29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðh. fyrir hans svör, þó að ekki væri raunarmikið á þeim að græða. Á sínum tíma, þegar hraðfrystistöðin Jökull á Raufarhöfn gerði samning um kaup á Dagnýju, stóð eingöngu á því að fá leyfi fyrir Dagnýju til þorskveiða. Hvernig skyldi standa á því?

Mér er kunnugt um það, að reglunum í sambandi við Fiskveiðasjóðs hefur verið breytt, þ.e.a.s. að reynt er að lána meira til hraðfrystihúsa til hagræðingar þar en til fiskiskipa. En á sama tíma sem þetta gerist er í raun og veru stuðlað að því að taka skip frá stöð sem vantar hráefni.

Ráðh. sagði að engin lög væru um það, að heimildir þyrfti til togveiða. Hvers vegna er beitt leyfum til annarra veiða? Er ekki hægt að beita reglugerð á sama hátt, og eru ekki takmarkaðar veiðar á togveiðum? Ég veit ekki betur. Er ekki hægt alveg á sama hátt að stjórna því með reglugerð, hvort t.d. menn fá leyfi til þess að sigla á erlendan markað með fisk þegar vantar hráefni í vinnslustöð hér á landi? Ég skil ekki muninn á þessu, og ég vil ekki taka það gott og gilt, að ekki sé hægt að stýra þessu á sama hátt og öðrum veiðum er stjórnað, ef vilji er fyrir hendi og skilningur.

Það eru kannske tilviljanir sem valda því — ég hef ekki getað rannsakað það mál til hlítar — en okkur sýnist að á þessum tíma fari nokkuð margir togarar í Reykjaneskjördæmi, þó að erfitt sé að fá skip á aðra staði. Þetta er kannske tilviljun, en þetta eru samt sem áður atriði sem tekið er eftir annars staðar og mikið rætt um.

Ég tel það algjörlega óviðunandi, að togarar séu að veiða fyrir erlendan markað, eins og er, á sama tíma og stöðvar, sem eru eins vel byggðar upp og t.d. stöðin á Þórshöfn, Fiskiðjusamlag Húsavíkur og fleiri slíkar stöðvar, fá ekki nauðsynlegt hráefni til vinnslu. Og ég sé ekki að það sé í samræmi við þá stefnu sem hæstv. sjútvrh. hefur talið sig fara eftir, þ.e. að reyna að auka og bæta vinnsluna í landi og auka fjármagn til slíkra stöðva, því að það hlýtur að vera hagkvæmast að nota þær stöðvar, sem til eru, áður en lagt er í aðrar stöðvar.

Í sambandi við fyrirspurn, sem ég var hér með um daginn, sá ég að a.m.k. einn togari er ekki þar á skrá, sem mér er tjáð að hafi selt marga farma erlendis, en það er togarinn Rán. (Gripið fram í: Ætli hann hafi ekki flokkast undir báta hjá Fiskifélaginu?) Það getur verið. Það getur vel verið að hann flokkist undir báta, en það er togskip. Ég er ekki svo kunnugur því, hvaða stærð er á Rán, en mér er þó tjáð að hún fiski eingöngu fyrir erlendan markað.

Ég varð fyrir vonbrigðum með undirtektir ráðh. Ég hélt satt að segja að það hlyti að vera í undirbúningi nú að setja einhverjar reglur í sambandi við veiðileyfi fyrir togskip eins og önnur skip, þannig að hægt væri að stjórna þessum veiðum og stjórna vinnslunni, samkv. því sem hann hefur sjálfur sagt að hann vildi stefna að.