05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

218. mál, búvöruverð

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér um mörg orð og ekki mun ég tefja fyrir því að birti til hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. En hann var að tala um að lagaskýringar mundu vera hæpnar og ólíklegt að núv. landbrh. hafi vitað betur en fyrrv. landbrh., og ekki skal ég heldur andmæla því hjá Stefáni Valgeirssyni. Hitt vil ég láta hann vita, að samstarf mitt við landbrn. hefur verið með þeim ágætum, að svar mitt var byggt einvörðungu á aths. þeirra sem þar vinna.

Ekki var það ætlun mín að níðast á einni eða annarri stétt og það hygg ég að hafi ekki verið ætlun okkar, sem reyndum fyrir jól og enn fram á þennan dag að standa gegn hækkunum eftir því sem okkur þótti mögulegt og við eiga. Og satt er það hjá Stefáni Valgeirssyni, að vel má vera að bændur reki að öllu leyti mjólkurbúin. En hitt sjáum við, að þar er lagt í sjóði og þar er byggt upp fyrir hitt og annað sem aldrei verður að minni hyggju skilað til bændanna.

Það má kannske segja að samvinnufélögin séu þannig byggð upp, að t.d. mætti koma með reikning til neytenda eftir á og segja þeim, ef reksturinn hjá samvinnufélaginu ber sig ekki, að þá eigi neytandinn að gera svo vel og greiða það. En það er aldrei gert. Hinu er haldið fram af mönnum eins og Stefáni Valgeirssyni, að ef þessi samlagsbú fái ekki allt greitt eins og þeir vilja vera láta, þá sé verið að níðast á bændunum. Ég held að þetta sé ekki rétt hjá honum. Það er kannske verið að þrengja svolítið um hjá þessum annars ágætu mjólkurbúum, en ef þau vildu gætu þau látið bændurna fá hlut sinn að fullu án þess að taka það af þeim, svo sem hv. þm. Stefán Valgeirsson vill segja að við höfum gert óbeint.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, því að ég held að þetta sé útbreiddur misskilningur, ekki hjá mér, heldur hjá þeim sem tala eins og Stefán Valgeirsson, og að þarna gætu viðkomandi bú borið meira en þau gera gagnvart bændum. Þau eru sem sagt — það er ljótt að segja það — en þau eru stundum nánast að féfletta bændur.