31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er fjallað um till. til þál. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi. Ég vil að sjálfsögðu lýsa fyllsta stuðningi mínum við þessa till., sem hv. 3. þm. Vesturl. hefur gert glögga grein fyrir.

Í grg. er að því vikið, að með till. þessari sé annars vegar reynt að leggja áherslu á þátt iðnaðar í mótun atvinnumálastefnu næstu ára og hins vegar að tryggja Vesturlandi eðlilegan þátt í framkvæmd þeirrar stefnu. Enn fremur er rætt um að eðlilegt sé að fela Framkvæmdastofnun ríkisins gerð þeirrar áætlunar um þróun iðnaðar sem hér erum fjallað. Allt er þetta rétt. En ekkert er nýtt undir sólinni, eins og þar stendur. Það mun hafa verið að þm. Sjálfstfl. á Vesturlandi, sem þá voru sr. Ingiberg J. Hannesson og ég, fluttu till. til þál. um þróun iðnaðar á Vesturlandi, sem ég leyfi mér að víkja að örfáum orðum af því þessar tvær till. eru náskyldar. Sú till, komst að vísu aldrei alla leið eftir þjóðbraut þingsins, ef svo má segja. Till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hraðað verði gerð áætlana um iðnþróun á Vesturlandi til þess að treysta atvinnugrundvöll í kjördæminu, einkum þar sem atvinnuástand er ekki öruggt og þar sem iðnaður gæti fyllt upp í og skapað öryggi í atvinnu við hlið hinna hefðbundnu atvinnugreina í sjávarútvegi og fiskvinnslu, landbúnaði, verslun og hinum ýmsu þjónustugreinum.“

Í grg. með till. var einnig vikið að þeim áætlunum sem gerðar hafa verið eða undirbúnar á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins um þessi efni. M.a. var bent á þá miklu þörf sem væri víða brýn og aðkallandi í hinum ýmsu dreifðu byggðarlögum landsins, sem yrðu að bíða árum saman eftir samningu áætlana um verkefni sem hrinda þyrfti í framkvæmd sem fyrst ef vel ætti að vera. Sagði m.a. í þeirri grg. efnislega á þá leið, að víða stæðu menn frammi fyrir þeirri staðreynd að ungar vinnandi hendur yrðu að flýja byggðarlög sín og fara annað í atvinnuleit til að geta skapað sér framtíðarmöguleika við sæmilegt atvinnuöryggi.

Margt hefur verið um þessi mál rætt og ritað svo sem hv. frsm. vék að í ræðu sinni hér áðan. Í niðurlagi þeirrar grg. var tekið svo til orða, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri og hraðri mótun og hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma frá tiltölulega frumstæðu bændaþjóðfélagi til iðnvædds nútímaþjóðfélags, sem byggir á vaxandi tækniþekkingu og hagræðingu á ýmsum sviðum. Því er nauðsynlegt að samfara hagnýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar fari skynsamleg áætlanagerð um nýtingu þeirra og uppbyggingu, sem verða mun þjóðinni til sem mestra hagsbóta þegar tímar líða.“

En sagan endurtekur sig. Ég hef með þessum fáu orðum bent á að hinar umræddu þáltill. tvær, um eflingu iðnaðar og iðnþróun á Vesturlandi, séu náskyldar að efni og anda. En ég vil taka það skýrt fram, að þetta rýrir á engan hátt till. þá sem hér er flutt. Gildi hennar stendur óhaggað. Þetta sýnir aðeins að hér er um mikilvægt mál að ræða, sem ekki er fullunnið, mikið land, sem enn er lítt numið.

Ég get líka getið þess hér til gamans, að fyrsta málið, sem ég talaði fyrir hér í sölum Alþ. fyrir nærfellt aldarfjórðungi, var till. um leirvinnslu í Dalahéraði, eins og hv. frsm vék að áðan.

Blómlegur iðnaður hefur að sjálfsögðu lengi verið stundaður á Vesturlandi, því er ekki að neita og á það má benda. Það má mörg dæmi nefna. Ég ætla að leyfa mér að nefna aðeins sem dæmi Akraneskaupstað, sem er nú stærsti byggðakjarni Vesturlands. Þar má skipta atvinnulífi í þrjá meginþætti: í fyrsta lagi fiskveiðar og fiskiðnað, í öðru lagi iðnað og framleiðslu iðnaðarvara og í þriðja lagi verslun og þjónustustörf. Mun láta nærri að mati heimamanna að þessir þrír atvinnuvegir séu ámóta stórir þar í sveit.

Í Stykkishólmi munu nú vera búsettir um eða yfir 100 faglærðir iðnaðarmenn. Handaverk þeirra má víða sjá. M.a. leyfi ég mér að nefna í því sambandi félagsheimilið og hótelið á staðnum, en þar lýsa handaverkin gerst, ja, ég vil segja hverri fullkomnun iðnaðarmenn þar hafa náð í sinni grein.

Á iðnsýningu í Borgarnesi fyrir fáum árum kom margt í ljós sem vakti óskipta athygli manna, án þess því hefði fyrr verið sérstakur gaumur gefinn, liggur mér við að segja. Svo mætti lengi telja.

En eins og bent er á í grg. og víðar þarf fjölbreytt iðnaðarstarfsemi að eflast og þróast um allt Vesturland til að tengja saman og styrkja núverandi byggð, þéttbýli og strjálbýli á þessu landssvæði öllu. Þess vegna ber að fagna allri viðleitni, sem minnir á þessi mál, og sérhverri tilraun, sem miðar að því að þoka þeim eitthvað áleiðis.