31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

28. mál, graskögglaverksmiðjur

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., fjallar um uppbyggingu graskögglaverksmiðja í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Flm. eru Pálmi Jónsson og fleiri þm. Sjálfstfl. á Norðurlandi.

Við umr. um málið — ég hygg að það hafi verið 29. þ. m. — tók 1. þm. Norðurl. v. til máls og gagnrýndi nokkuð tilhögun á flutningi till. Ég mun ekki taka þátt í þeim umr., læt mig raunar ekki miklu skipta hverjir hv. þm. flytja mál. Fyrir mér hlýtur málefnið sjálft og gagnsemi þess að vera aðalatriðið. Hér er flutt nauðsynjamál og heiti ég stuðningi mínum við það.

Það hefur raunar vakið undrun mína, hversu hægt hefur gengið að þoka þessum málum áfram þrátt fyrir góðan vilja ýmissa þm. og mikinn áhuga heimamanna í hinum ýmsu byggðarlögum sem málið varðar. Hugmyndir að stofnun þessara fyrirtækja eru orðnar æðigamlar, ég hygg milli 10 og 20 ára, en undirbúningsframkvæmdum er mjög skammt komið. Þó er hafinn undirbúningur að ræktun, eins og fram kemur í grg. með till. En það eina, sem blasir við, er sundurflakandi land engum til nytja, og þannig er þetta ár eftir ár.

Ég tek það fram, svo að ekki valdi misskilningi, að með þessum orðum er ég ekki að ásaka þá ágætu menn sem að þessum framkvæmdum hafa staðið, heldur er ég að harma það hversu hægt miðar. Ég verð að viðurkenna það, að ég er ekki nægilega kunnugur staðháttum að Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu til þess að geta gert staðsetningu þeirrar verksmiðju, sem þar er fyrirhuguð, að umræðuefni. En í Skagafirði þykist ég þekkja nokkuð til, og þykir mér ólíklegt að um það verði deilt, að staðarval fyrir verksmiðju eins og hér um ræðir sé hið ákjósanlegasta á hinum fyrirhugaða stað, Hólminum. Raunar efa ég að víða á landinu séu glæsilegri aðstæður til slíkra framkvæmda heldur en þar eru.

Norðlendingar öllu fremur en aðrir landsmenn hafa á ýmsum tímum orðið fyrir barðinu á óblíðri veðráttu landsins, bæði sumar og vetur, sem óþarft ætti raunar að vera að lýsa hér á hv. Alþ., svo náin kynni sem ýmsir hv. alþm. hafa af veðurfari norðanlands og vandamálum sem því tengjast. Þó leyfi ég mér í þessu sambandi að nefna þrjú ártöl til upprifjunar, þ.e. 1963, 1968 og 1979. Því virðist mér augljóst að nauðsyn beri til að innan landsfjórðungsins séu á sem flestum sviðum og svo sem frekast er kostur gerðar ráðstafanir til þess að tryggja búsetu þar við sjó og í sveit, þó á móti blási í veðurfarslegu tilliti, og staðhæfi ég, að ef hv. Alþ. sýnir þeirri till., sem hér er til umr., skilning og tryggir henni framgang, þá sé það liður í þeirri viðleitni að tryggja búsetu í þessum landsfjórðungi.

Það er varla vansalaust fyrir ábyrga aðila í þessu þjóðfélagi — og beini og ég hér orðum mínum til hv. alþm. — að horfa á og vita af auðæfum landsins ónotuðum við fætur sér, — auðæfum sem við höfum allar aðstæður til þess að nýta, bæði hvað varðar þekkingu og orku, en hlaupa svo gráti nær til annarra þjóða biðjandi um lán til þess að geta keypt þau gæði sem við höfum ekki rænu á að rækta og nýta úr íslenskri mold. Mér virðist að doði og drungi megi ekki ríkja í þessum málum öllu lengur. Vinna verður að því án tafar, að innan fárra ára verði fóðurþörf fyrir búpening landsmanna fullnægt sem frekast er kostur með innlendu fóðri og innflutningur fóðurs fyrir búfé hverfi sem mest.

Í umræðum og ákvarðanatöku um þessi mál ætti það ekki að skipta máli, hverjar skoðanir hv. alþm. hafa á íslenskri landbúnaðarpólitík. Hér er um að ræða nýtingu á auðæfum landsins. Hér er um að ræða atvinnutækifæri fyrir íslenskar hendur. Hér er um að ræða hagsmuni þjóðarinnar allrar. Einhver, sem ekki þekkir til mála, kynni að spyrja sem svo: Eru ekki graskögglaverksmiðjur þær, sem nú starfa, með næga framleiðslugetu fyrir landið allt, og er þörf á frekari framkvæmdum á þessu sviði? Því er til að svara, að á þessum vetri lítur út fyrir stórkostlega vöntun á þessari vöru, og svo hygg ég að verið hafi undanfarin ár. Bændur landsins eru í auknum mæli að læra að meta grasköggla til búfjárfóðurs, og er ástæða til áð ætla að notkun þeirra muni fara mikið í vöxt á næstu árum, enda eigum við langt í land með að fullnægja fóðurþörf búfjár landsmanna með innlendri fóðurframleiðslu.

Þá leyfi ég mér að benda á að flutningskostnaður frá þeim graskögglaverksmiðjum, sem nú eru starfandi í landinu, norður í Húnavatnssýslur, Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur er ekkert smámál. Fæstar þessar verksmiðjur — líklega bara ein — eru í nálægð sæmilegra hafna og fara því flutningar frá þessum verksmiðjum allir eða nánast allir fram með bifreiðum. Aftur á móti verða þær verksmiðjur, sem um ræðir í till., í nágrenni hafskipahafna, svo að flutningsvandamálið hvað varðar lengri leiðir innanlands og einnig hvað varðar hugsanlegan útflutning verður leysanlegt á auðveldan hátt.

Þess má geta, að á síðasta hausti var um lítils hátta útflutning á heyi að ræða til nágrannalanda og svo hefur einnig verið áður. Fyrir heyið fékkst allgott verð. Það væri því ekki fráleitt að álykta að um útflutning á graskögglum gæti orðið að ræða þegar vel áraði hér á landi og hér sé því til umr. einn þáttur útflutningsframleiðslu landsmanna. Verður mér þá hugsað til nágranna okkar, Færeyinga, Norðmanna og Grænlendinga, sem allir munu á ýmsum tímum eiga í erfiðleikum með næga heyöflun fyrir búpening sinn. En ég tek það fram, að af minni hálfu hefur engin athugun farið fram á möguleikum á útflutningi þeirrar vöru sem hér um ræðir. Við getum þó væntanlega öll verið sammála um það, að ef við framleiðum innanlands þær vörur, sem við áður þurftum nauðsynlega að flytja inn, jafngildir það útflutningsframleiðslu.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka Pálma Jónssyni og meðflm. hans fyrir tillöguflutninginn. Till. sama efnis var raunar í smíðum í mínum herbúðum, ef svo má segja, en það er annað mál. Með tilliti til þess, sem ég hef drepið hér á, og þess, sem fram kemur í grg. og fskj. með till. vænti ég þess, að hv. atvmn., sem væntanlega fær till. til meðferðar, svo og þm. allir sameinist um að gera myndarlegt átak í þessu nauðsynjamáli.