29.01.1980
Sameinað þing: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

28. mál, graskögglaverksmiðjur

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 28 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um graskögglaverksmiðjur. Flm. ásamt mér eru þrír aðrir þm. Sjálfstfl. í Norðurl. e. og Norðurl. v. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að hraðað skuli uppbyggingu graskögglaverksmiðjanna í Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu, þannig að þær geti tekið til starfa á árunum 1981 og 1982.

Fjár til framkvæmda verði aflað á þrennan hátt:

1. Með framlögum úr heimahéruðum, eftir því sem aðstæður leyfa.

2. Með framlögum á fjárlögum.

3. Með lánsfé.

Tekið verði til rækilegrar athugunar hvort ekki er hagkvæmt að nýta jarðvarma eða raforku til rekstrar verksmiðjanna, enda þess gætt að láta slíkar athuganir ekki tefja framkvæmdir.“

Segja má að till. þessi eigi sér nokkurn aðdraganda. Í lögum nr. 45 frá 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, eru í fyrsta skipti tekin upp ákvæði um graskögglaverksmiðjur í löggjöf hér á landi. Löggjöf þessi var undirbúin af nefnd sem þáv. landbrh., Ingólfur Jónsson, skipaði, og skilaði sú nefnd áliti með verulegum breytingum á þágildandi lögum um Stofnlánadeild o.fl. sem síðan voru afgreiddar með lögum nr. 45 frá 1971.

Þegar þessi lög voru afgreidd voru starfandi þrjár graskögglaverksmiðjur hér á landi: ein, sem rekin var og upp byggð af einkaaðilum, í Brautarholti á Kjalarnesi, tvær ríkisreknar á Suðurlandi, þ.e. í Gunnarsholti og á Stórólfsvelli. Um það bil var einnig að hefjast uppbygging graskögglaverksmiðju í Saurbæ í Dölum sem var á vegum einkaaðila, en sú graskögglaverksmiðja var síðan keypt af ríkinu og fengin Landnámi ríkisins til rekstrar og sérstakri stjórn sem að því starfar lögum samkvæmt.

Á grundvelli þeirra laga, sem ég hef hér vitnað til, laga nr. 45 frá 1971, var sett á laggir nefnd sem skipuð var, samkv. því sem þau lög greina, af Landnámi ríkisins annars vegar og Búnaðarfélagi Íslands hins vegar. Í þá nefnd voru valdir af hálfu Búnaðarfélags Íslands Björn Bjarnarson, Árni G. Pétursson og Ketill Hannesson, en af hálfu Landnáms ríkisins Árni Jónsson, Stefán H. Sigfússon og Pálmi Jónsson. Þessi nefnd tók til starfa haustið 1971 og skilaði áliti í mars 1972.

Í áliti nefndarinnar, sem prentað er að hluta til sem fskj. með grg. þessarar till., segir m.a. að nefndin líti svo á að með staðsetningu nýrra verksmið ja þurfi öðru framar að taka mið af tveimur afgerandi þáttum: Annars vegar ræktunaröryggi, fullnægjandi landsstærð og vinnslutíma, á hinn bóginn markaðssvæðum og flutningaleiðum. Í framhaldi af þessum markmiðum gerði nefndin mjög víðtækar athuganir með tilliti til þess að markmiðunum yrði náð, auk þess sem nefndin lagði mjög mikla vinnu í athugun á málinu öllu og leitaði til allra þeirra sérfræðinga sem finnanlegir voru innanlands og auk þess til erlendra sérfræðinga til að afla þeirrar reynslu sem erlendis hafði fengist af rekstri af þessu tagi.

Í áliti nefndarinnar kemur svo fram, þegar hún skilar áliti, m.a. eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin mætir með því, að verksmiðju á Norðurlandi verði valinn staður í landi Lauftúns, Krossness og Löngumýrar í Skagafirði. Þessar jarðir, að undanteknum 10 hekturum og húsum Löngumýrarskóla, eru í eigu Landnáms ríkisins. Nefndin byggir þessa skoðun sína fyrst og fremst á því, að talið er að ræktun sé öruggari í Hólminum í Skagafirði en á því landi sem um er að ræða í Suður-Þingeyjarsýslu. Séu kalárin 1965–1968 höfð í huga mundi þurfa meira land í Suður-Þingeyjarsýslu til að tryggja svipað rekstraröryggi og í Hólminum, og má í því sambandi vísa til skýrslna héraðsráðunautanna á þessum svæðum til kalnefndar.“

