07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár — og vænti þess að ég þurfi ekki að nota til þess mjög langan tíma — vegna þess ástands sem hefur skapast varðandi loðnuveiðamar og þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi fyrir einstök byggðarlög og þjóðarbúið í heild.

Ákveðið var af hálfu sjútvrn. fyrir áramót, að veidd skyldu 280 þús. tonn af loðnu. Þá var gert ráð fyrir að í fyrstu yrðu veidd 100 þús. tonn til bræðslu og síðan 180 þús. tonn á hrognatökutímanum eða samtals 280 þús. tonn. Næsta ákvörðun rn. hljóðaði þannig, að veidd skyldu 180 þús. tonn í upphafi og síðan 100 þús. tonn á hrognatökutímanum. Og nú nýlega var ákveðið vegna markaðsaðstæðna að haldið skyldi áfram að veiða, án þess að tilkynnt væri hvað skyldi verða eftir á hrognatökutímanum, en gert er ráð fyrir að eitthvert lítilræði verði geymt til þess tíma. En nú hafa verið veidd a.m.k. 200 þús. tonn. Veiðisvæðið er út af Norðurlandi, sennilega réttvísandi norður af Skagafirði, og loðnan hreyfist hægt austur á bóginn. Við þetta skapast ófremdarástand fyrir sunnanverða Austfirði og hafnir á Suðurlandi og má í því sambandi sérstaklega nefna Vestmannaeyjar. Þetta svæði átti að sjálfsögðu von á veiði á hrognatökutímanum, á því veiðisvæði sem vant er að veiða á þá, eða frá sunnanverðum Austfjörðum og við Suðurland. Vegna takmörkunar á loðnuveiðum hlýtur vissulega að vera ástæða til þess að hafa áhrif á dreifingu loðnunnar, ekki síst vegna þess að rn. hefur tvívegis breytt fyrstu ákvörðun um tilhögun veiðanna. Loðnunefnd hefur samkvæmt lögum heimild — mjög víðtæka heimild — til þess að stöðva löndun hjá einstökum verksmiðjum. Lagagreinin hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndinni er heimilt að stöðva löndun um takmarkaðan tíma á ákveðnum svæðum eða í einstakar verksmiðjur án tillits til móttökugetu þeirra. Þó er nefndinni skylt að leyfa löndun í einstaka verksmiðjur á ákveðnum svæðum ef öryggis skips eða skipshafnar krefur.“

Loðnunefnd hefur sem sagt mjög víðtæka heimild, lagaheimild, til þess að hafa áhrif á þessi mál. Lagagreinin hefur verið túlkuð þannig af hálfu nefndarinnar og annarra og þar vitnað til grg. með lagafrv. um þetta efni sem flutt var 1977, við allt aðrar aðstæður, en þar segir:

„Tilgangurinn með þessari breytingu er sá, að stuðla að því, að vinnslugeta verksmiðjanna í landinu verði nýtt betur en verið hefur undanfarin ár, og auka þannig aflamöguleika loðnuflotans í heild yfir vertíðina, en reynsla undanfarinna ára sýnir að þær verksmiðjur, sem næstar eru veiðisvæðum hverju sinni, yfirfyllast meðan aðrar verksmiðjur bíða verkefnalausar.“

Það er ljóst af þessu, hver hefur þá verið tilgangur laganna. Hins vegar sýnist mér að lagagreinin og lögin séu svo ótvíræð að túlka megi þau þannig að loðnunefnd sé heimilt að grípa inní í slíkum tilvikum. Og ég vil rökstyðja það þannig: Ef veiði hefði átt að vera ótakmörkuð nú, eins og gert var ráð fyrir á þessum tíma, þá er vart spurning um það, að loðnunefnd hefði nú gripið inn í og beint loðnunni í verksmiðjumar á sunnanverðum Austfjörðum og á Suðurlandi til þess að koma þeim verksmiðjum í gang. Það var það sjónarmið, sem þá var viðurkennt, og af þessum sökum hefði ég talið m.a. að loðnunefnd hefði getað gripið hér inn í. Áð öðru leyti má segja að almenn efnisleg rök hnígi að því, að svo megi vera, þar á meðal sanngirnissjónarmið. Við getum hugsað okkur það, að ef breyta ætti þessum lögum þyrfti a.m.k. ekki nýja lagagrein, hún er ótvíræð, það þyrfti þá aðeins nýja grg., þannig að mér sýnist að almenn efnisleg rök og sanngirnissjónarmið mæli með því, að loðnunefnd grípi hér inn í.

Ég er viss um það og veit það, að sjómenn og útgerðarmenn eru slíkum ákvörðunum mótfallnir. Það er aukakostnaður fyrir þá, það eru óþægindi og það er enginn flutningsstyrkur til þess að koma þar á móti eins og áður var. Og sjómenn og útgerðarmenn eru af þessum sökum og hafa alltaf verið mótfallnir slíkum ákvörðunum. Ég veit hins vegar að þessir aðilar gera sér góða grein fyrir hagsmunum annarra í þessu sambandi: verkafólks á viðkomandi stöðum, hafna, sveitarfélaga og byggðarlaganna í heild. Byggðin á sunnanverðum Austfjörðum er mjög viðkvæm fyrir slíkum áföllum, sem geta haft mjög víðtækar afleiðingar ef þessar verksmiðjur fá enga loðnu til vinnslu, en þær hafa búið sig undir slíka móttöku. Ég vil aðeins geta þess, að loðna hefur borist suður að Gerpi og veiðin virðist ekki vera meiri en svo, að verksmiðjur á þessu svæði fyrir Norðurlandi og norðanverðum Austfjörðum virðast hafa við að vinna aflann eftir því sem hann berst að, þó að einhver breyting geti þar orðið á.

Ég vildi af þessu tilefni spyrja hæstv. sjútvrh., hvað hann hafi gert varðandi þessi mál og hvort honum sýnist sanngjarnt að inn í þessi mál verði gripið. Ég vil einnig spyrja hann, hvort hann sé sammála þeirri túlkun laganna, að loðnunefnd sé eigi heimilt að nota lagagreinina, sem ég hef áður vitnað til, og lögin í þessu sambandi, til þess að grípa hér inn í, og þá ef svo er að hann sé því sammála, hvort hann telji að það þurfi að koma til breyting á lögunum eða vilji Alþingis til þess að svo megi verða.