31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

28. mál, graskögglaverksmiðjur

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim hv. alþm., sem tekið hafa til máls og lýst yfir stuðningi við þetta mál. Ekki síst vil ég þakka hv. þm. Ingólfi Guðnasyni fyrir myndarleg orð og góðan stuðning við þessa till. í þeirri ræðu sem hann var að ljúka áðan.

Ég þarf í raun og veru ekki að bæta við þessar setningar neinum fleiri. Ég vil þó aðeins geta þess, að eitt ár, 1977, var svo komið að rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja var ekki í raun og veru til. Það var vegna þess að þá var verð á innfluttu kjarnfóðri svo lágt vegna niðurgreiðslu á þeim vörum í framleiðslulöndunum, að samkeppnisstaða graskögglaframleiðslunnar var brostin. Þetta gerðist aðeins þetta eina ár, síðan hefur verð á innfluttu kjarnfóðri aftur hækkað svo að samkeppnisstaða graskögglaframleiðslunnar er góð eins og nú standa sakir.

Ég vil aðeins ítreka þakklæti mitt til þeirra, sem hér hafa tekið til máls, og vonast til þess, að þessi till. og það, sem til þarf að koma af hálfu Alþingis til þess að þau markmið náist sem hún greinir, fái jafngóðan skilning Alþingis í heild.