Enn fremur segir svo varðandi Austurland, með leyfi forseta:

„Á Austurlandi er lagt til að valinn verði staður í landi Flateyjar í Mýrahreppi, Austur-Skaftafellssýslu, fyrst og fremst vegna þess, að ræktun þar yrði ódýrari en í Vallanesi og meiri möguleikar á landsumráðum.“

Það, sem vitnað er til hér um staðsetningu, er í framhaldi af þeim athugunum sem nefndin hafði gert og leitað víða fanga til, m.a. skýrslna frá héraðsráðunautum, eins og fram kemur. Sérstakar athuganir beindust á Norðurlandi að tveimur stöðum þegar í upphafi, þ.e. Vallhólmi í Skagafirði annars vegar og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu hins vegar, og á Austurlandi að Héraði, einkum þó Vallanesi, annars vegar og Austur-Skaftafellssýslu hins vegar. Niðurstöður nefndarinnar í sambandi við staðsetningu, sem henni var falið að gera tillögur um, þ.e. um fjölda og staðsetningu verksmiðjanna sem nefndinni er falið að gera tillögur um, eru því þær, að nefndin telur að valdir verði þessir staðir og uppbygging fari fram að lokinni áætlanagerð um stærð og rekstur í þeirri röð sem hér segir:

Í Hólminum í Seyluhreppi, Skagafjarðarsýslu.

Í landi Flateyjar, Mýrahreppi, Austur-Skaftafellssýslu.

Þá leggur nefndin til að athugaðir verði möguleikar á undirbúningi að stofnun verksmiðju í Saltvík, Reykjahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, ef unnt yrði að fá land fyrir verksmiðju af hagkvæmri stærð.

Þessum verkefnum ásamt stækkun verksmiðjunnar í Gunnarsholti verði lokið á næstu fimm árum.

Nefndin telur rétt, að unnið verði áfram við áætlunargerð um þessi mál, og verði á þessu ári lögð aðaláhersla á að komast að því, hvaða stærð verksmiðju muni verða hagkvæmust hér á landi. Lokið verði við að gera 10 ára áætlun 1973–1974.“

Í þessu kemur fram til viðbótar við þær tillögur, sem nefndin gerir um staðarval og röð verkefna, að hún leggur áherslu á að áætlun sú, sem nefndin lætur þar með frá sér fara, verði í stöðugri endurskoðun og að 10 ára áætlun verði lokið árin 1973–1974.

Svo sem eðlilegt má telja voru niðurstöður nefndarinnar lagðar fyrir stjórnir Búnaðarfélags Íslands annars vegar og Landnáms ríkisins hins vegar. Er skemmst af að segja að stjórn Búnaðarfélags Ístands samþykkti tillögur nefndarinnar óbreyttar, en landnámsstjórn samþykkti tillögurnar með lítils háttar breytingum.

2. júní 1972 ritar þáv: landbrh., Halldór E. Sigurðsson, bréf til landnámsstjórnar, en þar kemur fram, með leyfi forseta, svo hljóðandi:

„Með skírskotun til bréfs landnámsstjórnar, dags. 28. maí s.l., þar sem gerðar eru tillögur um staðsetningu grænfóðurverksmiðja á landinu, vill rn. hér með samþykkja áætlun landnámsstjórnar um grænfóðurverksmiðjur þessar á þann hátt sem hér greinir:

1. Flatey í Mýrahreppi, Austur-Skaftafellssýslu.

2. Hólmurinn í Skagafirði.

3. Saltvík, Suður-Þingeyjarsýslu.“

Enn segir: „Það skal að lokum tekið fram, að gera verður ráð fyrir að áætlaður framkvæmdatími lengist frá tillögum nefndarinnar í allt að 8 árum.“

Með bréfi þessu breytir þáv. landbrh. út af þeirri röð sem nefndin, sem tillögurnar upphaflega gerði, valdi í niðurstöðum sínum. Tekur ráðh. Flatey í Mýrahreppi í Austur-Skaftafellssýslu sem nr. 1 til uppbyggingar,.

í stað þess að nefndin, sem um málið fjallaði af hálfu Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins, hafði valið Vallhólm í Skagafirði sem nr. 1.

Í framhaldi af þessu var hafist handa um framkvæmdir í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu og til þess varið fjármagni, og hófst rekstur þeirrar verksmiðju á miðju sumri 1975. Þessi verksmiðja hefur síðan verið í rekstri og má segja að í raun hafi hún í fyrsta skipti náð fullum afköstum á s.l. ári.

