31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þær spurningar, sem hv. þm. ber fram, eru í rauninni þrjár: 1. Á reglugerðin, sem um er að ræða, um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna, sér stoð í lögum? Hefur rn. m.ö.o. heimild til útgáfu þeirrar reglugerðar sem út hefur verið gefin og hefur raunar verið í gildi alllengi þó að sú breyting hafi nú verið gerð sem var tilefni til þessara umr.? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin var: Hvaða ástæður lágu aða baki þess að sú ákvörðun var tekin að gera þá breytingu á þessari reglugerð sem var gerð í gær?

Í þriðja lagi spyr hv. þm. um meðferð málsins. Hefur í sambandi við afgreiðslu málsins verið brugðið út af einhverri venju sem á að fylgja og fylgt hefur verið.

Þá er rétt að snúa sér að því að svara fyrstu spurningu hv. þm., hvort ákvörðun þessi eigi sér stoð í lögum. Fyrst þegar ég kynnti mér þetta mál eftir þau blaðaskrif sem urðu um það fyrir nokkrum dögum taldi ég, eins og hv. þm., að sú reglugerð, sem í er vitnað, ætti sér ekki lagastoð, vegna þess að ákvæðið í áfengislögunum um að bannaður væri innflutningur og framleiðsla á sterku öli á Íslandi væri afdráttarlaust. Ég bað því um sérstaka athugun á þessu máli í fjmrn. Sú athugun leiðir í ljós að áliti lögfræðinga fjmrn., að ekki er rétt sú skoðun, sem ég hafði fyrst, að hér sé um að ræða reglugerð sem vantaði lagastoð, heldur setti Alþ. þvert á móti sérstök lög á sínum stíma vitandi vits til þess að reglugerðin eignaðist stoð í lögum. Ég tek fram að lögfræðingar fjmrn. hafa haft sérstakt samband bæði við Björn Hermannsson og þann fyrrv. ráðh., Magnús Jónsson, sem upphaflega setti reglugerðina og fékk samþykkt á Alþ. lög til stuðnings henni. Álit lögfræðinganna kemur fram í svari mínu á eftir.

Reglugerðin um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum o.fl. og m.a. um áfengt öl er sett með stoð í 42. tölul. 3. gr. tollskrárlaga, nr. 120 frá 1976. 42. tölul. 3. gr., sem áður er vitnað til, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjmrn. er heimilt að fella niður gjöld af varningi, allt að ákveðnu hámarki hverju sinni, sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum, umfram þá muni sem greinir í 4. og 5. tölul. 2. gr., enda sé ekki um innflutning í atvinnuskyni að ræða. Undanþágu þessa má takmarka við ákveðna vöruflokka eða hámarksverðmæti tiltekinna vörutegunda. Að öðru leyti gilda ekki aðrar innflutningshömlur um slíkan varning en settar eru vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana.“

Auk heimildarinnar í 42. tölul. 3. gr. tollskrárlaga er rétt að benda á 3. mgr. 1. gr. laga nr. 63 frá 1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Þar segir að ráðh., þ.e. fjmrh. í þessu tilviki, sé heimilt að setja sérreglur um innflutning ferðamanna og áhafna skipa og flugvéla á áfengi og tóbaki.

Það er að sjálfsögðu rétt, að í 3. gr. áfengislagá nr. 82 frá 1969, sbr. lög nr. 84 frá 1971, eru settar hömlur við innflutningi áfengis öls. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó skal óheimilt að flytja til landsins öl, sem hefur að innihalda meira en 21/4% af vínanda að rúmmáli.“ Ákvæði þetta eitt sér slitið úr samhengi við aðra löggjöf og skilið eftir orðanna hljóðan leiðir að sjálfsögðu til þeirrar niðurstöðu að innflutningur á öli sé fortakslaust bannaður. En 3. gr. áfengislaga verður að skoða og skýra með hliðsjón af því ákvæði 42. tölul. 3. gr. tollskrárlaga, þar sem segir m.a. að aðrar innflutningshömlur en þær, sem eru vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana, gildi ekki um slíkan varning, þ.e. varning ferðamanna og áhafna.

