29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

218. mál, búvöruverð

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 52. hef ég lagt fram fsp. til hæstv. landbrh. um búvöruverð.

1. des. s.l. átti búvöruverð að hækka til framleiðenda samkv. 7. og 9. gr. laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Sexmannanefnd varð sammála um þær hækkanir sem lagðar voru fyrir hæstv. ríkisstj., bæði hækkun vegna launahækkana, hækkana, sem höfðu orðið á rekstrarvörum til landbúnaðar, og hækkana á vinnslu og togurum. 592 dreifingarkostnaði. Ríkisstj. ákvað þó að fresta því að verðið tæki gildi, og urðu það í reynd 12 dagar.

Mér er kunnugt um að það hefur gerst áður að frestað hefur verið um nokkra daga að búvöruverðshækkun kæmi til framkvæmda, en ég hygg þó að það hafi verið gert með þeim bókaða fyrirvara af hendi landbrh. hverju sinni, að fullar bætur yrðu greiddar úr ríkissjóði fyrir þann tekjumissi er af frestuninni leiddi svo að bændur bæru ekki skaða af. Ég hef ekkert um það heyrt, að slík bókun hafi verið gerð nú varðandi frestunina 1. des. eða fram komið nein yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um það efni.

Það, sem vakti þó athygli mína hvað mest í sambandi við afgreiðslu á búvöruverðinu í desembermánuði s.l., var að hæstv. ríkisstj. skyldi leyfa hluta af hækkuninni, því að leyfð var hækkun sem svarar til hækkunar á launa- og rekstrarlið verðlagsgrundvallarins, en neitað um hækkun sem leiðir af hækkuðum launum þess fólks, sem vinnur við vinnslu og dreifingu afurðanna, og hækkun vegna þeirra hækkana, sem orðið hafa á umbúðum síðan 1. sept. s.l.

Nú skiptir það engu fyrir bóndann hvaða liðir það eru sem ekki fékkst hækkun á. Fólkið, sem vinnur við vinnslu og dreifingu mjólkurvaranna, krefst launahækkana og fær laun sín auðvitað greidd og 13.2% hækkun eins og aðrir fengu á þeim tíma. Auðvitað verður líka að greiða umbúðirnar fullu verði. Ef ekki fæst að hækka afurðirnar sem þessu nemur kemur það niður á framleiðandanum. Bændur verða að borga mismuninn af sínu kaupi. Það skiptir því engu máli hvort neitað hafi verið um hækkun vegna rekstrarvaranna, launaliðar verðlagsgrundvallar eða vegna vinnslu- og dreifingarkostnaðar. Ef öll hækkunin fæst ekki uppi borin kemur það niður á kaupi bóndans.

Hækkunin, sem neitað var um reyndist vera yfir desembermánuð hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík um 36.7 millj. eða um 441 millj. á ársgrundvelli. Um er að ræða um 51% af mjólkurframleiðslunni í landinu, sem Mjólkursamsalan tekur á móti, og mun því heildartjónið fyrir bændastéttina í landinu vera um 865 millj. kr. á ársgrundvelli.

Ég vil einnig undirstrika, að það hefur aldrei áður gerst að ríkisstj. hafi neitað hluta af þeirri hækkun á búvöru sem Sexmannanefnd hefur samþykkt, og dreg ég mjög í efa að fyrir því sé nokkur Lagalegur grundvöllur.

Í 4. gr. framleiðsluráðslaganna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“

Þessi afgreiðsla hæstv. ríkisstj. þýðir að bændur fá 9.87% hækkun á laun sín þegar aðrar stéttir í landinu fá 13.20%, því að 865 millj. kr. vöntun á mjólkurverðið reynist vera 2.77% á mjólkurverðið eða 4.33% á launalið verðlagsgrundvallarins, en launaliðurinn er um 56% af grundvellinum. Ekki getur verið að hæstv. ríkisstj., sem er skipuð mönnum sem vilja telja sig fulltrúa og málsvara jafnaðarstefnu, hafi staðið vitandi vits að þessu máli á þann veg að bændastéttin ein er afskipt vegna þeirra hækkana sem urðu á launum í desembermánuði s.l.

Í kvöldfréttum hljóðvarps 17. des. s.l. kom eftirfarandi frétt fram, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið með tilliti til almennra aðstæðna í verðlags- og efnahagsmálum að samþykkja ekki verðhækkanir fyrst um sinn sem fari fram úr 9%, enda hafi hlutaðeigandi aðili fengið samþykkta verðhækkun á síðustu fjórum mánuðum. Samþykktin tekur þó hvorki til verðbreytinga á vöru eða þjónustu, þar sem launakostnaður er meginþáttur framleiðslukostnaðar, né til olíuvöru. Viðskrh. hefur gert fulltrúum í Verðlagsráði grein fyrir þessari samþykkt. En í frétt frá viðskrn. segir jafnframt að þessi afstaða ríkisstj. muni gilda þar til annað hefur verið ákveðið.“

Af þessari ástæðu leyfði ég mér í des. að leggja fram á Alþ. fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Á hvaða lagagrundvelli ákvað ríkisstj. að fresta gildistöku þess búvöruverðs, er Sexmannanefndin ákvað að ætti að taka gildi 1. des. s.l.?

2. Telur ríkisstj., að hún hafi haft lagalegan rétt til að heimila, að hluti af verðákvörðun Sexmannanefndar komi til framkvæmda 12. þ.m., en synja framkvæmd hluta af verðbreytingunni?

3. Fellur ekki sá hluti, sem synjað var, undir þær verðbreytingar, sem heimilaðar eru samkv. samþykkt ríkisstj. 17. þ.m. s.l., þar sem þær eru að mestum hluta vegna launabreytinga?

4. Hve hárri fjárhæð launa sinna tapa bændur vegna umræddrar frestunar, eða ætlar ríkisstj. að bæta bændum tapið og þá hvenær?“