30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum úr þessum ræðustóli hvílíkt réttlætis- og sanngirnismál hér er á ferðinni. Það hafa, held ég, allir þeir hv. þm., sem kvatt hafa sér hljóðs í þessu máli, um það rætt. Sá ójöfnuður, sem viðgengst nú í þessum efnum, það misrétti sem þeir verða að þola sem búa við þann kost að þurfa að kynda hús sín með olíu, er auðvitað gersamlega óviðunandi eins og rækilega er rakið í fskj. með því frv. sem hér er til umr.

Það gefur auga leið og sér hver maður, að haldi svo sem horfir í þessum efnum, — og ekki virðast verulegar langtímabreytingar í sjónmáli að því er varðar verð á olíu, — þá mun þessi gífurlegi mismunur og það misræmi, sem nú er, valda verulegri búseturöskun í landinu. Sú búseturöskun verður væntanlega á þann veg, að þeir, sem lægstar tekjurnar hafa, þá í flestum tilvikum væntanlega gamalt fólk og ungt fólk sem er að stofna heimili, — það fólk flytur burt af olíusvæðunum og flytur á hitaveitusvæði, þar sem það getur hækkað sínar ráðstöfunartekjur um kannske 80–100 þús. kr. á mánuði eingöngu með því að skipta um íbúðarhúsnæði og flytjast þangað sem er önnur upphitun en olía. Þetta verður ekki aðeins dýrt fyrir hitaveitusvæðin, þangað sem þetta fólk flytur, heldur verður þetta mjög dýrt fyrir þjóðina í heild, og það skyldu menn hafa mjög í huga þegar um þessi mál er rætt.

Til þess að jafna þann mun, sem hér er um að ræða eru auðvitað ýmsar leiðir. Frv., sem hér er til umr., fjallar aðeins um eina þessara leiða. Um leiðir má deila. Það hefur verið bent hér á ýmsar fleiri aðferðir til að ná jöfnuði í þessum efnum, sem ég hygg að allir hv. þm. séu sammála um að stefna beri að. Mönnum er nú loks orðið ljóst, að þetta er nauðsyn og að þetta má ekki öllu lengur dragast. En aðalatriði þessa máls er auðvitað það, að Alþ. taki þá afstöðu að þennan mun og þetta misræmi beri að leiðrétta. Það er mergur málsins. Ég óttast ekki, ef samkomulag næst um að leiðrétta þennan mun, þennan gífurlega ójöfnuð, að ekki verði unnt að ná samkomulagi um að afla tekna til þess. Mergur málsins er að Alþ. taki afstöðu í þessu máli til að leiðrétta þennan mismun, og þetta frv. er flutt að mínu mati fyrst og fremst til að þrýsta á um það. Ég geri ekki ráð fyrir að flm. sé afar fast í hendi með hverjum hætti þetta verði gert, aðeins að það verði gert, þannig að þetta misræmi verði úr sögunni að eins miklu leyti og unnt er. Og það er til að þrýsta á þetta sem ég styð þetta frv., og mér finnst vissulega koma til greina að ræða hér aðrar leiðir í þessum efnum en þarna er bent á.

Það má kannske rétt vera, að hér sé fremur um að ræða mál sem fjh.- og viðskn. d. ætti að fjalla um heldur en iðnn.

Ég held að það sé alveg ljóst, að við svo búið í þessum efnum má ekki lengur standa og það er skylda Alþingis að knýja á um aðgerðir og láta aðgerðir koma til framkvæmda í þessum efnum.