Jafnframt þessu var nokkru fé varið til undirbúnings verksmiðjunum í Vallhólmi í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu, en þó var jafnan um mjög takmarkaðar fjárveitingar að ræða. Þó var jafnan nokkru fé veitt á fjárlögum til þessara verksmiðja þangað til við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1979. Þá fékkst í fyrsta skipti, síðan verksmiðjurnar komu á dagskrá, ekki ein króna til þessa verkefnis á fjárlögum ríkisins.

Þær framkvæmdir, sem þegar hefur verið unnið að við þær verksmiðjur sem hér er gerð tillaga um að hraða byggingu á, eru í fyrsta lagi að þegar staðsetning hafði verið valin í Skagafirði var allt það land, sem sú verksmiðja þurfti á að halda í ríkiseign og þurfti því ekki að verða um sérstök landakaup að ræða. ,Á hinn bóginn var slíkt ekki fyrir hendi hvað snerti Suður-Þingeyjarsýslu, en fljótt var að því horfið að kaupa jörðina Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu og spildu úr landi Laxamýrar, sem er nágrannajörð Saltvíkur, þannig að þar má einnig telja fullnægjandi land fyrir verksmiðju af þeirri stærð sem hyggilegast þykir að reisa, þ.e. verksmiðju sem hefur svokallaða eimingargetu upp á 5 tonn á klst., sem framleiðir u.þ.b. 2500–3000 tonn af graskögglum á ári. Á báðum stöðum er því um nægjanlegt land að ræða: Á báðum stöðum hefur landið verið girt. Á báðum stöðum hefur framræsla farið fram eftir því sem þurft hefur að ræsa landið. Í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu er búið að rækta yfir 100 hektara tún, en undirbúningsræktun hefur farið fram í Vallhólmi í Skagafirði, þannig að þar hefur verið brotið nokkuð af landi og þar hefur farið fram allmikil grænfóðurrækt. Að öðru leyti stendur landið sundurgrafið og flakandi.

Mikið undirbúningsstarf hefur einnig verið unnið á þessu árabili og það af ýmsum toga. Mikil gögn liggja fyrir varðandi uppbyggingu þessara verksmiðja og er nokkuð, en þó ekki nema í tiltölulega litlum mæli, vitnað til þeirra gagna í fskj. sem eru prentuð með þáltill. Hvort tveggja er, að lögð hefur verið fram vinna af hálfu heimaaðila, sem að málinu hafa starfað, og enn fremur hefur verið unnið mikið starf af hálfu Landnáms ríkisins og nokkuð að tilhlutan landbrn. til þess að afla upplýsinga um tiltekna hluti. Þannig hefur farið fram veruleg athugun á með hvaða hætti væri hagkvæmt að nota innlenda orkugjafa við þurrkara í þessum verksmiðjum. Nú síðast liggur fyrir grg. frá Stefáni Erni Stefánssyni verkfræðingi, frá 30. júní 1979, um það efni málsins. Sú grg. er allítarleg og var skilað á s.l. ári til landbrn., en nokkrar af niðurstöðum þeirrar grg. eru prentaðar með þessari þáltill.

Í þeim niðurstöðum kemur fram að hagkvæmara muni vera að nota jarðvarma í Saltvík en í Hólminum. Þó ekki sé dómur lagður á, hvort hagkvæmara sé að nota jarðvarma en aðra orkugjafa í Hólminum út af fyrir sig, sýnast aðstæður betri fyrir jarðvarma í Saltvík. Hins vegar eru aðstæður hagstæðari fyrir raforku í Hólminum en í Saltvík. Enn er það svo, að það er ekki fyllilega leyst tæknilega á hvern hátt þurrkari væri byggður fyrir raforku, en talið er af tæknimönnum að það megi leysa án þess að fyrirsjáanlegir séu miklir örðugleikar.

