06.02.1980
Efri deild: 33. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

89. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 136 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að leggja fram frv. til l. um Flutningsráð ríkisstofnana. Í 1. gr. frv. segir svo:

„Eftir hverjar alþingiskosningar kýs sameinað Alþingi hlutfallskosningu sjö menn í Flutningsráð ríkisstofnana. Varamenn skulu kjörnir með sama hætti.

Forsrh. skipar formann og varaformann Flutningsráðs ríkisstofnana úr hópi ráðsmanna.“

Frv. fjallar um það sem aðalefni, að komið verði á fót Flutningsráði ríkisstofnana sem hafi alla umsjón og framkvæmd með hendi varðandi allt skipulag þess að flytja ríkisstofnanir út á land, stofna frá þeim útibú eða deildir. Hér er um ráðgefandi aðila að ræða fyrst og fremst, en um hlutverk þessa ráðs segir svo í 2. gr.:

„a) að vera Alþ., ríkisstj., ráðuneytum og einstökum ríkisstofnunum til ráðuneytis um staðarval og flutning ríkisstofnana, þar með taldar deildir og útibú slíkra stofnana,

b) að gera tillögur um staðarval nýrra ríkisstofnana og breytingar á staðatvali eldri stofnana,

c) að annast a.m.k. einu sinni á áratug heildarendurskoðun á staðsetningu ríkisstofnana og gera á grundvelli þeirrar endurskoðunar tillögur um breytingar, sbr. b-lið,

d) að fylgjast með framkvæmd ákvarðana um flutning ríkisstofnana og staðsetningu nýrra stofnana og stuðla að því að auðvelda aðgerðir á þessu sviði.“

Í 3.–7. gr. frv.er svo farið nánar út í hvað Flutningsráðið á að annast, hvernig það skuli starfa, til hvaða aðila það skuli leita varðandi samráð, að það heyri undir forsrn. og kostnaður við störf þess greiðist úr ríkissjóði.

Í framsögu í fyrra flutti ég nokkuð ítarlega ræðu um ástæður frumvarpsflutningsins. Ég rakti þá sögu þessa máls, allar þær umr. sem orðið höfðu um nauðsyn þess að dreifa þjónustu, dreifa valdi út um landsbyggðina, auka þjónustu þar og jafnrétti um leið. Þá var allglögglega fram á það sýnt einu sinni enn, hversu mikilvægur sá þáttur gæti orðið til byggðajöfnunar, þjónustujöfnunar.

Á það var og er ekki heldur nú dregin nein dul af flm. þessa frv., að vandasamt er verkefnið og margvísleg þau vandamál og þeir erfiðleikar sem í vegi eru. Tregða stofnananna sjálfra, forstöðumanna þeirra, var t.d. rakin, hversu margir þeirra blátt áfram sáu allt svart ef einhver breyting yrði gerð á þeirra fastmótuðu hugmyndum og þægilegu stöðu.

Ég sé ekki ástæðu til annars nú en að lesa upp grg. frv., sem skýrir efni þess algerlega:

Í apríl 1972 var með bréfi forsrn. skipuð nefnd „til að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hverjar breytingar komi helst til greina í því efni.“ Nefndin kynnti sér alls 243 stofnanir og stofnanategundir og athugaði 157 þeirra sérstaklega, aflaði gagna um skipulag þeirra, starfsfólk, starfshætti og aðbúnað. Nefndin skilaði áliti einkamála í héraði. 668 28. okt. 1975, þar sem lagður var til heildarflutningur 25 stofnana, deildaflutningur sem snerti 12 stofnanir, stofnun útibúa 36 stofnana og efling útibúa 11 stofnana.

Í þessari nefnd áttu sæti auk flm. þessir menn: Jón Baldvin Hannibalsson ritstjóri, Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Bjarni Einarsson forstöðumaður byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Magnús H. Gíslason blaðamaður og Sigfinnur Sigurðsson skrifstofustjóri. Meginþungann af öllu starfi nefndarinnar bar formaður hennar, Ólafur Ragnar Grímsson, sem nú er 2. flm. þessa frv.

Í álitinu var ítarlega rakið hvernig Norðmenn og Svíar hefðu staðið að þessum málum. Raunar hafa sams konar nefndir starfað á öllum Norðurlöndunum, en í Noregi og Svíþjóð lögðu stofnananefndir grundvöll að viðamiklum flutningi ríkisstofnana frá höfuðborgunum, sem framkvæmdur var í mjög veigamiklum atriðum.

Svo vitnað sé til Noregs voru samþykkt lög 1967 frá Stórþinginu um flutning 10 ríkisstofnana frá Osló. Var í þeim lögum kveðið á um fasta ráðgjafarnefnd, staðsetningarnefnd ríkisstofnana, til að fjalla um staðsetningu ríkisstofnana. Sú nefnd starfar á vegum byggðarjafnvægisdeildar sveitarstjórnarráðuneytis. Þangað fyrst og fremst sótti nefndin hér hugmyndir sínar um það Flutningsráð ríkisstofnana sem flutt er frv. um.

Þrátt fyrir ítrekaðar fsp., en þær hafa verið fluttar á tveim síðustu þingum, hefur enn ekkert verið aðhafst í þessu efni. Það var og er skoðun þeirra tveggja nm., er frv. þetta flytja, að frumforsenda skipulegs átaks í þessum efnum sé einhver sú skipan sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ekki þarf að tíunda hér, hversu miklu nauðsynlegra slíkt átak er hér en nokkurn tíma í þeim löndum sem vitnað er til að framan og hafa unnið stórvirki á þessu sviði. Það litla, sem gert hefur verið hér á landi í þessa átt, hefur verið án allrar beinnar skipulagningar, ýmist með ákvörðunum rn., svo sem í ráðherratíð Lúðvíks Jósepssonar um útibú Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, eða af hálfu ákveðinna stofnana, svo sem Vegagerð ríkisins er hvað gleggst dæmi um.

