07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var á forseta að skilja að nú ætti að hefjast fjárlagaræða og umræða utan dagskrár væri rofin vegna þess að hæstv. fjmrh. væri að kveðja sér hljóðs til að flytja fjárlagaræðu. Það vita allir að hæstv. fjmrh. hefur fyrir löngu sagt af sér. Það vita allir að það fjárlagafrv., sem hann hefur lagt fram, er marklaust plagg. Það nýtur í hæsta lagi stuðnings tíu þm. Það vita líka allir, sem hafa fylgst með gangi þessa máls, að af hálfu þingflokkanna, a.m.k. þingflokks Alþb., var eingöngu samþykkt að hæstv. fjmrh. fengi að vísa fjárlagafrv. til n. án nokkurrar ræðu eða nokkurrar tilraunar til að hefja umræðu um marklaust fjárlagafrv. Það er hrein auglýsingamennska og vanvirða fyrir Alþ. ef hæstv. ráðh. ætlar að fara að misnota sér — á þann mátt sem hann ætlar greinilega að gera hér — það samþykki, sem gefið var við því að vísa málinu til n., með því að fara að flytja þá ræðu sem hann hefur nýlega dreift — fyrir nokkrum mínútum — til þm. og er 47 vélritaðar síður. Það eru algjör svik við það samkomulag sem hér hefur verið gert, og ég mótmæli því harðlega að marklaus fjmrh. verði látinn flytja hér marklausa tveggja tíma ræðu um marklaust fjárlagafrv.