05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

64. mál, tollskrá o.fl.

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svar við þessari fsp. Það er gott til þess að vita, að að þessu máli er unnið hjá rn. Enn fremur fagna ég yfirlýsingu hæstv. ráðh. þess efnis, að hjá rn. hans sé verið að vinna að breytingum á tollamálum, sem komi íslenskum iðnfyrirtækum til góða. Það er ekki gott álit sem kemur fram í þeirri skýrslu sem ég nefndi í fsp. minni hér fyrr, þegar segir, með leyfi forseta, orðrétt í skýrslu þeirri sem var fskj. með þál. hæstv. fyrrv. iðnrh. á síðasta og næstliðnu þingi:

„Afnám aðflutningsgjalda af samkeppnisiðnaði hefur þótt sjálfsagt réttlætismál, en gætt hefur vaxandi íhaldssemi hjá fjmrn. og tollayfirvöldum í túlkun þeirra laga og reglna sem þar um ræðir.“

Mér þykir gott, að þarna hefur orðið breyting á, og treysti hæstv. ráðh. til þess að hann fylgi þessum vilja sínum fast eftir á þeim örfáu dögum sem hann á eftir að sitja í rn. Ég á ekki von á því, að hæstv. iðnrh. geti hér og nú skýrt frá þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum iðnrn., en vil aðeins að lokum taka það fram, að ef ekki rætist úr þessu máli innan tíðar finn ég mig knúinn til að endurflytja það frv. sem flutt var á 100. löggjafarþinginu.