11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 5. febr. 1980 fól forseti Íslands Gunnari Thoroddsen að gera tilraun til myndunar ríkisstj. sem njóti meirihlutafylgis á Alþingi. Þrem dögum síðar var því lokið og 8. febr. skipaði forsetinn nýja ríkisstj. Þann dag gaf hann út svo hljóðandi forsetaúrskurð um skipun og skipting starfa ráðherra:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Samkv. tillögu forsrh. og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, og reglugerðar samkv. þeim frá 31, des. 1969, er störfum þannig skipt með ráðherrum:

Gunnar Thoroddsen fer með forsrn. og Hagstofu Íslands.

Ólafur Jóhannesson fer með utanrrn.

Pálmi Jónsson fer með landbrn.

Friðjón Þórðarson fer með dóms- og kirkjumrn.

Steingrímur Hermannsson fer með sjútvrn. og samgrn.

Tómas Árnason fer með viðskrn.

Ingvar Gíslason fer með menntmrn.

Ragnar Arnalds fer með fjmrn.

Svavar Gestsson fer með félmrn. og heilbr.- og trmrn.

Hjörleifur Guttormsson fer með iðnrn.

Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skiptingu starfa ráðherra.

Bessastöðum, 8. febrúar 1980.

Kristján Eldjárn.

Gunnar Thoroddsen.“

Ríkisstj. og þeir aðilar, sem að henni standa hafa, komið sér saman um svo hljóðandi stjórnarsáttmála:

„Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens 8. febr. 1980:

Meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahagsog atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Jafnframt leggur ríkisstj. áherslu á að efla menningarstarfsemi, auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör. Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum, er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál.

Hér á eftir verður lýst nokkrum meginþáttum í stefnu ríkisstj.:

Efnahagsmál.

1. Hjöðnun verðbólgu.

Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.

2. Kjaramál.

Á undanförnum árum hafa staðið yfir mikil átök um launamál. Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa þau mál með samstarfi og samráði. Skal í því sambandi lögð áhersla á eftirfarandi meginatriði:

1. Ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum, sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu. Ríkisstj. mun hins vegar ekki setja lög um almenn laun nema allir aðilar að ríkisstj. séu um það sammála, enda sé haft samráð við samtök launafólks.

2. Til þess að draga úr almennum peningalaunahækkunum er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í tengslum við kjarasamninga:

a. Á árunum 1980 og 1981 verði tryggðir 5–7 milljarðar kr., sem renni m.a. til eftirtalinna verkefna:

1. Til byggingar verkamannabústaða, íbúða á vegum sveitarfélaga og byggingarsamvinnufélaga.

2. Til byggingar hjúkrunar- og dvalarheimila aldraðra. 3. Til byggingar dagvistarheimila.

b. Athuguð verði í þessu sambandi lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaga skerðist, svo og lækkun sjúkratryggingagjalds, sem verði þá sameinað tekjuskatti.

c. Frá 1. júní 1980 hækki tekjutrygging aldraðra og öryrkja umfram verðbætur og sömuleiðis frá 1. júní 1981.

d. Ný löggjöf um húsnæðislánakerfi komi hið fyrsta til framkvæmda.

e. Sett verði löggjöf um starfsumhverfi og aðbúnað á vinnustöðum.

f. Komið verði á verðtryggðum lífeyri fyrir alla landsmenn.

3. Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að hraðað verði endurskoðun vísitölugrundvallarins.

4. Ríkisstj. leggur áherslu á samvinnu við samtök launafólks og atvinnuveganna um það átak í atvinnumálum, sem greint er frá í öðrum köflum málefnasamningsins.

5. Ríkisstj. er fyrir sitt leyti reiðubúin til að stuðla að einföldun launakerfisins í landinu með því að beita sér fyrir samstarfi helstu samtaka launafólks um stefnumótun í launamálum.

