06.02.1980
Efri deild: 33. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

90. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., hefur þrisvar áður legið fyrir Alþ., en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Frv. er samið af réttarfarsnefnd og hefur verið lagt fyrir Alþ. samhliða frv. til lögréttulaga. Segja má að frv. hafi síðast þegar það var lagt fram goldið meira en skyldi samfylgdarinnar við frv. til lögréttulaga, sem Alþ. reyndist ekki að fullu tilbúið að taka afstöðu til. Hafði þó réttarfarsnefnd þá gert breytingar á frv. sem nægðu til þess að það væri óháð lögréttufrv., þannig að ná mætti fram þeim umbótum sem í því felast þótt frv. til lögréttulaga hlyti ekki afgreiðslu. Það frv. er nú tilbúið til framlagningar, en ég vil leggja áherslu á að frv., sem hér liggur fyrir, hljóti sjálfstæða athugun, enda felast í því mikilvægar breytingar sem von er til að geti stuðlað að verulega fljótari og markvissari meðferð mála í héraðsdómi.

Þau atriði, sem mikilvægust eru í þessu efni, eru fyrst og fremst að tekin eru upp ákvæði um svonefndan aðalflutning mála, sem ætlað er til að gera meðferð þeirra markvissari og setja henni fastari ramma. Þessi breyting er verulega mikilvæg og ef vel tekst til mun hún geta valdið nokkrum straumhvörfum. Þá eru mikilvægar reglur um að úrskurðir séu að jafnaði án forsendna og dómar skuli styttir. Ýmis önnur atriði stuðla að einföldun á málsmeðferð sem til flýtisauka má verða, en skulu ekki rakin nánar að þessu sinni.

Ég tek fram, að þó að hér hafi verið lögð áhersla á sjálfstæða afstöðu í meðferð þessa máls vil ég síður en svo draga úr mikilvægi frv. til lögréttulaga, sem hins vegar verður eflaust mikið rætt á næstunni. Þar er, svo sem kunnugt er, um veigamikla breytingu að ræða á dómaskipuninni sjálfri.

Herra forseti. Ég vil óska þess, að frv., sem hér liggur fyrir, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.