Enn fremur hafa farið fram verulegar athuganir á tæknilegri hlið þeirra mála að nota jarðvarma í stað svartolíu við hitun þurrkarans, og er talið að tæknileg hlið þess máls sé a.m.k. að mestu leyti leyst. Þó þarf enn að gera athuganir á þeim þætti málsins og er að því vikið í sjálfri tillgr. Þó er sagt í tillgr. að þær athuganir megi ekki verða til þess að draga málið enn á langinn. Og þó að það kunni að koma nokkuð spánskt fyrir sjónir er þurrkarinn ekki nema einn hluti þeirrar vélasamstæðu sem þarna er um að ræða, og það er fyrst og fremst þurrkarinn sem þyrfti að skipta um eða breyta ef skipt væri um orkugjafa við það að knýja verksmiðjuna þegar hún tæki til starfa. Þess vegna er ekki mjög mikill aukakostnaður því fylgjandi að taka verksmiðju í notkun í fyrstu lotu með t.a.m. svartolíu og breyta síðan yfir í aðra orkugjafa, jarðvarma eða raforku, þegar menn hefðu séð fyrir endann á hvernig það yrði haganlegast gert.

Af hálfu fyrrv. landbrh., Halldórs E. Sigurðssonar, voru á árinu 1976 skipaðar nefndir heimamanna á báðum stöðum til þess að fjalla um undirbúning að byggingu þessara verksmiðja. Þessar nefndir unnu verulegt starf. Er ég að sjálfsögðu kunnugri því starfi sem unnið var varðandi verksmiðjuna í Vallhólmi þar sem ég var einn nm. Sú nefnd heimamanna, sem um þá verksmiðju fjallaði, skrifaði t.a.m. öllum samvinnufélögum, búnaðarsamböndum og hreppabúnaðarfélögum í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum um þetta mál og spurðist fyrir um hvort þau vildu eiga aðild að uppbyggingu og rekstri verksmiðjunnar og þá í hvaða formi. Þessar fsp. voru sendar þeim aðilum sem mestar líkur voru taldar til af heimaaðilum að hefðu fjármagn aflögu til að leggja í uppbyggingu og rekstur verksmiðjanna.

Það hefur jafnan verið svo, að verulegur áhugi hefur verið fyrir því heima fyrir, að heimamenn ættu verksmiðjurnar að hluta, að myndað yrði hlutafélag um uppbyggingu þeirra og rekstur. Á þessu stigi var það samt svo, að þau svör, sem nefndinni, er fjallaði um verksmiðjuna í Vallhólmi, bárust, voru öll á þann veg að aðilar lýstu fyllsta stuðningi og áhuga á byggingu verksmiðjunnar, en vildu ekki skuldbinda sig með beinni aðild að byggingu eða rekstri hennar að svo komnu máli. Ég tel að verulegar líkur séu fyrir því, að áhugi á aðild heimamanna hafi vaxið og það svo verulega að mikil ástæða sé til að taka þessa athugun málsins upp að nýju og leita eftir því, hvort um fjármagn yrði ekki að ræða heima fyrir og þá í því skyni að verksmiðjurnar geti að hluta til orðið eign heimamanna, eign hlutafélags sem ætti þær og ræki.

Varðandi þetta mál hefur borist fjöldi fundasamþykkta og ályktana og ekki ástæða til þess að rekja þær ályktanir mjög. Sumpart er nokkuð til þeirra ályktana vitnað í grg. till. og er ekki mikil ástæða til að ítreka það. En nýlega hafa borist m.a. ályktanir frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar og kjörmannafundi í Skagafirði og er rétt að lesa þær ályktanir, þær eru stuttar. Í ályktun frá kjörmannafundi Stéttarsambands bænda fyrir Skagafjarðarsýslu 11. júlí s.l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjörmannafundur Stéttarsambands bænda fyrir Skagafjarðarsýslu, haldinn að Varmahliðarskóla 11. júlí 1979, skorar á alþm. kjördæmisins og ríkisstj. að beita sér fyrir því, að framkvæmdir við fyrirhugaða graskögglaverksmiðju í Vallhólmi hefjist hið allra fyrsta og eigi síðar en vorið 1980.“

Á aðalfundi Búnaðarsambands Skagfirðinga 1979 var m.a. gerð eftirfarandi samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Búnaðarsambands Skagfirðinga haldinn að Varmahliðarskóla 25. júlí 1979 átelur harðlega að ekki skuli enn hafa fengist fjármagn til byggingar fyrirhugaðrar graskögglaverksmiðju í Vallhólmi. Fundurinn beinir því enn þeirri eindregnu áskorun til landbrh. að hlutast til um eftirfarandi nú þegar:

1. Að skipuð verði sérstök stjórn yfir þessa væntanlegu verksmiðju.

2. Útvegað verði fjármagn til þess að hefja ræktun á landi verksmiðjunnar.