Heimildarákvæði 42. tölul. 3. gr. tollskrárlaga er ekki nýtt af nálinni, þ.e. ákvæði það sem reglugerðin styðst við. Það varð til með lögum nr. 102 frá 22. des. 1965. Heimildarákvæði þessu var ætlað að skapa svigrúm til þess að hægt væri að setja fastar reglur er gilda skyldu um tollfrjálsan innflutning ferðamanna og farmanna á sjó og í lofti til að koma fastari skipan á þau mál en verið hafði fram til þess tíma.

Fyrir nokkrum dögum ritaði Björn Hermannsson tollstjóri grein í dagblaðið Vísi, þar sem hann segir frá aðdraganda þess að þetta heimildarákvæði varð til. Samkv. frásögn Björns kemur fram, að tilgangurinn með lagasetningu þessari var að mynda lagastoð innflutningi farmanna og ferðamanna á áfengi og tóbaki svo og innflutningi farmanna og ferðamanna á öðrum vörum sem tíðkast höfðu, en að áliti fjmrn. var ekki nægileg lagastoð fyrir á þeim tíma.

Mig langar að vitna til orða frsm. með máli því sem þá var frv., en nú er lög, þáv. fjmrh. Magnúsar Jónssonar, og finnst rétt að koma með tilvitnun úr ræðu sem hann flutti við meðferð frv. á Alþ. árið 1965. Þá sagði hæstv. þáv. fjmrh. Magnús Jónsson orðrétt í framsöguræðu í Ed., með leyfi forseta:

„Hins vegar, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur það þróast undanfarna áratugi, að ferðamenn og farmenn hafa fengið að hafa meðferðis ýmsar tegundir af varningi án þess að greiða toll er þeir koma til landsins. Hefur ýmiss konar ósamræmi skapast í sambandi við innflutning þennan, sem í senn hefur valdið tollyfirvöldum miklum erfiðleikum og einnig að sjálfsögðu ferðamönnum og farmönnum, sem áreiðanlega flestir hverjir vilja hlíta settum reglum um þetta efni, ef þær væru fyrir hendi. Ýmsar venjubundnar reglur hafa að vísu skapast, en þessar reglur eru að ýmsu leyti þess eðlis, að þær fá ekki að þróast með eðlilegum hætti og raunar ýmsar ekki staðist að lögum.

Ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um hina brýnu nauðsyn þess að tollheimta og tolleftirlit sé í sem föstustum skorðum, og á það hefur verið lögð rík áhersla, svo sem við verður komið, að hindra smygl og ólöglegan innflutning varnings. En þá verður að sjálfsögðu það að vera ljóst bæði tollgæslumönnum og gagnaðilum, þ.e.a.s. þeim, sem til landsins koma með ýmiss konar varning, hvað leyfilegt sé.“

Hæstv. þáv. fjmrh. hélt áfram og sagði:

„Þegar að því kom að ganga endanlega frá þessum reglum, kom í ljós, að ekki aðeins voru mjög vafasamar lagaheimildir fyrir mörgu því, sem þróast hefur í þessu efni,.og mörgu því, sem í rauninni allir telja sjálfsagt að gildi, heldur hefur einnig þróast ýmiss konar innflutningur og það um áratugi, sem beinlínis er bannaður í lögum.“

Hæstv. þáv. ráðh. sagði einnig, í framsögu í Nd.: „Þegar það lá fyrir, að ekki mundi verða auðið að setja þessar reglur nema þá með svo ströngum mörkum, að það er í rauninni engin von til þess, að það væri hægt að framfylgja þeim, ef það ætti að byggja á augljósum lagafyrirmælum, sem nú eru til, varð niðurstaðan, að rétt þótti að leita eftir þeirri heimild, sem felst í frv. því, sem hér er flutt til breytinga á lögum um tollskrá. En heimild þessi felur í sér, að fjmrn. geti sett reglur um tollfrjálsan innflutning ferðafólks og farmanna, er miðist við það, sem eðlilegt má telja í þessum efnum, og yrði þar þá að sjálfsögðu stuðst við alþjóðlegar venjur í því sambandi og þessar heimildir rn. takmarkist ekki af sérlögum nema að svo miklu leyti sem sjálfsagt er og eðlilegt að verði að vera vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana.“

