18.12.1979
Neðri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um eftirlaun til aldraðra lá fyrir á 100. löggjafarþingi og fór í gegnum Ed. og til n. í Nd.n. klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. n., fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., afgreiddi nál. jákvætt og lagði áherslu á að greiðslubyrðum yrði létt af Atvinnuleysistryggingasjóði áður en ákvæði þessa frv. kæmu til framkvæmda. Ákvæði til að tryggja það var fellt inn í frv. í meðferð málsins í Ed., en í því ákvæði kom fram að lagt verði fram frv. sem létti greiðslubyrðar Atvinnuleysistryggingasjóðs og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna áður en frv. um eftirlaun kæmi til framkvæmdar.

Áður en ég held lengra vil ég minna á að þetta mál var samningsmál á milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar í samningunum 1977 og var öllum aðilum ljóst að undirbúningur að því máli tæki nokkurn tíma. Sú nefnd, sem starfaði að því, skilaði ekki áliti fyrr en önnur ríkisstj. var komin, fyrrv. hæstv. ríkisstj. Sú stjórn náði ekki samkomulagi sín á milli um hvernig ætti að afgreiða þetta mál. Samt var málið lagt hér fram á Alþ. og það fór í gegn í Ed. með atkv. flestra þm. með því að taka upp það ákvæði til bráðabirgða, að fyrir 1. jan. 1980 skuli ríkisstj. leggja fram frv. til l. sem létti greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna. Undir þetta nál. skrifa sex nm. í Ed. — einn nm. var fjarverandi endanlega afgreiðslu málsins — eða fulltrúar allra þeirra flokka sem þm. eiga á Alþ. Var því talið, þegar málið kom til 1. umr. í Nd. og hæstv. ráðh. fylgdi því úr hlaði, að þetta mál ætti tiltölulega greiða leið í gegnum þingið. Ég tók þá til máls á eftir ráðh. og ræddi þetta mál mjög ítarlega og efnislega og gerði þær aths. í sambandi við fjáröflunarhlið málsins sem ég hef aðeins minnst á eins og aðrir. Ég taldi mig fyrir mitt leyti geta fylgt frv. og afgreiðslu þess þannig að það yrði að lögum á vordögum 1979 og gæti tekið gildi 1. jan. 1980 og tíminn, sem liði fram að gildistöku laganna, yrði því ætlaður til þess að leggja fram frv. til að létta greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og sömuleiðis á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggja þeim nýja tekjustofna. Mér finnst ekki þessi lausn liggja svo ljós fyrir sem hæstv. ráðh. lætur í veðri vaka, og ég held að það hefði verið hyggilegra að afgreiða þetta frv. á s.l. vori, og mér er enn þá óskiljanlegt hvernig á því stóð, að fulltrúar Alþb. og fulltrúi Framsfl. í heilbr.- og trn. Nd. snerust öndverðir gegn afgreiðslu frv. á s.l. vori og vildu alls ekki lögfesta það fyrr en þessi ákvæði væru leyst um fjáröflun til sjóðsins. En nú þegar komið er að því og ætlast til að lögin taki gildi eftir örfáa daga, þá virðist allt vera í lagi og þá þarf engan undirbúning.

Ég spyr: Af hverju liggur ekki fyrir endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð? Þegar ég var heilbr.- og trmrh. skipaði ég nefnd, fulltrúa launþega, vinnuveitenda og rn., undir forustu hæstaréttardómara til að endurskoða þessi lög. Ég sá einhvern tíma í blaðagrein, að núv. hæstv. ráðh. hafi leyst þessa nefnd frá störfum. Ég spyr nú í þessu sambandi: Hvernig stóð á því? Var einhverjum öðrum falin endurskoðun þessa lagafrv. og er að því komið að það verði lagt fram? Hér segir í aths. við þetta lagafrv., að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs sé slík, að hann sé ekki fær um að bæta á sig frekari álögum, og að útgjöld þau, sem hér um ræðir, samrýmist ekki tilgangi sjóðsins. Ríkisstj. hefur á hinn bóginn talið eðlilegt að fjárhagur sjóðsins yrði styrktur með því að öðrum útgjöldum yrði létt af sjóðnum að sama skapi, og mun frv. þess efnis lagt fram á Alþ. innan skamms. Um hvað fjallar það frv.? Mér er forvitni á að vita um hvað frv. fjallar. Hver eru ákvæði þess? Þessi mál eru auðvitað svo skyld að ástæða er til þess að spyrja um það núna.

Ágreiningurinn um hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í lífeyrisgreiðslum samkv. till. þess frv., sem hæstv. ráðh. var að fylgja hér úr hlaði, hefur verið jafnaður, að því er hann segir, að ákveðið hefur verið að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái hlutdeild í þeirri hækkun söluskatts sem ákveðin var með brbl. Telja sveitarfélögin að með þeirri auknu hlutdeild hafi þau aðeins fengið fjármuni til þess að mæta auknum útgjöldum vegna þessa frv., en ekki uppbót á því, hvað þeirra tekjur hafa verið rýrðar að undanförnu með því að fella niður söluskatt af ákveðnum vörum, eins og allir vita? Ég sagði hér í fyrravor, að ég teldi að sveitarfélögin hefðu svo mikinn ávinning af þessu frv., að þau gætu einnig tekið á sig töluverð útgjöld, og vildi þar af leiðandi ekki taka nema að takmörkuðu leyti tillit til þeirra í þessum efnum. Mér finnst miður að þetta frv. skuli hafa dagað uppi með þeim hætti sem raun varð á í vor, vegna þess að hér er um samningsmál að ræða, og það er alveg sama þó að önnur ríkisstj. og meira að segja sú þriðja sé tekin við. Þá er samningur samningur þrátt fyrir það, og það ber að standa við samninga. En mér finnst málið bera ákaflega seint að. Það er tekið hér með miklum asa til umr. og ætlast til þess, að það sé afgreitt með þessum viðamiklu breytingum sem maður verður að fá frekari skýringar á. Ég er, eins og ég hef verið, ákveðinn stuðningsmaður lagasetningar um eftirlaun til aldraðra. Eins og ég vildi á s.l. vori lögfesta þetta frv., þá get ég auðvitað ekki annað en verið sjálfum mér samkvæmur með því að hraða sem föng eru á afgreiðslu þessa máls, þó að mér sé ljóst að því sé stefnt í allmikla tvísýnu, ef það á að vera tilbúið í þessari viku og fara í gegnum sex umr. og tvær n. í hv. Alþ. Ég mun ekki fyrir mitt leyti leggjast á málið, nema síður sé, en ýmsar skýringar á fjárhagshlið málsins óska ég eftir að fá.

Ég ætla ekki að tefja umr. hér í d., því að eins og ég sagði áðan vil ég á engan hátt bregða fæti fyrir málið, heldur reyna eins og hægt er að hraða afgreiðslu þess.