31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

66. mál, aðild Íslands að Genfarbókuninni 1979

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur ákveðið að leggja fram till. til þál. þar sem farið er fram á að Alþ. heimili ríkisstj. að gerast fyrir Íslands hönd aðili að Genfarbókuninni 1979 við hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti, sem gerð var í Genf hinn 30. júní 1979. Svo sem kunnugt er hefur Ísland frá 21. apríl 1968 verið fullgildur aðili að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti — The General Agreement on Tariffs and Trade — sem skammstafað er GATT og var gert hinn 30. okt. 1947. GATT, sem var einungis ætlað að vera bráðabirgðasamkomulag, hefur allt frá gildistöku hinn 1. jan. 1948 verið aðalvettvangur viðræðna um tollamál á breiðum alþjóðlegum grundvelli. Er ekki aðeins stefnt að því að lækka tolla verulega, heldur og að draga úr öðrum viðskiptahömlum og afnema mismunun í alþjóðaviðskiptum.

Genfarbókunin 1967 við Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti, sem gerð var 30. júní 1967 og Ísland varð aðili að á árinu 1968, var mikilvægur áfangi í átt að markmiði GATT. Var bókunin árangur mjög umfangsmikilla marghliða tollaviðræðna, sem fóru fram í Genf á árunum 1964–1967 og ganga almennt undir nafninu Kennedy-viðræðurnar. Ísland hafði orðið bráðabirgðaaðili að GATT árið 1964 og gat þá tekið þátt í þessum viðræðum, sem leiddu til lækkunar á tollum á nokkrum íslenskum útflutningsvörum, en á móti voru lækkaðir innflutningstollar á nokkrum vörum og bundnir tollar á öðrum.

Fljótlega eftir gildistöku Genfarbókunarinnar 1967 þótti ástæða til að lyfta nýju Grettistaki í alþjóðaviðskiptum. Fóru fram marghliða viðskiptaviðræður á vegum GATT á árunum 1973–1979. Viðræður þessar, sem almennt ganga undir nafninu Tokyo-viðræðurnar, hafa verið umfangsmeiri en nokkrar aðrar viðskiptaviðræður á vegum GATT. Alls tóku 99 ríki, m.a. Ísland, þátt í þeim og voru flestir þeirra aðilar að GATT. Lauk viðræðunum með gerð nokkurra alþjóðasamninga um að draga úr viðskiptatálmunum öðrum en tollum o.fl. og töku ýmissa ákvarðana. Hafa samningar þessir og ákvarðanir verið til athugunar hjá stjórnendum ríkja þeirra sem þátt tóku í viðræðunum.

Af samningum þeim, sem viðræðurnar leiddu til, varðar Genfarbókunin 1979 við atmennt samkomulag um tolla og viðskipti sem gerð var 30. júní, Ísland mestu á þessari stundu. Bókun þessi, sem gekk í gildi hinn 1. jan. 1980 gagnvart þeim ríkjum sem gerst höfðu aðilar að henni fyrir þann tíma, gerir ráð fyrir umtalsverðum tollalækkunum á grundvelli tollaívilnanalista, sem nokkrir þátttakenda í ofangreindum samningaviðræðum hafa lagt fram sem fskj. með bókuninni. Af hálfu skrifstofu GATT er lauslega áætlað, að tollar af iðnaðarvörum lækki á grundvelli þessa lista þessara þátttakenda í viðræðunum um hér um bil þriðjung eða svipað og í kjölfar Kennedy-viðræðnanna 1964–1967. Tollalækkanirnar eru þó ekki aðeins bundnar við iðnaðarvörur, heldur og landbúnaðar- og sjávarafurðir.

Í Genfarbókuninni 1979, sem hér er flutt þáltill. varðandi og er í eðli sínu náskyld Genfarbókuninni 1967, er að meginstefnu til gert ráð fyrir lækkun tolla í árlegum áföngum frá og með 1. jan. 1980 til 1. jan. 1987. Var bókunin samþykkt af Íslands hálfu hinn 18. sept. 1979 með fyrirvara um staðfestingu. Er till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að gerast fyrir Íslands hönd aðili að bókuninni lögð fyrir Alþ. nú þegar, þar eð bókunin felur í sér augljósan hagnað Íslandi til handa í formi nokkurra tollalækkana ýmissa ríkja á vörum sem Ísland flytur út.

Nánar til tekið hafa alls 18 ríki og Efnahagsbandalag Evrópu þegar lagt fram ívilnanalista sína sem fylgja bókuninni.