Rétt er í þessu sambandi að vekja aftur sérstaka athygli á þeim orðum hæstv. þáv. fjmrh., að heimildirnar, sem hann er að biðja hv. Alþ. að gefa sér lagastoð fyrir, takmarkist ekki af sérlögum eins og t.d. áfengislögunum, nema að svo miklu leyti sem sjálfsagt er og eðlilegt að verði að vera vegna sóttvarna og annarra öryggisráðstafana. Því liggur alveg fyrir hvaða heimild þáv. fjmrh. er að biðja um, og þeir hv. þm., sem samþykktu þessa lagabreytingu, gengu ekki að því gruflandi hvaða erindislok þeir voru að veita hæstv. þáv. fjmrh.

Mér þykir auk þess rétt að minna á að frá setningu laga nr. 102 frá 1965, um breyt. á tollskrárlögum, þar sem nefnd heimildarákvæði í 42. tölul. 3. gr. tollskrárlaga voru í lög leidd, hafa verið sett tvenn lög er snerta innflutning á áfengi. Þar á ég annars vegar við lög nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, og lög nr. 82 frá 1969, þ.e. áfengislög. Frá 1965 hafa verið gefnar út af fjmrn. fjölmargar reglugerðir byggðar á margnefndu heimildarákvæði, þar sem m.a. heimildir ferðamanna til innflutnings á tollfrjálsu áfengi hafa verið rýmkaðar. Í öllum þessum reglugerðum hafa heimildir til innflutnings á öli verið gefnar, en að vísu hingað til aðeins verið bundnar við tilteknar atvinnustéttir í landinu. Telja verður víst að öllum þm. hafi verið fullkunnugt um þau ákvæði sem giltu um tollfrjálsan innflutning farmanna og ferðamanna, og ef ætlun þeirra hefði verið sú við setningu nefndra laga um meðferð áfengis að nema úr gildi heimildarákvæði tollskrárlaganna hefði verið eðlilegt að afstaða hefði verið tekin til slíkrar breytingar með sérstökum ákvæðum í lögum um innflutning og meðferð áfengis eða við breytingar á tollskrárlögum, sem gerðar hafa verið allt frá árinu 1971 og fram á þennan dag. Það er því ljóst af því sem ég að framan hef rakið, að reglugerð sú, sem endurútgefin hefur verið nú og hefur verið gerð að umræðuefni, á sér fyllilega og fullgilda lagastoð og henni var veitt lagastoð með sérstakri lagabreytingu frá Alþ., sem hæstv þáv. fjmrh. bað Alþ. um að gefa til þess að hann gæti gefið út reglugerð þá sem dregið hefur verið í efa hvort lagastoð hafi.

Þetta vona ég að nægi sem svar við fyrstu spurningu hv. þm. um hvort sú reglugerð, sem hér um ræðir, eigi stoð í lögum. Ég var eins og hann á þeirri skoðun, að það væri vafasamt, fyrst þegar ég kynnti mér málið, en niðurstaðan af þeirri athugun, sem fram hefur farið, sem að mínu viti er skýr og ótvíræð, er í þá átt að hér sé um að ræða reglugerð sem Alþ. hafi sérstaklega heimilað lagastoð við.

Í öðru lagi er það spurning hv. þm., hvers vegna sú ákvörðun var tekin að breyta þeim reglum sem gilt hafa í þessu sambandi, þ.e. að heimild til innflutnings á áfengum bjór væri aðeins bundin við tilteknar atvinnustéttir.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að það er mitt sjónarmið að í slíkum málum eigi eitt og hið sama að ganga yfir alla landsmenn. Það er óeðlilegt að takmarka heimild af þessu tagi við tilteknar atvinnustéttir, þannig að sumar atvinnustéttir þessa lands hafi heimild til slíks tollfrjáls innflutnings, en aðrar ekki. Slíkt er óeðlilegt og ég sé engin rök fyrir því að hafa slíkt misvægi í réttindum eftir atvinnustéttum. Mitt sjónarmið var því annaðhvort að afnema þessa heimild hjá öllum ellegar veita öllum atvinnustéttum hina sömu heimild.