6. Endurskoða skal ávöxtun orlofsfjár.

3. Verðlagsmál.

Til þess að draga úr verðbólgu verði beitt eftirgreindum ráðstöfunum í verðlagsmálum:

1. Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980:

Til 1. maí skulu mörkin vera 8%,

til 1. ágúst 7% og loks

til 1. nóv. 5%.

Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu.

Um verðhækkanir af erlendum uppruna, sem ekki rúmast innan ofangreindra marka að mati verðlagsráðs, setur ríkisstj. sérstakar reglur. Þessar sérstöku reglur hafi ekki áhrif á gildandi ákvæði um útreikning kaupgjaldsvísitölu.

2. Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum, enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981.

3. Fyrir maí/júní 1980 skulu afgreiddar sérstakar hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana, sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma, sem framangreind mörk setja.

4. Unnið verði að lækkun vöruverðs, m.a. með eftirtöldum aðgerðum:

a. Að efla samtök neytenda til þess að þau geti gegnt því mikilvæga verkefni áð gera verðlagseftirlit neytendanna sjálfra virkt.

b. Að auka verðlagskynningu af opinberri hálfu.

c. Að haga verðlagsákvæðum þannig, að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa.

d. Að greiða fyrir því, að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl.

e. Að hin nýju verðlagslög komi til framkvæmda undir eftirliti verðlagsráðs, sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu.

5. Sett verði lög um afborgunarkaup.

4. Peningamál.

Í peningamálum verði mörkuð stefna, er stuðli að hjöðnun verðbólgu. Verði í því sambandi m.a. lögð áhersla á eftirgreind atriði:

1. Peningamagn í umferð verði í samræmi við markmið í efnahagsmálum.

2. Verðbótaþáttur vaxta hækki ekki 1. mars og fari síðan lækkandi með hjöðnun verðbólgu. í stað hárra vaxta verði unnið að útbreiðslu verðtryggingar og lengingu lána.

3. Opnaðir verði í bönkum og sparisjóðum sparireikningar, þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar, samkv. nánari reglum og í samræmi við möguleika til útlána.

4. Beitt verði aðhaldi í gengismálum. Til að treysta gengi gjaldmiðilsins verði gert sérstakt átak til framleiðniaukningar í atvinnuvegunum.

5. Fjárfestingarmál.

1. Heildarfjárfestingu á árunum 1980 og 1981 verði haldið innan þeirra marka, sem ákvarðast af eftirspurn, viðskiptajöfnuði og atvinnuöryggi, og nemi fjárfestingin um fjórðungi af þjóðarframleiðslu.

2. Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u.þ.b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum. Efri mörk erlendrar lántöku verði þá ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.

3. Áhersla skal lögð á framkvæmdir á sviði orkumála.

4. Tryggt verði, að fjárfesting ríkisstofnana, m.a. ríkisbanka, verði í samræmi við samþykkta fjárfestingaráætlun og stefnuna í lánamálum.

5. Til þess að tryggja næga atvinnu og koma í veg fyrir ofþenslu á vinnumarkaði skal félmrn. og Þjóðhagsstofnun falið að fylgjast náið með atvinnuástandi og horfum í öllum greinum atvinnulífs og opinberum framkvæmdum um land allt. Komi í ljós, að hætta sé á atvinnuleysi eða ofþenslu í einhverri grein, skal ríkisstj. gert aðvart, til þess að unnt verði í tæka tíð að gera nauðsynlegar ráðstafanir með ákvörðunum ríkisstj. og samkomulag við aðra aðila.

6. Ríkisfjármál.

1. Aðhald í ríkisbúskap verði stóraukið og áhersla lögð á jafnvægi í ríkisfjármálum.

2. Ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi. Skuld sú, sem stofnað var til við Seðlabankann á s.l. ári, verði greidd upp 1980.

3. Fjárlaga- og hagsýslustofnun verði gert kleift að sinna í ríkara mæli en hingað til aukinni hagkvæmni og hagræðingu í ríkisframkvæmdum, stofnunum og fyrirtækjum ríkissjóðs í samráði við starfsfólk þeirra.