Þar eð umtalsverðar lækkanir hafa orðið á almennum tollum á Íslandi á síðustu árum, jafnframt því sem tollar hafa lækkað gagnvart öðrum aðildarlöndum Fríverslunarsamtaka Evrópu og ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu, voru hinar almennu tollalækkanir Íslands á árinu 1973–1978 viðurkenndar sem framlag Íslands til tollalækkana í Tokyo-viðræðunum. Eru því tollalækkanir þær, sem felast í ívilnanalista Íslands með bókuninni, tollalækkanir að formi til, en ekki í reynd, og þarf ekki að breyta íslensku tollskránni eins og hún er í dag. Af þessu er ljóst að aðild Íslands að bókuninni mun beint eða óbeint leiða til hagnaðar vegna tollalækkana á ýmsum vörum, sem skipta okkur máli í ívilnanalistum landanna sem hér um ræðir, á grundvelli reglu hins almenna samkomulags um bestu kjör, fyrst og fremst þó þeirra landa sem teljast hvorki til Fríverslunarsamtaka Evrópu né Efnahagsbandalags Evrópu, þar sem víðtækar tollalækkanir hafa þegar verið framkvæmdar á grundvelli sérstakra fríverslunarsamninga. Meðan á marghliða viðskiptaviðræðum stóð var af Íslands hálfu lögð mest áhersla á að fá Bandaríkin til að veita lækkanir á helstu útflutningsvörum okkar þangað, og skiluðu þær tilraunir nokkrum árangri.

Sé lítið á tollalækkanir, sem felast í ívilnunarlistum annarra ríkja á tímabilinu 1980–1987, má nefna, að tollur á langmikilvægustu útflutningsvöru okkar til Bandaríkjanna, frystum fiskflökum (öðrum en blokkfrystum flökum sem eru þegar tollfrjáls) lækkar úr 2.5 í 1.875 cent á pundið á þessu tímabili. Sé miðað við útflutningsmagn af frystum fiskflökum frá Íslandi árið 1978 mun tollalækkunin frá og með árinu 1987, þegar hún er að fullu komin fram, nema yfir 534 þús. Bandaríkjadölum á ári eða um 210 millj. kr. samkv. gengi eins og það er nú. Er þess að vænta, að tollalækkunin skili sér í hækkuðu verði á flökum. Munar um þessa tollalækkun á langmikilvægustu útflutningsvöru okkar. En auk þess tryggir tollalækkunarákvæðið það, að tollur á þessari vöru verður ekki hækkaður af hálfu Bandaríkjamanna.

Auk tollalækkunar á fiskflökum í Bandaríkjunum lækkar tollur á óðalsosti þar úr 8% í 6.4%, á ullarpeysum úr 24% í 17% og á ullarlopa og ullarbandi úr 23.4% í 9%. Í Kanada lækka tollar á prjónafatnaði á konur úr 27.5% í 25% og auk þess m.a. á fiskmjöli úr 10% í 5%. Þá verða margar tollalækkanir á vissum vörum, sem Íslendingar flytja út til Japans, Efnahagsbandalags Evrópu, Fríverslunarsamtaka Evrópu, Tékkóslóvakíu og Ungverjalands, svo sem nánar er greint frá í aths. með þáltill.

Með aðild Íslands að Genfarbókuninni 1979 er stuðlað að því, að sá augljósi hagnaður, sem Ísland hefur af tollalækkunum samkv. ívilnanalistum ofangreindra ríkja, verði raunverulegur um leið og þeir gerast aðilar að bókuninni. Hafa ríkin verið í óðaönn að undirbúa aðild sína að bókuninni og gekk hún í gildi 1. jan. 1980 gagnvart flestum þeim ríkjum þar sem tollalækkanir skipta Ísland máli. Þótt tollalækkanir þær, sem Ísland nýtur vegna aðildar að Genfarbókuninni 1979, séu ekki miklar, þar eð Ísland nýtur mikilla tollafríðinda gagnvart helstu viðskiptalöndum sínum vegna aðildar að Fríverslunarsamtökum Evrópu og viðskiptasamningsins við Efnahagsbandalag Evrópu, þá munar þó um þær, eins og áður segir, einkum í Bandaríkjunum, mikilvægasta viðskiptalandi okkar.

Hitt er og ekki lítils um vert, að á tímum mikilla efnahagslegra erfiðleika í heiminum skuli takast að gera átak til að draga úr viðskiptatálmunum, m.a. tollum, sem hafa ýmist verið afnumdir, lækkaðir eða bundnir við ákveðna prósentutölu. Með aðild sinni að Genfarbókuninni 1979 stuðlar Ísland þannig einnig að því að styrkja sameiginlegt átak þjóða við að auka frjálsræði í alþjóðaviðskiptum, en Íslendingar eru háðari þeim viðskiptum en flestar aðrar þjóðir og hafa augljósan hag af frjálsræði á því sviði.

Ég legg svo til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.