18.12.1979
Neðri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. við þau orð sem hv. 5. þm. Vestf. lét falla hér áðan. Ég ætla ekki að tefja umræður um þetta frv., það kemur til nefndar sem ég á sæti í, en ég tel það engan misskilning sem ég sagði áðan. Ég sagði aldrei að Framsfl. hefði verið á móti þessu frv. Ég tók það einmitt greinilega fram, að það var samhljóða afgreiðsla í Ed. á þessu frv., af þingmönnum úr öllum flokkum. Ég hélt að þetta hefði verið ósköp auðskilið. Hins vegar gat ég um það, að þegar málið var komið á síðasta stig, afgreiðslu úr nefnd í seinni deild, vildu fulltrúar tveggja flokka vísa málinu til ríkisstj. og fulltrúi annars þessa flokks var nefndarmaður Framsfl. Þetta þýðir ekki að ég hafi sagt að Framsfl. sé á móti eftirlaunum til aldraðra, ég er alls ekki að gera honum upp þá skoðun.

Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég vildi ekki láta það sjást í þingtíðindum að ég hefði ekki skilið gang mála á síðasta þingi og þyrfti leiðbeiningu frá þessum hv. þm. Þess vegna kom ég nú upp í ræðustólinn.