30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

84. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er vissulega góðra gjalda vert, en tilgangur þess er, eins og hæstv. menntmrh. rakti áðan, að efla íslenskan kvikmyndaiðnað og stuðla að því, að Kvikmyndasjóður fái fastan tekjustofn, en framlag til sjóðsins er nú ákveðið hverju sinni í fjárlögum, eins og segir í aths.

Ég vil, þegar þetta frv. kemur nú til 1. umr., beina því til þeirrar n., menntmn. þessarar hv. d., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún taki til mjög gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé rétt að í stað þess að miða þetta við fasta upphæð, 50 kr., eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv., verði þess í stað miðað við það hlutfall sem 50 kr. eru nú af verði aðgöngumiða í kvikmyndahús, þannig að þetta framlag til kvikmyndagerðar haldist óbreytt að raungildi út það tímabil sem þessum lögum er ætlað að gilda. Það er margföld reynsla fyrir því, að þegar ákveðið er krónutöluframlag til ákveðinna þarfa með þessum hætti, sem er raunar umdeilt, þá er það framlag kannske í góðu gildi meðan verið er að samþykkja lögin og rétt fyrst á eftir, en verður harla lítils virði þegar fram í sækir. Þess vegna finnst mér að menntmn. ætti að taka það til alvarlegrar athugunar að breyta þessu á þennan veg.

Íslensk kvikmyndagerð hefur verið í lægð um langt árabil, en nú hefur þar komið til nýr fjörkippur sem vissulega er ánægjulegur, því að eins og hæstv. ráðh. gat um áðan er nýbúið að sýna eina nýja íslenska kvikmynd við ágætar undirtektir. Tvær aðrar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd eru í vinnslu nú og verða væntanlega frumsýndar á næstu vikum og mánuðum og ber sannarlega nýrra við því að slíkt hefur ekki gerst árum saman. Það er líka fagnaðarefni, að þessar kvikmyndir eru að öllu leyti unnar af íslenskum aðilum.

Íslensk kvikmyndagerð hefur að ýmsu leyti borið mjög skarðan hlut frá borði í samkeppni við útlendinga sem hingað hafa komið til að gera kvikmyndir og þá oft jafnframt myndir ætlaðar til sýningar hér á landi. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn þurfa að greiða söluskatt og toll af því efni sem þeir flytja inn til kvikmyndagerðarinnar, svo sem filmum. Það er mjög algengt að þeir þurfi sömuleiðis að leigja tæki erlendis frá til kvikmyndagerðarinnar vegna þess að þau tæki eru ekki öll til hér í landinu. Af þessari leigu þurfa þeir sömuleiðis að borga söluskatt og önnur skyldugjöld. En þeir útlendir kvikmyndagerðarmenn, sem hingað koma, koma með öll tól sín og tæki og filmur með sér og fara héðan án þess að hafa nokkuð greitt af þeim gjöldum sem starfsbræðrum þeirra íslenskum er gert að greiða. Þetta þarf að leiðrétta með einhverjum hætti.

Mér finnst líka athugandi að benda á það í þessu sambandi, þegar verið er að breyta lögum um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð og efla fjárhag Kvikmyndasjóðs og tryggja honum tekjur, hvort ekki mætti taka það til athugunar í þessu sambandi að breyta því fyrirkomulagi, sem er á Kvikmyndasjóði. Hann hefur veitt styrki frá því að hann komst á laggirnar, og hefur tilkoma hans vissulega hleypt nýju lífi í kvikmyndagerð. Ég held að það væri að mörgu leyti æskilegra og eðlilegra að Kvikmyndasjóður veitti lán þeim íslenskum aðilum sem hyggja á kvikmyndagerð. Ég hygg að íslenskir kvikmyndagerðarmenn séu yfirleitt á því, að það sé eðlilegra að til þessara hluta sé lánað fjármagn og þá kannske í þeim mæli að það nægi til að fleyta verkefnum yfir erfiðustu hjallana og koma þeim til sýningar, — þetta sé eðlilegri leið heldur en að veita lítils háttar styrki.

Þetta vil ég aðeins setja fram til athugunar við meðferð málsins.