Ég athugaði það sérstaklega að fella heimildina niður á innflutningi á áfengu öli til landsins, þannig að engin atvinnustétt, hvorki farmenn, ferðamenn né flugáhafnir, hefði slíkan rétt. En í því sambandi vil ég taka fram, að nokkru fyrir jólin kom til mín sendinefnd frá farmönnum til að bera upp mjög eindregna ósk um að réttindi þeirra til innflutnings á tollfrjálsu áfengi yrðu rýmkuð. Bentu þeir í því sambandi á að hér væri um að ræða atriði sem þeir litu á sem kjaraatriði fyrir sig, þ.e. ekki aðeins innflutningur á tollfrjálsum varningi almennt, þar með talinn innflutningur á tollfrjálsu áfengi og öli. Og þeir bentu á að á umliðnum árum hefði ítrekað verið í þann sama knérunninn höggvið, að fjmrn. hefði smátt og smátt verið að takmarka þennan rétt sem farmenn hefðu haft, sem hefði aftur á móti haft áhrif til þess að rýra þau kjör sem þeir hefðu notið. Ég féllst ekki á það erindi þeirra að rýmka innflutningsheimildirnar eins og þeir óskuðu eftir, en þeir óskuðu eftir að fá að flytja tollfrjálst inn tvær heilflöskur af sterku eða léttu víni í stað heimildar um tvær þriggja pela flöskur af slíkum drykkjum eins og þeir hafa núna. Hins vegar þóttist ég alveg vita að því yrði ekki vel tekið að margra ára hefð um atriði eins og þetta, sem farmenn telja að snerti mjög verulega kjör sín, yrði afnumin. Þar sem ég taldi það ekki vera ráð greip ég hitt úrræðið, að heimila öllum Íslendingum sama rétt án tillits til þess hvaða atvinnu þeir stunda.

Ég vona að þessi skýring sé nægjanlegt svar við spurningu nr. tvö sem hv. þm. bar fram. Ef einhver á að fá þennan tiltekna rétt er það skoðun mín að sá réttur eigi að ganga jafnt yfir alla. Ég held að við hv. þm. Helgi Seljan hljótum að vera sammála um þá grundvallarafstöðu til mála, þó svo okkur kunni að greina á um hvort sú afstaða á að ná til áfengra drykkja eða hvort áfengir drykkir eigi einir að vera þar undanskildir.

Í þriðja lagi er spurt, hvort einhver annar háttur hafi verið hafður á þessu máli en áður þegar fjmrh. hafa breytt umræddri reglugerð, t.d. hvort nú hafi ekki verið leitað umsagnar áfengisvarnaráðs, sem sé umsagnaraðili í þessu máli. Ég hef einnig aflað mér sérstakra upplýsinga um það og vil skýra frá því, að umsagnar áfengisvarnaráðs hefur aldrei verið leitað þegar reglugerðinni hefur verið breytt, m.a. ekki þegar heimildir ferðamanna til að flytja inn áfengi tollfrjálst voru rýmkaðar að því leyti til, að í stað þess að áður máttu ferðamenn flytja inn tollfrjálsa eina þriggja pela flösku af sterku víni og eina þriggja pela flösku af léttu víni, þá var ákvæðið rýmkað á sínum tíma þannig að ferðamenn máttu taka með sér eina lítraflösku af sterku víni og eina lítraflösku af léttu víni. Þá var umsagnar áfengisvarnaráðs ekki leitað, og var þó í þessu tilfelli verið að auka heimildir ferðamanna til að taka áfengi til landsins. Í engu tilviki, þegar um þessar reglur hefur verið fjallað, hefur verið leitað umsagnar áfengisvarnaráðs, enda eru verkefni og viðfangsefni áfengisvarnaráðs tilgreind í áfengislögum og lúta að framkvæmd þeirra.

