31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að um efni till. sem þessarar, um eflingu iðnaðar á Vesturlandi, geti verið nokkur ágreiningur hér í þingsölum. Hitt skyldu menn hafa í huga, þegar tillögur sem þessi eru ræddar og vonandi samþykktar, að áætlanir af þessu tagi leysa ekki allan vanda, þótt orð séu að vísu til alls fyrst.

Það hefur þegar komið fram í ræðum þeirra hv. þm., sem hafa talað hér á undan, að ýmiss konar áætlunargerð, sem m.a. snertir iðnaðarmál, er í gangi varðandi Vesturland. Það, sem auðvitað þarf að huga að í þessu sambandi, eins og hæstv. fyrrv. iðnrh. kom að í ræðu sinni hér á undan, er að slík áætlunargerð fyrir einstaka landshluta verður auðvitað í leiðinni að taka mið af heildinni, og heildariðnþróunarstefna hefur enn ekki verið mörkuð hér því miður.

Áætlanir af þessu tagi eru vissulega gagnleg hjálpartæki, en þær eru ekki heldur miklu meira ef ekki kemur til það fjármagn sem þarf til að gera þær að raunveruleika. Þm. Vesturlands hafa flutt hér till. í tengslum við áætlun um Dalabyggð. Sú áætlun hefur legið fyrir fullmótuð um nokkurt skeið, en af framkvæmdum hefur ekkert orðið vegna þess að fjármagn hefur ekki fengist. Það er ekki til neins að gera áætlanir, þótt góðar séu, ef þær fá það hlutverk eitt að rykfalla í hillum stofnanakerfisins. Þess vegna þarf meira að koma til. Og ég hygg í þessu sambandi, þegar fjallað er um áætlunargerð í iðnaði, sem vissulega skiptir miklu, og iðnaðurinn þarf, eins og fram hefur komið, að taka við þeirri mannaflaaukningu, sem hér kemur á næstu árum, umfram aðrar atvinnugreinar, þá þarf meira að koma til en áætlanir einar. Í því sambandi hlýtur að mínu mati mjög að koma til álita, hvort ekki er rétt, nauðsynlegt og eðlilegt að taka út úr sérstaklega þau verkefni, sem þegar liggja fyrir og hægt er að byrja að vinna að, eins og perlusteinsvinnsluna, sem var lítillega vikið að áðan.

Þeir, sem hafa talað hér á undan mér, hafa gert nokkra úttekt á stöðu iðnaðar á Vesturlandi, og ég ætla ekki að fara að endurtaka neitt af því hér. Hins vegar eru svæðin og þéttbýlisstaðirnir afskaplega misjafnlega stödd í þessum efnum. Þar sem ástand hefur kannske verið einna lakast og mest er þörf á nýjungum og nýjum iðngreinum, það er í Búðardal og á svæðum þar í grennd. En þar er einmitt um þessar mundir verið að kanna ítarlega hvort ekki sé hægt að koma á fót mjög athyglisverðum nýiðnaði, sútun á selskinnum, sem einnig skapaði margvísleg önnur atvinnutækifæri ef að veruleika verður, svo sem möguleika á iðnaði úr skinnum. Einnig mætti nefna loðdýrarækt, þar sem yrði notað sem fóður það kjöt sem til fellur, og sitthvað fleira hefur verið nefnt í því sambandi.

Það má ekki gleymast í þessu sambandi, þótt talað sé um áætlanir og þær séu vissulega góð hjálpartæki, þá hlýtur gerð þeirra að taka nokkurn tíma. Þær verða að taka tillit til margra þátta, ekki eingöngu á því landssvæði, sem um er að ræða, heldur og á landinu öllu. En það má ekki verða til þess, að þau tækifæri, sem þegar eru fyrir hendi, gleymist.