3. Hraðað verði rannsókn á því, hvaða orkugjafa muni hagkvæmast að nota við graskögglaframleiðsluna.“ Bréfið með þessari ályktun er dags. á Sauðárkróki 26. júlí 1979, undirritað af Agli Bjarnasyni.

Margir fleiri aðilar norðanlands hafa ályktað um þetta efni og lýst miklum áhuga sínum á, að þessu máli verði komið áfram, og jafnframt lýst mikilli óánægju sinni með þann drátt sem orðið hefur á uppbyggingu þessara verksmiðja.

Það er rétt að það komi fram, að eftir að bygging Flateyjarverksmiðjunnar hófst og eftir að fyrrv. ráðh., Halldór E. Sigurðsson, breytti þeirri röð, sem upphaflega voru gerðar tillögur um, hafa t.a.m. fjárveitingar, þó litlar hafi verið, fylgst að til verksmiðjanna beggja. Það hefur einnig verið svo, að á báðum stöðum hefur málið verið á því stigi, eftir að það komst á nokkurn rekspöl, að ástæða hefur þótt til að láta verksmiðjurnar nokkuð fylgjast að og ekki þótt vera grundvöllur til þess að skilja þar svo mjög í sundur. Þess vegna er gert ráð fyrir því í þessari till., að uppbygging þeirra á lokastigi fylgist nokkuð að og þeim verði lokið á þann hátt að þær geti tekið til starfa á árunum 1981 og 1982.

Miðað við þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið unnar á báðum stöðum og ég hef hér í stórum dráttum dregið fram, er reiknað með af hálfu landnámsstjóra að unnt sé að koma verksmiðjunum í rekstur miðað við núverandi verðlag fyrir um 400–500 millj, kr. á hvorum stað. Það skal tekið fram, að sú áætlun er mjög lausleg, mjög gróf, og vafalaust að meira fjármagn þarf til þess að verksmiðjurnar verði fullbúnar og þeim komið í endanlegt horf. Það er rétt að hafa í huga þegar fjallað er um þetta mál.

Til þess að unnt væri að taka verksmiðju í notkun árið 1981 væri nauðsynlegt að vinna land og sá í verulegan hluta af því næsta sumar, einnig að skipuleggja verksmiðjulandið og verksmiðjusvæðið allt, panta vélar og hefja byggingu verksmiðjuhúss næsta haust. Vorið 1981 yrði þá lokið við byggingu hússins, vélar settar niður, keypt tæki, lokið vegagerð og ýmsum lögnum, svo sem fyrir vatn, rafmagn o.s.frv., og mætti þetta þá allt verða til þess að unnt væri að taka verksmiðjuna í notkun á því ári. Þetta er þó stíf áætlun og ekki framkvæmanlegt að gera það hraðar en hér er um rætt. Eðlilegt væri að önnur verksmiðjan tæki til starfa á árinu 1981 og hin á árinu 1982, þannig að þetta mál væri nokkru léttara en ef báðar ættu að taka til starfa á sama ári.

Ég skal ekki fara út í það að greina á milli með stífum orðum hvor ætti að vera fyrr á ferðinni sem nemur einu ári, en aðeins minna á allan aðdraganda málsins, sem ég var mjög viðriðinn og var á þá lund í upphafi að verksmiðjan í Vallhólmi í Skagafirði ætti að vera nr. 1.

Í tillgr. er gert ráð fyrir að fjármögnun þessa máls verði með þrenns konar móti: Í fyrsta lagi með framlögum úr heimahéraði eftir því sem unnt reynist eða aðstæður leyfa. Í öðru lagi með framlögum á fjárlögum. Og í þriðja lagi með lánsfé. Á þessari stundu er ekki hægt að segja um það með neinni vissu, hversu mikill þáttur heimamanna gæti verið í fjármögnun verksmiðjanna. Þó er nauðsynlegt að reyna og fá úr skorið hvort sá vilji, sem ég og fleiri þykjast hafa orðið varir við af hálfu heimamanna í þessu skyni, verður í raun fyrir hendi þegar til kasta kemur að leggja fram fé. Minna má á að fyrrv. þm. í Norðurl. v., séra Gunnar Gíslason, ritaði grein um þetta efni í eitt dagblaðanna fyrir nokkrum árum, og mér er kunnugt um að áhugi þess mæta manns hefur ekki minnkað fyrir þessum þætti málsins síðan, nema síður sé.

