29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það stendur nú að vísu í þessari skrá yfir íslensk skip 1980, sem hér hefur verið útbýtt, að Rán sé síðutogari, ef það upplýsir nokkuð í sambandi við deilu þeirra sjútvrh. og hv. 2. þm. Norðurl. e.

Ég vil segja í sambandi við það mál sem hér er til umr., að það er ekki vonum fyrr, má segja, að það kemur á dagskrá. Og ég skil raunar vel þær fyrirspurnir sem hér eru bornar fram af hv. 2. þm. Norðurl. e. af góðum hug, en kannske ekki yfirvegaðar sem skyldi. Nú vitum við það, sem erum kunnug málefnum norður þar, að í tíð hæstv. síðustu ríkisstj. var af lítilli fyrirhyggju haldið á atvinnumálum þeirra Þórshafnarbúa með þeim afleiðingum að fótunum var alveg kippt undan hráefnisöflun staðarins, þrátt fyrir það að hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, hefði lofað því fyrir þær kosningar, að Þórshafnarbúar mundu fá nýjan togara fyrir gamlan, ef hann yrði einn þeirra sem stæðu að stjórnarmyndun eftir þær kosningar. En efndirnar urðu þær, að þeir misstu það sem fyrir var og stóðu uppi togaralausir og eru það enn þá. Og ef við íhugum það ástand sem þar er nú, til viðbótar þeim miklu harðindum sem yfir þennan landsfjórðung hafa dunið, geta menn rétt ímyndað sér að það þurfi að taka duglega á til þess að uppbygging þessa pláss geti áfram haldið og staðið verði við þá viljayfirlýsingu Alþingis, að sérstök landshlutaáætlun verði gerð fyrir Norður-Þingeyjarsýslu til þess að efla byggð þar og ganga þannig frá hnútunum að til frekari fólksfækkunar komi ekki. En það getur enginn maður undrast þótt fyrir komi í sumum byggðarlögum að atvinna verði ekki jafnörugg og áður, að framtak heimamanna til þess að byggja upp reksturinn verði ekki jafnmikið, eins harkalega og síðasta ríkisstj. veittist að öllum atvinnurekstri í landinu, lagði hvern skattinn á fætur öðrum á atvinnufyrirtækin. Og í sambandi við aukaskattlagninguna haustið 1978, þá beindist hún sérstaklega að útflutningsiðnaði atvinnuveganna, að sjávarútveginum og svo þeim iðnaði sem var stór í sniðum og hafði lagt í mikla fjárfestingu. Það, sem er að gerast nú á Þórshöfn, er aðeins bein afleiðing af þeirri stjórnarstefnu sem þá var fylgt.

Í fyrsta lagi lét þáv. hæstv. iðnrh. alveg undir höfuð leggjast að ganga til móts við óskir Sjálfstfl. um það, að í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir s.l. ár yrði lagt fram fé til þess að rétta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, eins og honum var boðið í sambandi við umr. hér á Alþ. um verðjöfnunargjald af raforku, og baðst raunar afsökunar á því, að hann skyldi ekki kunna almenna kurteisi í þeim umr. Ég get enn fremur bent á í sambandi við orkumálin norður þar, að þáv. hæstv. ríkisstj. beitti sér gegn því að borað yrði við Kröflu og hæstv. núv. iðnrh. greiddi atkvæði á móti því hér á Alþ. (Gripið fram í.) Já, ég minnist nú þess, út af því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. segir, þegar hann ætlaði að leysa vegamálin þeirra þarna fyrir norðan fyrir þær kosningar. Hann lagði til að þeir seldu togarann, sem þeir áttu eftir að kaupa, og legðu veg milli Vopnafjarðar og Raufarhafnar fyrir andvirðið. Þú manst eftir þessu. En þeir skildu það ekki á Raufarhöfn. Mér skilst á þér núna að þú skiljir þetta ekki heldur lengur. Þú hefur kannske aldrei skilið það.

Ég vil svo að síðustu, úr því ég tók til máls, spyrja hæstv. sjútvrh., ef hann er hér við, hvort það hafi nokkuð komið til orða í sjútvrn. að líta sérstaklega á þá staði, sem eiga í sérstökum erfiðleikum með hráefnisöflun, í sambandi við heimildir til togarakaupa erlendis frá, eða hvort hann haldi sig við það, að ekki verði veitt leyfi til togarakaupa erlendis frá nema undir þeim kringumstæðum að menn eigi jafnmikið fé og þeir á Norðfirði og geti gengið fram hjá rn. og Fiskveiðasjóði.