31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Í fyrsta lagi verða þau rök aldrei færð fram, að þarna sé verið að mismuna annars vegar þeim, sem ferðast til útlanda, og hins vegar öðrum landsmönnum. Reglugerðin, sem hér um ræðir, er nefnilega um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna. Það misrétti verður auðvitað ávallt, að þeir, sem ekki ferðast til útlanda, fá auðvitað ekki að taka með sér tollfrjálsan varning frá útlöndum. Til þess að það sé hægt verða menn að ferðast. Þarna er því ekki hægt að rökfæra með sama hætti og ég gerði.

Í sambandi við það hvor lögin eigi að vera ráðandi þarna, áfengislögin eða tollskrárlögin, vil ég aðeins enn vekja athygli þm. á því, að þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. óskaði eftir, að Alþ. veitti sér lagalega heimild til að ákvarða um svona hluti með reglugerðarútgáfu, sagði hann orðrétt, að tilgangurinn væri sá, að heimildir rn. takmörkuðust ekki af sérlögum nema að svo miklu leyti sem sjálfsagt er og eðlilegt að verði að vera vegna sóttvarna og annarra öryggisráðstafana. — Þannig liggur alveg ljóst fyrir af hálfu ráðh., þegar hann óskaði eftir þessari heimild frá Alþ., að hann var að biðja um að Alþ. samþykkti heimildir til rn. sem ættu ekki að takmarkast af sérlögum eins og áfengislögunum. Það Alþ., sem samþykkti þetta árið 1965, fór ekki í neinar grafgötur með að það var að veita fjmrh. heimild til að úrskurða um þetta með reglugerð, þannig að sérlög eins og áfengislögin takmörkuðu ekki reglugerðarvald hans. Það var alveg ljóst, um hvað ráðh. var að biðja, og alveg ljóst, hverju Alþ. svaraði. Að sjálfsögðu er ávallt hægt að takmarka slíkar heimildir með lagabreytingu, en í allri meðferð málsins frá 1965 hefur það aldrei verið gert. Ástæðan er mjög einfaldlega sú, að öllum þm. er ljóst að þarna var verið að veita tilteknum atvinnustéttum reglugerðarstoð fyrir hlutum sem þessar atvinnustéttir líta á sem tengdar sínum kjörum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Afstaða mín er því aðeins sú, að það eigi eitt yfir alla að ganga án tillits til þess hvaða atvinnu menn stunda.

Það er auðvitað alveg fráleitt að ég hafi haldið því fram, að fyrir fimmtán árum, þegar þessi lagastoð var gefin, hafi það Alþ. verið að samþykkja þá ráðstöfun sem ég er að gera núna. Því hef ég aldrei haldið fram, enda væri broslegt að láta sér detta slíkt í hug. Ég er að segja að fyrir 15 árum, þegar Alþ. samþykkti þessa lagabreytingu, var það að gera það til þess að fjmrh. hefði lagastoð fyrir því reglugerðarvaldi sem hann beitti og aðrir fjmrh. hafa síðar beitt, þannig að það væri alveg ljóst að heimild rn. til útgáfu reglugerða um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu fráútlöndum takmarkaðist ekki af sérlögum. Þessa ákvörðun tók Alþ. árið 1965, og sú ákvörðun þýðir að án tillits til þess, hvað stendur í sérlögum, svo sem áfengislögum, hefur fjmrh., hver svo sem hann er og þangað til þessum ákvæðum tollskrárlaga verður breytt, heimild til að gefa út reglugerð um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna sem víkur frá ákvæðum sérlaga. Um þetta var beðið og slíka heimild veitti Alþ. Þetta skulu menn athuga. Þetta kom mjög skýrt fram í máli þáv. fjmrh., og þessi afstaða hlýtur að liggja alveg ljós fyrir, þannig að það er ekki rétt og raunar broslegur misskilningur að ég hafi haldið því fram, að fyrir 15 árum hafi þáv. Alþ. verið að ákveða að veita mér leyfi til þess að taka þá sérstöku ákvörðun sem ég tók fyrir nokkrum dögum. Það, sem ég sagði, liggur vonandi ljóst fyrir.

Um það, hvort ráðh. í starfsstjórn hafi leyfi til að gera slíkt sem þetta, þá liggur alveg ljóst fyrir að ráðh. í ríkisstj., hvaða nafni sem hún nefnist, fer með reglugerðarvald. Því verður ekki breytt. Ég vil vitna í því sambandi til mjög merkilegrar ráðstefnu sem lögfræðingar héldu fyrir nokkrum dögum um verkefni og viðfangsefni starfsstjórnar. Það er út af fyrir sig merkilegt, þó að ég vilji ekki draga það inn í þessa umr., að niðurstaða þeirra var að umboð og skyldur starfsstjórnar væru í raun réttri nákvæmlega sömu og umboð og skyldur hefðbundinnar ríkisstj. En svo er spurningin um hvernig menn nota þær heimildir sem þeir hafa í höndum þegar þetta mál kemur upp. Mér var ljóst, að hér væri um reglugerð að ræða sem ætti stoð í lögum og var sérstaklega lögleidd, stóð í lögum fyrir, einmitt til þess að ráðh. kvæði á um þetta. Þá fylgdi ég sannfæringu minni, að fyrst einhverjum tilteknum atvinnustéttum væri veittur einhver tiltekinn réttur umfram aðrar skyldu þau vinnubrögð viðhöfð, fyrst málið kom til skoðunar, að veita öllum landsmönnum sömu réttindi án tillits til þess, hver væri staða þeirra í þjóðfélaginu, án tillits til þess, hvaða starfa þeir gegndu.