4. Gerðar verði strangar greiðsluáætlanir fyrir ríkissjóð innan hvers árs í því skyni að vinna gegn hallamyndun á fyrri hluta árs. Athugað verði að innlánsstofnanir kaupi ríkisvíxla og ríkisskuldabréf til skamms tíma, til þess að fjármögnun á árstíðabundnum halla ríkissjóðs verði sem mest utan Seðlabankans.

5. Tekin verði upp staðgreiðsla skatta innan tveggja ára.

6. Athugað verði að breyta söluskatti í skatt með virðisaukasniði innan tveggja ára.

7. Skattaeftirlitið verði hert.

8. Heildarendurskoðun og samhæfing fari fram á tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga.

Efling íslenskra atvinnuvega.

1. Alhliða átak.

Ríkisstj. leggur áherslu á alhliða átak til þess að efla undirstöðu íslenskra atvinnuvega, auka framleiðni þeirra og framleiðsluverðmæti og skapa ný atvinnutækifæri. Traustir atvinnuvegir eru forsenda batnandi lífskjara og blómlegs atvinnulífs. Í þessu sambandi leggur ríkisstj. áherslu á eftirfarandi aðgerðir:

Að auka framleiðni og framleiðsluverðmæti í atvinnuvegum landsmanna.

Að nýta innlendar auðlindir og hráefni.

Að auka fjölbreytni í atvinnulífi um land allt og sjá vaxandi fjölda fólks fyrir atvinnu við góðan aðbúnað. Til þess að ná þessum markmiðum verði að því stefnt: Að efla rannsóknir á íslenskum auðlindum og rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnulífsins.

Að vanda til áætlunargerðar í þágu atvinnuveganna til skemmri eða lengri tíma.

Að haga fjárveitingum og útlánum í samræmi við slíka þróunaráætlun.

Að stuðla að auknum áhrifum starfsmanna og samtaka þeirra á málefni vinnustaða.

Að efla sparnað og hagkvæmni í rekstri á sem flestum sviðum og stuðla að stjórnunarlegum umbótum í fyrirtækjum.

Að bæta verulega aðstöðu til starfsmenntunar og þjálfunar starfsmanna.

2. Sjávarútvegur.

Í sjávarútvegsmálum verði lögð höfuðáhersla á eftirfarandi atriði:

1. Fiskveiðar og fiskvinnsla verði samræmd eftir því sem tök eru á, þannig að hagnýting fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja verði sem best. Í þeim efnum verði komið á samstarfi þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, um löndun afla og dreifingu milli staða með það markmið í huga að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinnuöryggi þess fólks, sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar.

2. Lögð verði áhersla á að auka nýtingu hráefnis og draga úr kostnaði, jafnt við veiðar og vinnslu. Gerð verði áætlun um framleiðniaukningu í fiskiðnaði og sérstök áhersla lögð á, að fiskverkunarfyrirtæki nái almennt því marki í hagkvæmum rekstri, sem nú þekkist best. Ráðstafanir verði gerðar til að beina fjármagni til þessa verkefnis.

3. Aukin verði hagnýting þeirra fiskstofna, sem nú eru lítið nýttir, samhliða því að fjölbreytni í fiskverkun og hagnýtingu sjávarfangs verði aukin.

4. Fiskveiðistefnan verði ákveðin þannig að hagsmunaaðilum sé ljóst með góðum fyrirvara, hvaða reglur eigi að gilda um nýtingu fiskimiðanna, og framkvæmd stefnunnar verði endurskoðuð með það í huga að tryggja sem víðtækust samráð.

3. Iðnaður.

Mörkuð verði langtímastefna um iðnþróun og unnið að bættri aðstöðu til iðnrekstrar með hliðsjón af samkeppnisaðstöðu í útflutningi og til að auka hlut íslensks iðnvarnings á heimamarkaði.

