29.01.1980
Sameinað þing: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

28. mál, graskögglaverksmiðjur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta mál. Hér er hreyft þörfu og nauðsynlegu máli. Reyndar hefur því verið hreyft fyrr, því að flm. eru ekki að koma auga á þetta nú fyrst. Alþ. hefur vitað lengi af þessum verksmiðjubyggingum, eins og glögglega kemur fram í fskj., og ákvörðun er löngu tekin um að verksmiðjurnar skuli reistar.

Í ítarlegri ræðu frummælanda var rakin forsaga málsins. Það er raunaleg saga. Það er nauðsynlegt að koma hreyfingu á þetta mál. Ég er hins vegar ekki viss um að aðferð hv. flm. sé hin heppilegasta. Ég hefði talið að það hefði verið fullt svo heppilegt að standa öðruvísi að þessu máli. Í fyrsta lagi: Ef leið þáltill.-flutnings á þessu stigi hefði verið farin til þess að vekja athygli á málinu, og það var kannske að sumu leyti brotaminnsta, vafningaminnsta og fyrirhafnarminnsta aðferðin fyrir þm., hefði verið ekki óviðeigandi að gefa öðrum þm. á Norðurlandi tækifæri til að standa að málinu sem meðflm. En eðlilegast hefði ég þó talið að upphafið hefði orðið að reyna fremur að mynda um það breiðari hreyfingu heima fyrir og koma málinu af stað að nýju þar. Það hefði verið smekklegt að hafa samband við heimamenn, m.a. með tilliti til þess að þeir hafa látið frá sér fara fjöldamargar ályktanir. Ég tók nú ekki eftir einni, sem ég veit um að gerð hefur verið, í ræðu frummælanda. Það er ályktun frá Iðnþróunarfélagi Skagafjarðar, en það mun láta þetta mál til sín taka. Með tilfiti til þess að vinna málinu fé í heimahéruðum hefði ég talið það líklegri aðferð til að afla með sæmilega skjótum hætti fjárframlaga einstaklinga og heimaaðila að reyna að stuðla að því, að þeir hefðu um málið nokkurt frumkvæði.

Ég hygg, að öllum sé ljós nauðsyn þessa máls, og ég efa ekki, að hv. 1. flm beitir áhrifum sínum — og reyndar 2. flm. líka — í hv. fjvn málinu til framdráttar.

Hv: frsm. margítrekaði í ræðu sinni að verksmiðjan í Flatey í Skaftafellssýslu hefði orðið til þess að tefja fyrir byggingu verksmiðjanna fyrir norðan. Verst að hv. þm. Egill Jónsson skuli ekki hafa haft tækifæri til að vera hér á fundinum og taka þátt í umr. úr því að byggingu og rekstur Flateyjarverksmiðju bar á góma. — Ég hygg að við getum allir verið sammála um að það hefði komið sér vel í árferði eins og þessu ef þessar verksmiðjur hefðu verið komnar þarna fyrir norðan.

Ég vil bæta því við, að þrátt fyrir almennt mjög slæma grassprettu s.l. sumar á Norðurlandi var reyndin sú, að á því svæði, þar sem Skagafjarðarverksmiðjan á að rísa, þ.e. í Hólminum í Skagafirði, var ástandið tiltölulega gott. Staðsetning verksmiðjunnar virðist því rétt og heppileg.

Varðandi fjármögnun til þessara verksmiðja, sem getið er um í tillgr. eða röðinni, tel ég að það hefði mátt raða öðruvísi fjárframlögunum. Ég hefði viljað nefna nr. 1 framlög á fjárlögum og nr. 2 framlög úr heimahéruðum eftir því sem ástæður leyfa. En allt um það held ég að við ættum að snúa okkur að því að knýja á um byggingu þessara verksmiðja.

Ég vil á þessu stigi ekki frekar en 1. flm. fara ítarlega út í að greina hvor verksmiðjan ætti að rísa á undan. Það sýnist sjálfsagt sitt hvorum. En það er pláss fyrir þessar verksmiðjur báðar, það er þörf fyrir þessar verksmiðjur báðar og við skulum flýta okkur að reisa þær báðar.