Stofnanaflutningur sem slíkur hefur hins vegar ekki komist á dagskrá og m.a.s. hefur sú stofnun, sem þar telst sjálfsögðust til flutnings, Skógrækt ríkisins, tæpast enn komið til alvarlegra álita í þeim efnum hjá æðstu stjórnvöldum.

Allt frá því hið ítarlega og um margt vel rökstudda nál. kom fram, en nú eru liðin,full fjögur ár frá því, hefur sorglega lítið verið aðhafst, og er þá í raun sama til hvaða þátta er lítið: flutnings, sem nákvæmlega er enginn, deildaskiptinga, sem ég man ekki eftir að nokkur dæmi séu um, og útibúa stofnana, sem er þó eitthvað um að hafi viðgengist á þessu tímabili, en þó mjög lítið.

Það ætti þó öllum að vera ljóst, að hér kallar á bein þjóðhagsleg nauðsyn, auk þess sjálfsagða réttar sem íbúar landsbyggðarinnar eiga til aukinnar þjónustu, aukinnar hlutdeildar í því opinbera kerfi sem hefur aðsetur sitt á höfuðborgarsvæðinu. Flm. hljóta nú að vekja á þessu vissa athygli og auka beinan þrýsting á aðgerðir í þá átt sem þeir ásamt öðrum lögðu til í nál. sínu, ekki síst þegar engin hreyfing virðist sjáanleg í þessa átt. Ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að í engu megi rasa um ráð fram, en skipulega og markvisst skuli að þessu vinna og þar sé einhvers konar stofnun af þessu lagi alger forsenda. Því flytjum við frv. þetta.

Ég vil svo vitna í álit stofnananefndar, sem eru auðvitað höfuðröksemdir okkar fyrir þessu. Ég hef borið undir alla þá menn sem í nefndinni störfuðu á sínum tíma, hvort þeir álitu ekki að þeir stæðu í einu og öllu við það sem þeir álitu þá um Flutningsráð. Allir eru þeir sammála um að hér hafi verið rétt að farið og þetta sé í raun og veru það frumskref sem þurfi að taka. En í rökstuðningnum hjá nefndinni liggur í raun og veru hvað slík yfirstjórn stofnanaflutnings ætti að gera.

Í fyrsta lagi gæti Flutningsráðið annast heildarskipulagningu og yfirumsjón á flutningi ríkisstofnana. Á vegum ráðsins gætu starfað margvíslegar samstarfsnefndir, t.d. með fulltrúum stofnana sem flytja eiga til sama svæðis með fulltrúum skyldra stofnana sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta o.s.frv. Auk þeirra samstarfsnefnda, sem tengdar eru einstökum stofnunum, gæti slíkt kerfi samstarfsnefnda fleiri stofnana á vegum ráðsins auðveldað heildarframkvæmd stofnanaflutnings. Flutningsráðið gæti á þennan hátt og með almennum umræðum á fundum sínum samhæft aðgerðir á þessu sviði, greitt úr erfiðleikum og auðveldað stofnanaflutning á margvíslegan hátt.

Í öðru lagi mætti fela Flutningsráði ríkisstofnana að veita umsögn eða gera tillögur um staðarval nýrra ríkisstofnana og taka staðsetningu alls ríkiskerfisins til endurskoðunar með reglulegu millibili, t.d. einu sinni á hverjum áratug. Þótt nefndin hafi leitast við að taka til meðferðar alla þætti ríkiskerfisins mun þróunin næstu áratugi örugglega knýja á um endurskoðun á einstökum atriðum. Einhliða staðarval nýrra stofnana getur einnig skekkt hlutföllin á ný. Nefndin er því þeirrar skoðunar, að staðarval ríkisstofnana sé stöðugt verkefni og réttast að fela það ákveðnum aðila.

Verði fallist á þessi sjónarmið nefndarinnar er nauðsynlegt að setja lög um Flutningsráð ríkisstofnana. Til greina kæmi að fela ráðinu að loknum almennum umræðum um tillögur nefndarinnar að semja frv. að lögum og reglugerðum í samræmi við þann stofnanaflutning sem fallist verður á að framkvæma. Stofnsetning Flutningsráðs ríkisstofnana gæti þannig orðið fyrsti áfangi verulegs stofnanaflutnings.“

Ég sé ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Það skýrir sig í öllu sjálft. Flm. leggja á það áherslu, að hér er í engu verið að leggja neina umbyltingu til, aðeins að koma á málið nauðsynlegri hreyfingu ef verða mætti að það fengi nánari umfjöllun, kæmist í raun á dagskrá og yrði athugað í alvöru með átök í huga.

Ég vil geta þess í lokin, að þótt frv. kæmi seint fram höfðu s.l. vor borist til þn. þeirrar, sem fékk málið til meðferðar, mjög eindregnar áskoranir frá samtökum sveitarfélaga bæði á Norðurlandi og Austurlandi um samþykkt frv. Það var því ljóst að áhugi sveitarstjórnarmanna á þeim svæðum var vakandi, og við vitum að hann er vakandi um allt land fyrir því að eitthvað gerist í þessum efnum. En án þess að setja á laggirnar einhverja slíka stofnun sem hér er lagt til er tæpast við því að búast að neitt raunhæft verði aðhafst í þessum málum, svo mikil þörf sem þó er á því að við hugsum málið til enda, áttum okkur á, hvað mögulegt sé, og reynum eftir megni að dreifa þjónustustofnunum um landið á einhvern þann hátt sem hagstæðastur er og bestur fyrir þjóðarheildina.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.