaflega ótrygg veð sem samningsveð vegna þess að sjótjón ýmiss konar hlaðast á skipið og ganga fyrir. Það kann að vera að slíkt sé eðlileg regla í þeim tilvikum, og hún á sér langa sögu, en ég held að ekki eigi að fara inn á sömu braut varðandi bifreiðar.

Þessar aths. vildi ég láta fram koma áður en frv. fer til n. hér í hv. deild.