28.01.1980
Neðri deild: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sigurgeir Bóasson:

Herra forseti. Varðandi það frv. til l., sem hér er til umr., vil ég láta koma fram þá skoðun mína, að ég styð eindregið að gert verði verulegt átak til að jafna verð á raforku, en hins vegar tel ég að ekki eigi að nota Byggðasjóð í þeim tilgangi. Þetta vekur þá spurningu, hvert eigi að vera hlutverk Byggðasjóðs í framtíðinni, en ýmsir virðast komnir á þá skoðun að þeim verkefnum, sem Byggðasjóður hefur aðallega unnið að, þ.e. atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, sé lokið og því sé rétt að sjóðurinn snúi sér að öðru.

Nýlega var samþykkt í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að Byggðasjóður sveigði æ meira inn á þá braut að verða almennur fjárfestingarlánasjóður þar sem gagnsemi framkvæmda væri metin án tillits til staðsetningar, eins og þar segir. Þetta hljómar e.t.v. ekki illa, en hér er að mínum dómi mjög alvarlegt mál á ferðinni sem allir hv. þm. af landsbyggðinni ættu að gefa gaum.

Auðvitað er það rétt, eins og allir þekkja, að mikið átak hefur verið gert til uppbyggingar atvinnulífs víðs vegar um landið á undanförnum árum. Hér ber fyrst að nefna skuttogarana og miklar endurbætur á frystihúsum og fiskvinnslustöðum. Þetta hefur leitt til þess, að í stað stopullar atvinnu við sjávarsíðuna er atvinna nú víðast hvar nóg og samfelld allt árið. Má því segja að nú sé kominn í framkvæmd fyrsti kafli byggðastefnunnar. En þá er það annar kaflinn, og það er sá kafli sem Byggðasjóður á nú að snúa sér að. Lífið á landsbyggðinni á og verður að vera meira en nýtískuverbúðalíf í kringum skuttogara og frystihús. Til að þessir staðir verði aðlaðandi til búsetu þarf verslun og önnur þjónusta að þróast í takt við atvinnuvegina.

Því miður er ástandið víða þannig, að þegar vinnunni sleppir er sest upp í flugvél og flogið til Reykjavíkur og þangað sótt margvísleg þjónusta og flestar vörur fyrir utan brýnustu nauðsynjar. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú, að þannig er búið að smásöluverslun í dreifbýli að reksturinn skilar engu til nauðsynlegrar uppbyggingar og umtalsverð stofnlán til byggingar verslunarhúsnæðis hafa ekki fengist. Af þessum ástæðum er mjög víða stundaður verslunarrekstur við erfið skilyrði, í gömlu og óhagkvæmu húsnæði, meira af vilja en mætti, án þess að nokkur möguleiki sé á uppbyggingu eða endurbótum. Bilið milli þessara verslana og verslana í Reykjavík breikkar stöðugt. Fólk leitar í auknum mæli út fyrir staðinn með sína verslun, sem aftur leiðir til enn óhagkvæmari rekstrar. Það er því sameiginlegt hagsmunamál verslana í dreifbýli og íbúa dreifbýlisins að nú verði brotið blað og verulegt átak gert í verslunarmálum. Nú þegar þarf að gera myndarlegt átak til að byggja upp smásöluverslun í dreifbýlinu. Að mínum dómi er hér einmitt það verkefni sem Byggðasjóður á að snúa sér að, en hingað til hefur Byggðasjóður talið það fyrir utan sinn verkahring að lána til byggingar verslunarhúsnæðis.

Fleira mætti nefna. Mjög mikilvægt er að komið verði á fót léttum framleiðsluiðnaði í mörgum sjávarbæjum og þorpum til að skapa heilsteyptara atvinnulíf. Störf við s jávarútveg og fiskvinnslu eru erfið og ekki á allra færi að stunda þau. Ef fólk á þessum stöðum missir heilsu af einhverjum ástæðum og hefur ekki þrek til að stunda hin grófari störf á það oft ekki annarra kosta völ en að flytjast búferlum á höfuðborgarsvæðið, oft gegn vilja sínum. Hér er einnig verkefni sem Byggðasjóður á að takast á við.

Auðvitað verða sjávarútvegur og fiskvinnsla höfuðatvinnuvegir í bæjum og þorpum við sjávarsíðuna, og ef okkur auðnast að byggja upp þorskstofninn mun hlutverk þessara staða í þjóðarbúskapnum enn aukast í framtíðinni. Því er mjög mikilvægt að staðirnir verði aðlaðandi til búsetu. Til að það megi takast verður verslunarþjónusta og ýmis iðnaður að þróast með höfuðatvinnuvegunum. Þá fyrst hefur byggðastefnan borið þann árangur sem að var stefnt.

Það er því reginmisskilningur að hinu sérstaka hlutverki Byggðasjóðs við landsbyggðina sé lokið. Vil ég beina því til þeirra hv. alþm., sem sæti eiga í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, að þeir hugsi sig vel um áður en þeir leggja niður „landamæri“ Byggðasjóðs og gera hann að almennum fjárfestingarlánasjóði.