29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 52 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um sölu á togaranum Dagnýju SI 70. Ekki kemst ég hjá því að hafa nokkurn formála að þessari fsp.

Hlutafélagið Togskip á Siglufirði var eigandi og útgerðaraðili Dagnýjar. Þetta hlutafélag keypti annan togara erlendis frá, sem heitir Sigurey, en hlutafélagið Togskip fékk ekki þorskveiðileyfi fyrir tvo togara. Um það bil sem Sigurey var tilbúin að fara á veiðar, sem var sumarið 1978, var framkvæmdastjóri Togskips búinn að gera samning um sölu á Dagnýju til Jökuls á Raufarhöfn. En sú sala strandaði á því, að ekki fékkst þorskveiðileyfi fyrir skipið, þó vilyrði um það hefði áður verið gefið, ef af þessum kaupum yrði, og þó að Jökull og hraðfrystihús Þórshafnar hefðu gert með sér samning vegna þessara fyrirhuguðu skipakaupa um að hraðfrystihús Þórshafnar fengi ákveðið aflamagn bæði af Dagnýju og Rauðanúp ef þessi skipakaup kæmust á. En hraðfrystihús Þórshafnar hefur skort tilfinnanlega hráefni allt frá því að nýja húsið tók til starfa og raunar lengur, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt um.

Í fyrirspurnatíma hér á hv. Alþingi gefst ekki tími til að ræða um orsakir þess, að hraðfrystihús Þórshafnar skortir mjög tilfinnanlega hráefni. Sérstaklega vantar það þó yfir vetrarmánuðina, frá byrjun nóvember fram í marslok. Vegna þessa ástands gerðu Sigurður Finnsson f. h. Togskips og Ingimar Einarsson f. h. sjútvrh. samkomulag á árinu 1978 um það, að sjútvrh. leysti Togskip h.f. undan loforði um að það stundi ekki þorskveiðar á Dagnýju, en í stað þess hét framkvæmdastjóri Togskips því að hefja landanir á Þórshöfn um miðjan nóvember það ár og landa þar veturinn 1978–1979 og aftur 1979–1980, til marsloka bæði árin, og var miðað við að landanir hvorn vetur yrðu a.m.k. 1000 tonn.

Hins vegar kom Dagný með 302 tonn í fyrravetur til Þórshafnar og nú í vetur hefur hún komið með tvo slatta, samtals 153 tonn, og er nú í slipp, að ég best veit, og ekki víst að hún komist á veiðar a.m.k. í þessum mánuði, svo að ekki reynist ástæða til þess að verðlauna fyrri eigendur hennar fyrir efndir á þessu samkomulagi. En nú er búið að selja Dagnýju til Hafnarfjarðar án þess að bjóða Þórshöfn skipið til kaups eða Jökli á Raufarhöfn sem áður hafði gert kaupsamning um skipið, eins og ég greindi frá áður.

Ég er hér með í höndum afrit af bréfi frá stjórn Hraðfrystistöðvar Þórshafnar til hæstv. sjútvrh., dags. 22. nóv. 1979, en í niðurlagi þessa bréfs segir m.a., með leyfi forseta:

Það er nú krafa stjórnar Hraðfrystistöðvar Þórshafnar h.f., að sjútvrn. geri nú þegar væntanlegum eigendum skipsins ljóst, að samkomulag þetta gildir til 1. apríl 1981 samkv. 4. gr. samkomulagsins.“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. hvort ráðuneytið hafi sett fram slíka kröfu, að Dagný landi afla á Þórshöfn veturinn 1980–1981 samkv. 4. gr. umrædds samkomulags.

Út af þessu máli hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. sjútvrh. og vonast eftir að fá viðhlítandi svör:

1. Telur ráðh. eðlilegt að heimila sölu á togaranum Dagnýju SI 70, sem hafði togveiðiheimild til þorskveiða fyrir Þórshöfn, staðbundið og skilyrt við það byggðarlag, til Hafnarfjarðar, staðar sem hefur nóg hráefni og gerir nú út a.m.k. tvo togara til sölu á ísfiski eingöngu erlendis, án þess að bjóða áðurgreindu byggðarlagi forkaupsrétt að skipinu?

2. Telur ráðh. það ekki sanngirnismál, að byggðarlag, sem fékk togveiðiheimild á þorskveiðar fyrir bv. Dagnýju vegna ótryggs atvinnuástands, haldi heimildinni, geti það nýtt sér hana? Væri í framhaldi af því ekki eðlilegt, að sú togveiðiheimild, sem bv. Dagný hefur haft vegna Þórshafnar til þorskveiða, falli ella niður?

3. Telur ráðh. það samrýmast hagsmunum þjóðarinnar að stuðla að kaupum á togurum til veiða fyrir fisksölur erlendis, fremur en til vinnslu hér innanlands, eins og gert er með sölunni á Dagnýju til Hafnarfjarðar? Eða ætlar ráðh. að beita sér fyrir því, að Hraðfrystihús Þórshafnar fái leyfi til að kaupa nýjan eða notaðan togara erlendis frá, eitt sér eða í samvinnu við aðra, til að tryggja rekstur hraðfrystihússins þar og koma í veg fyrir atvinnuleysi á staðnum?

4. Mun hæstv. ráðh. beita sér fyrir því, að togarar og önnur togskip fái því aðeins fiskveiðileyfi, að þeir landi afla sínum hér innanlands, ef fiskvinnslustöð eða stöðvar vantar fisk til vinnslu og óska að fá afla þeirra keyptan?