Í samráði við tæknistofnanir og samtök iðnaðarins verði gerð áætlun um framleiðniaukningu í innlendum iðnaði og um einstakar greinar iðnaðar og verkefni í nýiðnaði. Stuðlað verði að byggingu iðngarða.

Starfsemi lánasjóða iðnaðarins verði samræmd og sjóðirnir efldir. Sérstaklega verði Iðnrekstrarsjóði gert kleift að styðja undirstöðuverkefni varðandi iðnþróun. Einnig verði afurðalánakerfið endurskoðað til að tryggja eðlilegan hlut iðnfyrirtækja í rekstrar- og framleiðslulánum.

Mörkuð verði ákveðin stefna um opinber innkaup og til að efla innlendan iðnað og iðnþróun.

Stefnt verði að markvissari stjórn á iðnfyrirtækjum í eigu ríkisins með aukna hagkvæmni og samræmingu í huga.

Ríkið stuðli að uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar, er m.a. byggi á innlendri orku og hráefnum, enda verði slíkur nýiðnaður og frekari stóriðja á vegum landsmanna sjálfra.

Undirbúningi meiri háttar framkvæmda verði hagað þannig, að innlendir verktakar hafi sem besta möguleika til að taka þær að sér á eðlilegum samkeppnisgrundvelli.

Stefnt verði að eflingu innlends skipasmíðaiðnaðar, bæði að því er varðar nýsmíðar og viðgerðir.

Stuðlað verði að byggingu skipaverkstöðvar í Reykjavík.

Unnið verði að því að færa viðhald flugvéla í meira mæli inn í landið en nú er.

Sérstök áhersla verði lögð á iðnað í tengslum við sjávarútveg og að auka úrvinnslu úr landbúnaðarafurðum.

4. Landbúnaður.

Stefnan í málefnum landbúnaðarins verði mörkuð með ályktun Alþingis og við það miðað að tryggja afkomu bænda, sporna gegn byggðaröskun og fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir búvörur til neyslu og iðnaðar. Lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt í því skyni að tryggja stefnuna í framkvæmd.

Rannsókna- og leiðbeiningastarfsemi landbúnaðarins verði í auknum mæli beint að nýjum búgreinum, svo sem fiskeldi, loðdýrarækt og bættri fóðurframleiðslu í því skyni að auðvelda aðlögum til framleiðslunnar að markaðsaðstæðum.

Byggingu nýrra graskögglaverksmiðja verði hraðað. Átak verði gert til markaðsöflunar. Rekstrarlán verði sem næst í samræmi við þróun búvöruverðs.

Til að bæta bændum óverðtryggðan útflutning landbúnaðarvara frá síðasta verðlagsári verði útvegaðar 3000 millj. kr. Leitað verði samkomulags um viðunandi lausn á fyrirsjáanlegum vanda vegna halla á útflutningi búvara á þessu verðlagsári í tengslum við heildarstefnumótun í landbúnaði. Ákvörðun um vinnslu- og dreifingarkostnað og.smásöluálagningu frá því í des. s.l. verði tekin til endurskoðunar. Bjargráðasjóði verði útvegað lán vegna harðindanna 1979. Tekjustofnar sjóðsins verði teknir til endurskoðunar í þeim tilgangi, að hann geti gegnt hlutverki sínu.

5. Orkumál.

Sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir í orkumálum, m.a. með það að markmiði, að innlendir orkugjafar komi sem fyrst í stað innfluttrar orku og að unnt verði með viðunandi öryggi að tryggja afhendingu orkunnar til notenda.

Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.

Rík áhersla verði lögð á orkusparnað og hagkvæma orkunýtingu í atvinnurekstri, samgöngum og heimilisnotkun.

Sett verði lög um skipulag orkumála, um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning, þar sem m.a. verði ákveðin samræmd heildarstjórn þessara mála og tryggð heildsala raforku til almenningsveitna við sama verði um land allt. Skipulag orkudreifingar verði tekið til endurskoðunar.

