29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. er sett fram í fjórum töluliðum. Ég mun svara þeim hverjum fyrir sig, en ég vil fyrst gera nokkra grein fyrir tengslum bv. Dagnýjar SI 70 við Þórshöfn á Langanesi og aðdraganda málsins.

Á miðju ári 1977 setti þáv. ríkisstj. reglur um veitingu heimilda fyrir erlendum langtímalánum vegna kaupa á fiskiskipum erlendis frá. Eitt meginefna þessara reglna var skilyrði um sölu skips úr landi fyrir hvert innflutt skip. Nú háttaði svo til, að Togskip hf. á Siglufirði, sem átti og gerði út bv. Dagnýju, hafði hug á að kaupa notað togskip erlendis frá. Til þess að öðlast rétt til heimildar til erlendrar langtímalántöku hlaut Togskip hf. að þurfa að selja bv. Dagnýju úr landi samkv. fyrrgreindum reglum.

Nú hafði Togskip hf. ekki hug á því að selja skipið úr landi, og í stað ýmissa annarra bragða, sem neytt var til framhjáhlaups á þessari reglu, tók Togskip hf. þann kost að lýsa því yfir, að bv. Dagný mundi ekki stunda þorskveiðar eftir komu nýja skipsins ef fyrirtækið fengi heimild til erlendrar lántöku vegna kaupa á öðru notuðu togskipi erlendis frá. Áð fenginni þessari yfirlýsingu var lántökuheimildin veitt af þeirri ríkisstj. sem þá sat.

Nú er það grundvallarstaðreynd, að öllum íslenskum skipum eru þorskveiðar heimilaðar þar og þá sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Þess vegna gæti það orðið ágreiningsatriði, hvort nokkuð annað en venjulegt siðferði og drengskapur gat bundið Togskip hf. við fyrrgreinda yfirlýsingu. Það er a.m.k. ljóst, að skilgreiningin togveiðiheimild einstaks skips, sem virðist vera grundvallaratriði þessarar fyrirspurnar, er enn ekki til í íslenskum lögum. Þrátt fyrir vafa að lögum og þótt hugurinn stæði til þorskveiða stóð Togskip hf. við yfirlýsingu sína. Um líkt leyti gerast ýmsir þeir atburðir sem skapað hafa verulegan vanda í hráefnisöflun fiskvinnslunnar á Þórshöfn. Sjálfsbjargarviðleitnin leiddi þessa aðila saman og úr varð samkomulag fyrir milligöngu stjórnvalda, sem efnislega var á þá leið, að Togskip hf. var leyst undan margnefndri yfirlýsingu gegn samningsbundnu loforði um tilteknar tímabundnar landanir afla hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Ég trúi að hún heiti Hraðfrystistöð Þórshafnar, en ekki Hraðfrystihús Þórshafnar, eins og greint er í fyrirspurninni. Það er svo auðvitað sjálfsagt mál, enda tekið fram í samkomulaginu, að selji Togskip hf. Dagnýju fylgja þau skilyrði um landanir á Þórshöfn með í kaupunum.

Þær fyrirspurnir, sem hér liggja fyrir, virðast gefa tilefni til þess að skýra þennan aðdraganda og þessar grundvallarstaðreyndir málsins, svo að þar fari ekkert á milli mála, m.a. um það, að hér hafi verið um heit af hálfu Togskips að ræða um það, hvernig það mundi haga sér, og það, að togveiðiheimild einstaks skips, sem fsp. virðist grundvölluð á, er ekki til í íslenskum lögum eða reglum.

Að þessu sögðu skal ég svara, eftir því sem mögulegt er, þeim töluliðum sem hér eru bornir fram.

Um tölul. 1: Stjórnvöld geta hvorki heimilað né bannað sölu skipa milli innlendra aðila.

Um tölul. 2: Togveiðiheimildir einstakra skipa þekkjast ekki að íslenskum lögum, og því, sem ekki er til, er náttúrlega hvorki hægt að halda til streitu né fella niður.

Um tölul. 3: Mér er ekki kunnugt um að stjórnvöld eða opinberar stofnanir hafi stuðlað að þeim kaupum sem hér er rætt um, en afstaða mín til kaupa á togurum erlendis frá, eins og nú er ástatt, er víst tvímælalaust neikvæð, eins og allir vita sem fylgjast með efni íslenskra fjölmiðla.

Um tölul. 4: Eins og áður er vitnað til eru ekki gefin út nein fiskveiðileyfi fyrir einstök togskip, og þess vegna er auðvitað ekki hægt að beita því sem tæki í stýringu af því tagi, sem hér er óskað svara við, og þess vegna ekki unnt að svara þessari fyrirspurn.