29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

215. mál, rannsókn landgrunns Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er áhugavert mál sem hér liggur fyrir og spurst hefur verið fyrir um, og það er þakkarvert að hæstv. iðnrh. hefur lagt hér fram skýrslu, þó að ekki sé í löngu máli, um könnun á setlögum á landgrunninu út af Norðurlandi. Um þetta atriði var send út fréttatilkynning á s.l. sumri, nokkurn veginn með sömu upplýsingum og hér koma fram.

Hv. fyrirspyrjandi, Eyjólfur Konráð Jónsson, kvartar undan því, að ekki hafi orðið sá árangur af samþykkt þáltill. varðandi rannsókn á landgrunni Íslands sem til hafi verið stofnað. Það er hægt að taka undir það, að æskilegt hefði verið að meira hefði verið unnið á þessu sviði en raun ber vitni, en þó liggur það fyrir og ég held að sú þáltill., sem hann hafði frumkvæði að að samþykkt var á Alþ. rétt í lok ársins 1978, hafi ýtt á eftir aðgerðum á þessu sviði og ráðningu íslensks sérfræðings, sem hóf störf á seinni hluta síðasta árs. Sú ráðning var af hálfu iðnrn. lögð fyrir ríkisstj. með það fyrir augum að þessi sérfræðingur tæki saman gögn, erlend og innlend, um jarðfræðilega gerð hafsbotnsins á núverandi íslensku yfirráðasvæði og því svæði sem hugsanlega yrði síðar íslenskt með samningum eða alþjóðareglum. Sérstaka áherslu átti að leggja á þau svæði sem umdeilanleg geta orðið, í þeim tilgangi að varpa sem skýrustu ljósi á stöðu okkar í væntanlegum samningum, og ætlað var að hann semdi yfirlitsskýrslu um stöðu núverandi þekkingar á þessum málum. Það dróst því miður lengur en skyldi að fallist væri á aukafjárveitingu til þessarar ráðningar, og því hóf þessi sérfræðingur störf síðar en við hefðum talið æskilegt sem ýttum á eftir framkvæmd þessarar ályktunar að þessu leyti.

Nú er það kunnugt, að það eru fleiri rn. en iðnrn. sem koma inn í meðferð okkar landgrunnsmála, og þess vegna er afar brýnt að þær reglur, sem hæstv. iðnrh. greindi frá að rn. hefði ýtt á eftir að samdar yrðu á grundvelli laganna frá í fyrra um landgrunn, landhelgi o.fl, verði samdar og komið verði á skipulegu samstarfi þeirra rn. sem hér eiga hlut að máli. Hér er um geysilega stórt mál að ræða fyrir framtíð okkar og af mörgu að taka. Það er því sérstaklega brýnt, að í okkar stjórnkerfi verði markaðir skynsamlegir farvegir til þess að unnið sé vel og skipulega að þessum málum. Alþ. þarf svo að tryggja að nauðsynlegar fjárveitingar verði veittar, og ég hvet mjög til að það verði gert. Þó að í upphafi sé um tímabundna ráðstöfun að ræða eða litið á þetta sem tímabundið verkefni, þá er væntanlega öllum ljóst að hér er verið að leggja út á braut sem framhald verður að verða á. Þetta varðar að sjálfsögðu almennar vísindalegar rannsóknir og þekkingu okkar á landgrunninu, en einnig hagnýt atriði varðandi sjávarbotninn, lífrænar auðlindir, sem honum tengjast, en einnig ólífrænar, og svo stóru spurninguna um orkulindir undir sjávarbotni, hugsanleg kolvetni eða olíu þar.

Ég fagna því, að í máli hæstv. ráðh. kom fram að umhverfissjónarmið verði framarlega í sambandi við þessi mál. Það er að sjálfsögðu skylt, að þar sé ítrustu varkárni gætt, og alveg sérstaklega þýðingarmikið að við Íslendingar höfum fyllstu yfirsýn yfir þessi mál, þó svo að við fáum stuðning erlendra aðila í sambandi við upplýsingaöflun eftir markaðri stefnu.