29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Sú nefnd, sem hér er vísað til, var á sínum tíma skipuð af þáv. viðskrh., Ólafi Jóhannessyni, en vegna kosninga og stjórnarskipta, sem urðu fljótlega eftir að nefndin skilaði áliti, gafst þeim ráðh. og þeirri ríkisstj. ekki tími til þess að fjalla frekar um málið. Það verður að segjast líka, að núv. ríkisstj. hefur ekki fjallað um tillögur nefndarinnar sérstaklega, og ef mig misminnir ekki, þá voru þessar tillögur ekki heldur teknar formlega fyrir í síðustu ríkisstj. Það er þess vegna ekki um það að ræða, að ég geti lýst áliti ríkisstj. í þessu efni.

Í þessu nál. er m.a. bent á að smásöluálagning á landbúnaðarvörur stæði ekki undir eðlilegum dreifingarkostnaði og gerði það dreifbýlisversluninni mjög erfitt fyrir. Í þessu sambandi má geta þess, að í des. 1978 varð nokkur hækkun á smásöluálagningu landbúnaðarvara. Vorið 1979 var enn fremur gerð almenn lagfæring á verslunarálagningu, annarri en á landbúnaðarvörum, og það kom auðvitað dreifbýlisversluninni að nokkru gagni. Þáv. viðskrh. taldi hins vegar í framhaldi af þeirri lagfæringu að þörf væri á að kanna sérstök vandamál dreifbýlisverslunar frekar, og það er eitt af verkefnum nefndar, sem hann skipaði 29. mars 1979 og ætlast er til að skili áliti í vor.

Ég vil líka geta þess, að skömmu áður en fyrri nefndin var skipuð samþykkti verðlagsnefnd heimild til handa verslunum utan Reykjavíkursvæðisins að leggja álagningu ofan á sannanlegan flutningskostnað. Sá álagningarauki, þótt ekki sé mikill, hefur að sjálfsögðu komið dreifbýlisversluninni sem slíkri til góða. En þó að ég geti ekki reifað hér álit ríkisstj. í þessum efnum, þá held ég að rétt sé að víkja stuttlega að þeim atriðum, sem nefndin gerði tillögur um og fyrirspyrjandi rakti hér glögglega áðan.

Fyrsta ábendingin var um álagningu í smásölu á landbúnaðarvörur. Um álagninguna í smásölu er það vitað mál, að hún er skert þannig, að hún svarar ekki til tilkostnaðarskiptingar. Þetta trúi ég að öllum sé ljóst og veldur auðvitað vissum erfiðleikum í versluninni.

Í annan stað bendir nefndin á frjálslegri verðmyndunarreglur. Það má segja að smuga hafi opnast til þeirrar áttar með hinum nýju verðlagslögum og verðlagsráði, sem nýlega hefur tekið til starfa, þó að sjálfsagt verði sporin í þeim efnum smá. En menn hljóta að þreifa sig áfram til þeirrar áttarinnar.

Að því er varðar aðgang að lánum vegna fjárfestingar, t.d. úr Byggðasjóði, þá mun það vera svo, að í undantekningartilvikum séu veitt lán úr Byggðasjóði til framkvæmda af þessu tagi. En ég get tekið undir þau sjónarmið, sem komu fram hjá fyrirspyrjanda varðandi hlutverk Byggðasjóðs í þessum efnum, að auðvitað er það í verkahring sjóðsins m.a. — og á að vera — að stuðla að því, að þjónusta af þessu tagi geti verið bærileg. Það er a.m.k. mitt álit.

Í fjórða lagi benti nefndin á að dreifbýlisverslun yrði heimilað að hækka birgðir í samræmi við reglur sem settar verði þar um. Hér er í rauninni verið að gera ráð fyrir því að leysa úr á grundvelli verðbólgu, en auðvitað er það að hluta til vandamál sem hefur skapast vegna verðbólgunnar. En þetta hafa menn nú ekki treyst sér í.

Það er bent á hvort ekki sé unnt að heimila dreifbýlisverslunum skuldajöfnun við ríkissjóð vegna vöruúttektar og þjónustu við ríkisfyrirtæki. Ég get upplýst að þetta er til athugunar í fjmrh. Hins vegar varðandi það að leiðrétta þá mismunun sem felst í álagningu á söluskatti, þar sem skatturinn er krafinn af flutningskostnaði, þá hafa athuganir á þessu máli leitt í ljós að það sé mjög torvelt úrlausnar, og má reyndar vísa til álits nefndar um verðjöfnun á flutningskostnaði í þeim efnum.

Í sjöunda lagi er rætt um rekstrarráðgjöf, að auðvelda dreifbýlisversluninni að njóta rekstrarráðgjafar og þá með þátttöku stjórnvalda. Ég tel að þarna sé um mjög áhugavert atriði að ræða.

Enn fremur bendir nefndin sérstaklega á, að samhliða því sem stjórnvöld láta þessi mál til sín taka verði að sjálfsögðu að gera þær kröfur til verslananna að þær geri allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa sín mál sjálfar, og undir það sjónarmið hlýt ég að taka.

Það dylst auðvitað engum, að þegar heimiluð sölulaun eru alfarið bundin við innkaupsverð, þá er verðbólgan eldur sem brennir upp lager verslunarfyrirtækja um svo og svo mörg prósent á mánuði og hrekur þau út í þá vörn að eiga helst aldrei vörur stundinni lengur. Segja má að þetta hái alveg sérstaklega dreifbýlisversluninni, því að hún hlýtur að dreifa öðru fremur nauðsynjavörum sem lúta ströngustu verðlagsákvæðum. Hún þjónar afskekktum stöðum, þangað sem aðflutningar eru stopulir, og hún er á mörgum stöðum ábyrg sem aðalverslun sem ekki má láta birgðir sínar þrjóta. Þetta eitt, þó ekki kæmi fleira til, er auðvitað ærin ástæða til þess að leita eftir hagfelldara verðlagskerfi. Og ég vil láta það álit í ljós, að við það starf er auðvitað þörf fyrir náið samstarf stjórnvalda og verslunarinnar í landinu. En þetta er auðvitað jafnframt eitt af ótalmörgum dæmum þess, að verðbólgan er ósamþýðanleg heilbrigðu viðskiptalífi.