Ríkissjóður beri kostnað af félagslegum framkvæmdum Rafmagnsveitna ríkisins og framkvæmdum, sem þeim er falið að annast, og með hliðsjón af því verði einnig tekið tillit til stöðu Orkubús Vestfjarða.

Rannsóknir á sviði orkumála og orkunýtingar verði efldar, gerð framkvæmdaáætlun til næstu 5–10 ára og mörkuð samræmd orkustefna til langs tíma. Ríkisstj. skipi nefnd, sem undirbúi þessa stefnumótun.

Sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að draga úr þörf á raforkuvinnslu með olíu veturinn 1980–1981, m.a. með gufuöflun fyrir Kröfluvirkjun og gufuvirkjun í Svartsengi. Stefnt verði að hringtengingu aðalstofnlína á næstu árum og að næsta virkjun vegna landskerfisins verði utan eldvirkra svæða.

Áhersla skal lögð á að tryggja landsmönnum nauðsynlegt magn af olíuvörum með sem hagstæðustum kjörum og með samningum til langs tíma frá fleiri en einum aðila af öryggisástæðum. Skipulag á olíuinnkaupum og olíudreifingu verði tekið til athugunar, svo og hvernig tryggt verði, að nauðsynlegt magn birgða af olíuvörum sé ætíð til í landinu.

Haldið verði áfram rannsóknum vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu undir forustu íslenskra stofnana og stjórnvalda og í því sambandi gætt fyllstu varúðar með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Sett verði lög um eignar- og umráðarétt jarðhita. Utanríkismái o.fl.

Ríkisstj. leggur áherslu á að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Í því sambandi verði þátttaka Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs sérstaklega styrkt.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir samningum við Norðmenn til þess að tryggja fiskveiðiréttindi Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu og fullnægjandi vernd fiskstofnanna þar. Jafnframt verði hafsbotnsréttindi Íslendinga á svæðinu tryggð.

Öryggismálanefndin hraði störfum sínum og geri reglulegar áfangaskýrslur um störf sín.

Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Undirbúið verði öflugt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Athugað verði, hvort rétt sé að breyta því skipulagi, að utanrrn. hafi yfirstjórn allra málaflokka á Keflavíkurflugvelli.

Önnur mál.

1. Stjórnarskrá.

Stjórnarskrárnefndin, sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, ljúki störfum fyrir árslok 1980, þannig að Alþingi hafi nægan tíma til þess að ljúka afgreiðslu stjórnarskrár- og kjördæmamálsins fyrir lok kjörtímabilsins.

2. Stjórnarráð.

Gerðar verði breytingar á stjórnarráðinu og öðrum ríkisstofnunum til einföldunar og hagræðingar og virkari stjórnsýslu. Kannað verði, hvort stofnun sérstaks efnahagsráðuneytis mundi leiða til betri samhæfingar í stjórnkerfinu.

3. Mennta- og menningarmál.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að auknar verði á kjörtímabilinu fjárveitingar til menningarmála, sem m.a. tryggi viðunandi hraða við uppbyggingu menningarstofnana, svo sem Þjóðarbókhlöðunnar.

Að öðru leyti leggur ríkisstj. áherslu á eftirfarandi meginþætti í mennta- og menningarmálum:

Sett verði sem fyrst lög um framhaldsskóla. Sérstök áhersla verði lögð á að efla verkmenntun. Sett verði rammalöggjöf um fræðslu fullorðinna og stuðlað að auknum rétti starfsfólks til endurmenntunar. Opinberum fjölmiðlum verði ætlað fræðsluhlutverk, bæði í þágu skóla og fræðslu fullorðinna.

Undirbúin verði löggjöf um forskólastig. Endurskoðuð verði lög um námslán og námsstyrki með hliðsjón af samkomulagi við námsmenn á liðnu vori.