Í fjórða lagi vil ég gjarnan, hv. þm. til ánægju, vona ég, skýra frá að sú afstaða mín, sem fram kemur í umræddri reglugerð, breytir ekki afstöðu minni til þess, hvort heimila eigi gerð og innflutning til sölu á sterku öli hér á landi. Ég fellst á að rétt sé að það mál, sala og framleiðsla á áfengu öli á Íslandi, hafi ýmis rök bæði með og móti. En afstaða mín hingað til hefur verið sú, að ég væri andvígur því að heimila innflutning og sölu á sterku öli hér á landi. Sú afstaða mín er óbreytt, þannig að ég er jafnandvígur því að opna nú fyrir þetta og ég hef áður verið. En menn skyldu ekki fæða þetta mál á þeim grundvelli að valið standi milli ástands, sem nú ætti að vera, að það sé ekkert áfengt öl í landi, og þess, sem um er verið að ræða, að heimila framleiðslu og sölu á áfengu öli hér. Staðreyndin er auðvitað sú, og þýðir ekkert fyrir alþm. að loka augunum fyrir því, að á Íslandi getur hver fengið þann bjór sem hann vill. Það er fast verð hér á landi á smygluðum sterkum innfluttum bjór, og þeir, sem ekki vilja kaupa slíka vöru, eiga mjög hægt með að búa sér hana til sjálfir. Það er alveg út í hött ef alþm. og aðrir fjalla um þessi mál án þess að viðurkenna þær einföldu staðreyndir. En þær breyta ekki þeirri skoðun minni, að ég hef verið og er enn mótfallinn því, að þeim ákvæðum áfengislaga verði breytt sem banna innflutning til sölu á sterku öli eða framleiðslu á sterku öli til sölu í landinu. Ég tel slíka breytingu ekki tímabæra, ég tel slíka breytingu ekki æskilega og ég tel að útgáfa þessarar reglugerðar hafi ekkert með það mál að gera.

Ég vil að lokum benda mönnum á að með breytingunni, sem var gerð á reglugerðinni um tollfrjálsan farangur ferðamanna, eru heimildir ferðamanna til innflutnings á tollfrjálsu áfengi ekki rýmkaðar, þær eru ekki auknar. Menn geta eftir sem áður komið til landsins með eina heilflösku af sterku víni og eina heilflösku af léttu víni ef þeir svo kjósa. Ef þeir gera það mega þeir ekki flytja inn áfengt öl. Menn geta hins vegar skipt á annaðhvort einni heilflösku af sterku víni og 12 ölflöskum ellegar einni heilflösku af léttu víni og 12 ölflöskum. Þeir, sem eru góðir í prósentureikningi, eins og margir Íslendingar eru, svo maður tali ekki um flokksmenn hv. fyrirspyrjanda og fljótir að reikna út prósentur, munu fljótlega komast að þeirri niðurstöðu, að ef væri miðað við áfengismagnið, sem flutt yrði inn tollfrjálst, yrðu það vond skipti fyrir áhugamenn um áfengismál, þ.e. þá menn sem áhuga hafa á að flytja mikið af áfengi til landsins tollfrjálst. Þá yrðu það slæm skipti að skipta á 12 bjórflöskum að stærð 0.33 cl og einni flösku af léttu víni. Hér er því ekki um að ræða að auka heimildir til tollfrjáls innflutnings á áfengi. Hér er ekki um að ræða að opna dyr fyrir innflutningi til sölu eða framleiðslu í landinu á sterku öli. Hér er um það að ræða að ákveðnar atvinnustéttir í landinu hafa um margra ára skeið notið tiltekinna réttinda, sem mér þótti ekki ráðlegt að afnema. En það er lífsskoðun mín að menn eigi að vera jafnir gagnvart slíkum réttindum eftir því sem framast er unnt. Hafi ein, tvær eða þrjár atvinnustéttir þau réttindi, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni, finnst mér réttlátt, sjálfsagt og eðlilegt að allir landsmenn, án tillits til stöðu sinnar í þjóðfélaginu eða til þess hvaða verk þeir vinna, njóti sömu réttinda.