31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

47. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við þrír þm. Sjálfstfl. flytjum á þskj. 50 till. til þál. um aldurshámark starfsmanna ríkisins, en auk mín eru það 3. þm. Reykv., Albert Guðmundson, og 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttir.

Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurskoða lagareglur um aldurshámark starfsmanna ríkisins. Skal sú endurskoðun unnin í samráði við samtök ríkisstarfsmanna og markmið hennar vera það að kanna, hvort ekki sé rétt að hækka aldursmörk þau, sem nú er miðað við, gera reglumar sveigjanlegri svo og að setja fastari reglur um möguleika eldri starfsmanna til að gegna hlutastörfum, ýmist á sínum gamla starfsvettvangi eða í öðrum stofnunum.“

Ég vil fylgja þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum, en henni fylgir stutt grg. á þskj. sem ég mun að nokkru leyti styðjast við.

Ýmis vandamál, sem steðja að öldruðu fólki, eru vaxandi umræðuefni í þjóðfélaginu. Heilsufar hefur farið batnandi og meðalaldur landsmanna hefur hækkað undanfarin ár. Hlutfall aldraðra af íbúatölu landsins hefur því vaxið að undanförnu. Málefni aldraðra hafa því mjög verið á dagskrá. Þau vandamál, sem aðallega steðja að öldruðu fólki, eru tvíþætt, heilbrigðislegs eðlis og félagslegs eðlis, en þó tvinnast þessi vandamál saman á ýmsan hátt.

Að því er heilbrigðisþáttinn snertir, þá eru alvarlegustu vandamálin skortur á langlegurými fyrir sjúkt aldrað fólk svo og skortur á hjúkrunar- og vistheimilum. Félagslegu vandamálin eru einnig mikil, en þau lúta einkum að skorti á viðfangsefnum fyrir aldrað fólk. Stærri sveitarfélögin skipuleggja í allstórum stíl margvíslega tómstundaiðju fyrir sína öldruðu borgara, og í því sambandi vil ég minnast á frumkvæði Reykjavíkurborgar í þeim efnum.

Eitt þeirra vandamála, sem aldrað fólk á við að glíma, er sú staðreynd, að við ákveðin aldursmörk er aldrað fólk í mjög mörgum tilvikum látið hætta störfum. Á þetta einkum við hjá ríki og sveitarfélögum. Í 13. gr. laga nr. 38 frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, segir að starfsmanni skuli veita lausn er hann er 70 ára að aldri. Sambærilegt ákvæði er í lögum nr. 27/1935, um aldurshámark opinberra starfsmanna, eins og þeim hefur verið breytt með lögum nr. 5 frá 1947, en þá var aldurmarkið hækkað úr 65 árum í 70 ár. Þessi ákvæði um aldursmörk eru því orðin æðigömul í íslenskum lögum og raunar sett við nokkuð aðrar aðstæður en nú eru. Þegar talað var um opinbera starfsmenn á þeim tíma, þá var gjarnan átt við embættismenn sem báru mikla ábyrgð, en nú eru starfsmenn ríkisins mjög margir og raunar eru þeir þverskurður af öllum starfsstéttum þjóðfélagsins.

Á þessu árabili hafa orðið miklar breytingar á heilsufari og langlífi landsmanna, eins og áður var drepið á. Þróunin í meðalævilengd karla og kvenna hefur verið sem hér segir frá 1931 í mjög grófum dráttum: 1931–40 var meðalævilengd karla 60.9 ár, en kvenna 65.6 ár. 1961–60 var meðalævilengd karla 70.7 ár, en kvenna 75 ár. Á bilinu 1971–75 var meðalævilengd karla 71.6 ár, kvenna 77.5 ár, en á árunum 1975–76 var meðalævilengd karla 73 ár, en kvenna 79.2 ár. Reglan um 70 ára aldurshámarkið er frá 1947, eins og ég gat um áðan. Frá 10 ára tímabilinu, sem hófst 1951, hefur meðalævilengd karla vaxið úr 70.7 árum í 73 ár og meðalævilengd kvenna úr 75 í 79.2 ár. Þessar tölur segja að vísu ekki alla söguna um heilsufar eða starfsþrek aldraðs fólks, en eru þó nokkur vísbending um þróunina.

Ýmsir þeir, sem hafa rannsakað og fjallað um félagsleg og heilsufarsleg vandamál gamals fólks, telja að fátt sé mönnum þungbærara en að þurfa algjörlega að hætta störfum við ofangreind mörk, óháð heilsu og starfsgetu, margt gamalt fólk hreinlega hrynji saman við þau þáttaskil og það sé oft bein orsök alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála. Mörg einkafyrirtæki hafa fyrir löngu reynt að laga sig að þessu vandamáli og setja stolt sitt í að segja engum upp vegna aldurs og leyfa starfsmönnum sínum að vinna meðan heilsa og kraftar leyfa.