4. Félags- og tryggingamál.

Stefnt verði að því:

Að vinna að úrbótum í atvinnumálum aldraðra og öryrkja og bæta aðstöðu þeirra sem eru líkamlega eða andlega fatlaðir.

Að fæðingarorlof verði greitt úr almannatryggingum. Að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar með tilliti til rýmri bótaréttar.

Að auka byggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli og draga úr húsnæðiskostnaði.

Að hraða endurskoðun á lögum um almannatryggingar.

Að efla frjálsa félagsstarfsemi, íþróttir og útilíf.

5. Dómsmál.

Unnið verði að umbótum í dómsmálum og stuðlað að hraðari meðferð dómsmála, með því m.a. að einfalda meðferð minni háttar mála. Athugað verði, hvernig þeim efnaminni í þjóðfélaginu verði tryggð lögfræðiaðstoð til þess að ná rétti sínum.

6. Umhverfismál og auðlindir.

Gerðar verði áætlanir og skipulag varðandi nýtingu lands, orkulinda og auðlinda hafs og hafsbotns og í því sambandi tekið mið af rannsóknum og stefnu um umhverfisvernd.

Við nýtingu lífrænna auðlinda, sem endurnýjast, verði svo sem frekast er kostur miðað við að ekki sé gengið á höfuðstól.,

Sett verði lög um umhverfismál, sem m.a. feli í sér að helstu flokkar þeirra mála falli undir eitt ráðuneyti. Ný landgræðslu- og landverndaráætlun verði gerð.

7. Samgöngumál.

Gerðar verði samgönguáætlanir fyrir landið allt og einstaka landshluta. Staðið verði við fyrirliggjandi vegáætlun fyrir árin 1980–1982. Tekjuöflun til vegamála og ráðstöfun tekna ríkisins af umferð verði tekin til endurskoðunar. Sérstakt átak verði gert til að leggja bundið slitlag á aðalvegi og til að byggja upp vegi í strjálbýli.

Lögð verði áhersla á hafnarbætur svo og á bætt skipulag flutninga innanlands og milli landa. Skipaútgerð ríkisins verði efld.

Frumvarp til laga um lagningu sjálfvirks síma verði aftur lagt fyrir Alþingi og áfram unnið að uppbyggingu á dreifikerfi sjónvarps og hljóðvarps.

Framkvæmdum við flugvelli og öryggisbúnað þeirra verði hraðað.

8. Fjárhagsmál sveitarfélaga.

Ríkisstj. telur nauðsynlegt að styrkja fjárhag sveitarfélaga til að gera þeim kleift að ráða við þau mörgu verkefni, sem þeim ber að sinna. Haldið verði áfram endurskoðun verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.

9. Byggðamál.

Í byggðamálum verði unnið að brýnum framkvæmdum í undirstöðuþáttum, svo sem á sviði orkumála, samgangna og fjarskipta.

Unnið verði að því að jafna aðstöðu fólks til þess að njóta ýmiss konar þjónustu án tillits til búsetu, m.a. með jöfnun símakostnaðar og flutningskostnaðar.“

Herra forseti. Fyrir hönd ríkisstj. vil ég láta í ljós ósk og von um gott samstarf við þing og þjóð.

Geir Hallgrímsson: Herra forseti. Það eru ávallt tímamót þegar ný ríkisstj. tekur til starfa, og það er ástæða til þess fyrir hönd Sjálfstfl. að gera grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. til þeirrar ríkisstj. sem nú hefur verið mynduð.

S.l. föstudag, 8. febr., gerði þingflokkur Sjálfstfl. eftirfarandi ályktun, sem ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfi mér að greina hér frá:

„Þingflokkur Sjálfstfl. hefur kynnt sér málefnasamning ríkisstj. og ályktar af því tilefni eftirfarandi: Þingflokkurinn telur málefnasamninginn þess efnis, að flokkurinn geti ekki veitt ríkisstj. stuðning né hlutleysi, enda gengur hann í veigamiklum atriðum gegn grundvallarstefnu Sjálfstfl.