Það verður ekki hjá því komist, ef sú áætlun á að standast, sem tillgr. gerir ráð fyrir, að taka verksmiðju til nota á árinu 1981, að við afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár verði veitt verulegt fjármagn í því skyni. Í sambandi við það mál getur fjárlagatalan verið nokkuð rúm. Þar verður því ekki um neinar endanlegar fjárveitingar að ræða, vegna þess að enn er nauðsynlegt, eins og ég hef getið um, að athuga hlut heimamanna og svo ekki síður hitt, að að einhverju leyti má, einkum á lokastigi, notast við lánsfé sem hlýtur að verða með í þessu máli.

Hér er ekki ástæða til að fara að rekja þá sjóði sem mundu lána til uppbyggingar þessara verksmiðja, en lánsfé hefur verið veitt af ýmsum lánastofnunum, t.a.m. með uppbyggingu graskögglaverksmiðjunnar í Flatey í Mýrahreppi, svo að það eru ekki líkur til annars en að a.m.k. sama mundi gilda um þær verksmiðjur sem hér eru gerðar tillögur um.

Það, sem að framan er rakið og er gróf yfirferð yfir þá sögu sem liggur að baki þeirri stöðu sem við stöndum í varðandi þetta mál, sýnir ljóslega að hægt er að koma verksmiðjunum upp eins og till. gerir ráð fyrir ef fjármagn skortir ekki. Norðlendingar eru orðnir langþreyttir á þessu máli. Þeir eru orðnir langþreyttir á því að horfa á þau lönd, sem tekin hafa verið frá til þessara nota, sundurflakandi í hjarta byggðarlaga sinna. Þetta er enn sárara í árferði eins og gengið hefur á síðasta ári, þegar hvarvetna blasir við grasleysi og knappt er um heyfóður. Lengur verður tæpast unað því aðgerðaleysi sem verið hefur, enda komið fram yfir allar áætlanir um tímasetningar í þessu máli, eins og að framan er rakið.

Hér er enn fremur um þau þjóðhagslegu markmið að ræða að efla fóðuriðnað í landinu sjálfu, gera okkur óháðari innflutningi á fóðurvörum og draga úr gjaldeyriseyðslu til fóðurkaupa. Framleiðsla beggja verksmiðjanna verður væntanlega um 6000 tonn á ári, ef þær eru byggðar í þeirri stærð sem áætlanir liggja fyrir um, og er þar um að ræða aðeins lítinn hluta af því kjarnfóðri sem við flytjum inn árlega. Síðustu árin hefur innflutt fóður verið þetta frá 60–70 þús. tonn á ári, og er hér því aðeins um að ræða skref í áttina til þess að draga úr innflutningi sem hægt væri að minnka a.m.k. um helming eða meira með framleiðslu grasköggla í landinu sjálfu.

Vert er að vekja athygli á að á síðasta ári voru í fyrsta skipti fluttir inn graskögglar. Heyrst hafa vaxandi kröfur um frekari innflutning þeirra vegna þess að framleiðsla innanlands s.l. sumar seldist mjög fljótt upp og eru þeir nú að heita má ófáanlegir í landinu. Allt sýnir þetta ljóslega hve nú er nauðsynlegt að taka á í þessu máli, enda væntum við flm. þess að málið fái góðan byr á hv. Alþingi.

Harðindin, sem gengið hafa yfir landið s.l. ár, einkum norðanvert, knýja á um að leitað sé leiða til að bæta úr þeim vandamálum sem harðindum fylgja. Fáar leiðir sýnast augljósar, en þeim mun meiri ástæða er til að fara þær leiðir sem við blasa til úrbóta. Þær leiðir, sem blasa við til þess að bægja frá okkur fóðurskortinum og til þess að bæta úr því ástandi sem fylgir harðindum á borð við þau sem yfir landið gengu á s.l. ári, eru ekki síst að efla innlenda fóðurframleiðslu, að fjölga þeim fyrirtækjum sem framleiða grasköggla, að gera nú lokaátak til þess að hrinda fram því máli sem tillögur voru gerðar um fyrir nærri einum áratug.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. taki jákvætt á þessu máli og ekki einasta að sú till., sem hér er flutt, fái góðar undirtektir og verði samþ., heldur enn fremur að hv. Alþ. sjái sér fært að veita fjármagn til þessara mála til þess að það komist fram í raun sem við stefnum að með flutningi till. okkar.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. atvmn. og síðari umr.