05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

64. mál, tollskrá o.fl.

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 95 fsp. til hæstv. fjmrh. um breytingu á lögum um tollskrá o.fl., svo hljóðandi, með leyfiforseta:

„Hvað hefur fjmrn. gert til að undirbúa frv. til breytinga á lögum um tollskrá o.fl., sem geri ráð fyrir niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum þeirra iðnfyrirtækja, sem stunda framleiðslu til útflutnings og eiga í beinni eða óbeinni samkeppni við innfluttar vörur?“

Þessi fsp. er flutt í framhaldi af því, að á 100. löggjafarþinginu flutti ég ásamt þremur öðrum hv. þm. frv. til breytinga á tollskrárlögum sem gerði ráð fyrir því, að aðflutningsgjöld yrðu felld niður af þeim aðföngum sem ég nú hef lýst. Þessir hv. þm. voru úr Alþfl., Framsfl. og Alþb., og náðist því víðtæk samstaða milli þingmanna um það málefni sem hér er rætt. Það kom fram í umræðum um þetta mál á sínum tíma, að texti sá, sem notaður var í frv., var nánast samhljóða till. sem kom fram hjá svokallaðri samstarfsnefnd um iðnþróun og sett var á laggirnar á sínum tíma af hálfu iðnrn. þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var ráðh. Þetta frv. fékk á sínum tíma þá afgreiðslu að vera vísað til ríkisstj., en í nál. fjh.og viðskn. segir svo, með leyfi forseta:

„Nefndin er sammála um að markmiði þessu þurfi að ná. Efni frv. er nánast samhljóða niðurstöðum samstarfsnefndar um iðnaðarmál, en sú nefnd hefur starfað á vegum iðnrn. Flm. frv. eru þingmenn úr öllum þingflokkum. Því sýnist víðtæk samstaða vera um efni frv.“

Og síðar í þessu nál. segir, að lagt sé til að því sé vísað til ríkisstj., og orðrétt, með leyfi forseta: „ sem sjái um að frv. verði samið um þetta efni og flutt á næsta þingi, þar sem með því verði best tryggð örugg framkvæmdamálsins.“

Það er af þessu tilefni sem ég hef ákveðið að flytja þessa fsp. og vil biðja hæstv. ráðh. að gera hv. Alþ. grein fyrir því, hvort eitthvað hafi verið unnið að þessum málum í rn. hans.