Allmiklar umræður hafa farið fram um þetta vandamál í öðrum löndum. Þar vegast á tvö sjónarmið: Annars vegar þar sem atvinnuleysi yngra fólks mótar umræðuna. Þar er tilhneiging til að lækka aldurshámark og láta eldra fólk rýma störf fyrir yngra fólkið. Hins vegar þar sem hagsmunir hinna eldri eru látnir sitja í fyrirrúmi.

Nýlegasta löggjöfin, sem mér er kunnugt um, þar sem gerð er breyting í þessum efnum, eru nýleg lög sem sett voru á Bandaríkjaþingi, en 1978 var samþykkt að afnema aldurshámark stórs hluta starfsmanna sambandsstjórnarinnar eða alríkisins og hækka aldurmörk, sem áður voru 65–70 ár, fyrir allmarga aðra starfsmenn. Talið er að þessi lagasetning muni hafa mjög mikil áhrif á gildandi reglur hjá starfsmönnum einkafyrirtækja þar í landi svo og á ákvæði um hámarksaldur í samningum verkalýðsfélaga.

Í Noregi er almenna reglan 70 ár. Hins vegar er heimild til framlengingar, fyrst um tvö ár og síðan um eitt ár í senn, allt til 75 ára aldurs, en ekki lengur. Annars staðar í nágrannalöndunum virðist aldurshámark enn lægra eða á bilinu frá 60–70 ára, þrátt fyrir vaxandi umræður um hækkun.

Hjá Reykjavíkurborg hefur aðalreglan verið sú, að starfsmenn yrðu að hætta í síðasta lagi um næstu áramót eftir að þeir yrðu 70 ára, en þá á ég við þá starfsmenn sem starfa samkv. samningum opinberra starfsmanna. Nokkuð aðrar reglur hafa gilt varðandi þá sem starfa eftir kjarasamningum á hinum almenna launamarkaði. Þessari reglu hefur verið framfylgt nokkuð stranglega og undantekningar frá henni eru mjög fáar.

Á s.l. vetri fluttu borgarfulltrúar Sjálfstfl. till. í borgarstjórn þess efnis, að reglur Reykjavíkurborgar um þetta efni yrðu endurskoðaðar. Sú till. var samþykkt. Nefnd hefur verið að fjalla um þetta mál, og vinnur hún sín störf í samráði við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Nefndin hefur ekki lokið störfum og því of snemmt að skýra frá niðurstöðum þar, eti umræður þar ganga út á að gera verklok sveigjanlegri en nú tíðkast, þ.e. að menn geti létt af sér störfum að hluta fyrr en nú, t.d. við 65 ára aldur, og fengið lífeyri úr lífeyrissjóði að hluta, en starfað áfram með launum eða hluta, ennfremur að menn eigi kost á að starfa áfram eftir 70 ára markið. Tilgangurinn er sem sagt að gera verklok eldri starfsmanna sveigjanlegri, auðveldari fyrir hvern einstakling og skapa mannlegri reglur en nú gilda um þetta efni.

Varðandi hinar ýmsu ríkisstofnanir munu eitthvað sveigjanlegri reglur gilda hjá ríkinu. Menn þurfa að láta af starfi 70 ára, en a.m.k. hjá sumum stofnunum eiga ríkisstarfsmenn kost á að ráða sig áfram sem lausráðnir starfsmenn, oft samkv. tímakaupi. Þetta er þó mjög misjafnt eftir stofnunum og þarf að samræmast þannig að eitt sé látið yfir alla ganga í því efni.

Ég legg áherslu á að hér er fyrst og fremst um að ræða aukinn rétt starfsmanna, annars vegar til að létta af sér störfum fyrr en nú tíðkast án þess að tekjur missist, því að lífeyrissjóður kemur þá á móti þeim launagreiðslum sem skerðast, en hins vegar rétt starfsmanna til að vinna áfram eftir 70 ára aldur. Það getur einnig komið sér vel fyrir viðkomandi stofnanir að nýta reynslu og þekkingu eldri starfsmanna. Ég þekki mörg dæmi um það, t.d. frá Reykjavíkurborg, að stofnanir hafa óskað eftir því, að 70 ára starfsmenn fái að halda áfram, en það hefur verið erfitt að fá því framgengt vegna þess hversu aldurshámarksreglunni hefur verið stranglega framfylgt þar. Hér skiptir eðli starfans að sjálfsögðu miklu máli.

Till. þessi er flutt til þess að koma umræðu af stað um þetta efni hjá ríkinu og felur í sér að ríkisstj. láti endurskoða lagareglur sem um þetta gilda. Ég legg áherslu á nauðsyn samráðs við samtök starfsmanna ríkisins og þá væntanlega fyrst og fremst samráð við BSRB.

Herra forseti. Að svo mæltu vil ég leggja til að þegar þessum hluta umræðunnar lýkur verði þessari till. vísað til allshn.