29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

215. mál, rannsókn landgrunns Íslands

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Fyrsta mál Alþingis haustið 1978 var till. til þál. um rannsókn landgrunns Íslands, sem flutt var af átta þm. Sjálfstfl., einum úr hverju kjördæmi. Till. hljóðaði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að ráða nú þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja.“

Till. þessi var síðan samþ. einróma hér í Sþ. 22. des.1978.

Í grg. með till. segir, með leyfi forseta:

„Réttindi strandríkja til landgrunns utan 200 mílna efnahagslögsögu eru nú mjög til umræðu á alþjóðavettvangi. Reglur þjóðaréttar í því efni munu mótast á næstunni. Þekking okkar á íslenska landgrunninu, utan 200 mílnanna, til suðurs, vesturs og á Íslandshafi á Jan Mayen-svæðinu er ekki nægilega mikil, en fyllri upplýsingar gætu haft úrslitaþýðingu, er við heimtum þann rétt er Íslandi ber. Einskis má því láta ófreistað til að afla allra þeirra upplýsinga, sem finnast kunna án sérstakra vísindarannsókna, né skirrast við að leggja í kostnað við slíkar rannsóknir.“

Nú spyr ég hvað orðið hafi um framgang þessa máls og er fsp. í fjórum liðum:

1) Hvað hefur ríkisstj. gert til að framfylgja ályktun Alþingis frá 22. des. 1978 um rannsókn landgrunns Íslands?

Eins og tillöguliðurinn ber með sér er um almenna fyrirspurn að ræða.

2) Hvaða íslenskir sérfræðingar hafa verið ráðnir og hvað hafa þeir gert?

En eins og tillagan ber með sér bar að ráða íslenska sérfræðinga.

3) Hvaða erlendir sérfræðingar hafa verið ráðnir og hvað hafa þeir gert?

Tillagan ber einnig með sér að erlenda sérfræðinga átti að ráða.

4) Telur ríkisstj. nægilega unnið að öflun upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja til að íslenskra hagsmuna verði gætt til hins ítrasta á Hafréttarráðstefnunni eða í samningum við önnur ríki?

Mér er ljóst að nokkuð hefur verið unnið að rannsókn landgrunnsins, talsvert hér norður af landinu. En þó hygg ég að þær rannsóknir hafi ekki fyrst og fremst beinst að því að afla upplýsinga sem að haldi gætu komið á Hafréttarráðstefnu, a.m.k. er mér ekki kunnugt um að beinlínis hafi verið að því stefnt.

Nú vill svo til, að næsti og væntanlega síðasti fundur Hafréttarráðstefnu hefst eftir rúman mánuð og verður í tveim áföngum, síðari áfanginn væntanlega í ágúst, og þess vegna ríður á miklu að allar þær upplýsingar liggi fyrir sem unnt hefur verið að afla og unnt kann að verða að afla nú á þessum örskamma tíma, og á það þó sérstaklega við um landgrunn Íslands til suðurs, þ.e. í átt að Rockall-hásléttunni, og svo auðvitað á Íslandshafi vegna Jan Mayen. Hins vegar varðar kannske minnu hvaða upplýsingar liggja fyrir um Reykjaneshrygg því að á fundum Hafréttarráðstefnunnar, sem haldnir hafa verið síðan till. var flutt, hefur íslensku fulltrúunum tekist að gæta þannig réttinda á því hafsvæði að nokkuð ætti að vera öruggt að réttur okkar á Reykjaneshrygg væri tryggður. En ég spyr sem sagt að þessu nú, vegna þess að mjög mikilvægt er að upplýsingarnar liggi fyrir og hraustlega verði unnið þann stutta tíma sem eftir er þar til næsti fundur Hafréttarráðstefnunnar hefst.