Sem dæmi um efnisatriði má nefna:

1) Í samningnum eru almennar yfirlýsingar um hjöðnun verðbólgu, jafnvægi í peningamálum, hallalausan ríkisbúskap og eflingu atvinnulífsins. Um þessi markmið geta allir orðið sammála. Mestu skiptir hvernig á að ná þeim, og í þeim efnum eru engar vísbendingar gefnar sem hald er í.

2) Kveðið er á um aukningu ríkisútgjalda sem samtals getur numið tugmilljörðum kr. á ári án þess að tilgreind sé nokkur tekjuöflun eða útgjaldalækkun á móti. Þessi ákvæði samningsins, ef framkvæmd verða, munu þýða stórfellda skattahækkun, halla á ríkissjóði, seðlaprentun og söfnun eyðsluskulda erlendis. Jafnframt er kynt undir áframhaldandi verðbólgu.

3) Stefnt er að útþenslu ríkisbáknsins og aukningu ríkisafskipta. Ríkið mun draga til sín enn meira fjármagn sem ekki getur nýst til að auka rauntekjur þjóðarinnar. Það leiðir til lakari lífskjara.

4) Ákvæði kaflans um verðlagsmál, þar sem verðbreytingar eru ákveðnar án tillits til innlendra kostnaðarhækkana, þrengja mjög hag fyrirtækjanna og koma í veg fyrir kosti frjálsrar verðmyndunar.

5) Í utanríkismálum er ekki minnst á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu né varnar- og öryggismál og er því allt opið í þeim efnum. Hins vegar er að finna óskyld málefni, svo sem ákvæði um átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Þetta hvort tveggja vekur upp spurningu um það, hvort hér sé um stefnubreytingu eða uggvænlegt ístöðuleysi að ræða í varnarmálum, þar sem Alþb. er fengið úrslitavald í öryggismálum þjóðarinnar.

6) Stefnuskráin er í raun og veru óskalisti. Einstök atriði útiloka hvert annað, þannig að dæmið getur ekki gengið upp í heild. Samningurinn er því óraunhæft áróðursplagg, einkennandi fyrir stefnu vinstri flokkanna.

Hér hafa verið nefnd fáein atriði í málefnasamningnum sem Sjálfstfl. getur með engu móti samþykkt. Málinu öllu verða gerð frekari skil í umræðum á Alþ., en með tilvísun til þessa verður þingflokkur Sjálfstfl. í andstöðu við ríkisstj.

Ályktun þessi var til umr. og meðferðar á flokksráðsfundi Sjálfstfl. í gær, en flokksráð Sjálfstfl. markar stefnu flokksins milli landsfunda og tekur eftirfarandi ákvörðun um afstöðu flokksins til samstarfs við aðra stjórnmálaflokka. Á þessum fundi var eftirfarandi ákvörðun tekin og samþykkt:

„Flokksráð Sjálfstfl. lýsir yfir stuðningi sínum við afstöðu miðstjórnar og þingflokks til stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens, Alþb. og Framsfl.

Flokksráðið lýsir því yfir andstöðu Sjálfstfl. við ríkisstj. og málefnasamning hennar.“

Enn fremur:

„Flokksráðið leggur áherslu á, að samstaða sjálfstæðisfólks um land allt er meginforsenda fyrir framgangi sjálfstæðisstefnunnar, og hvetur því til einingar og trúnaðar við flokkinn til heilla landi og lýð.“

Í raun og veru ætti ekki að þurfa á þessu stigi málsins að fara mögum fleiri orðum um þennan málefnasamning. En ég held þó að rétt sé að gera það nokkuð.

Þessi málefnasamningur er í fyrsta lagi dæmigerður vinstristjórnarsáttmáli. Hann minnir að mörgu leyti á samning vinstri stjórnarinnar 1971. Hann er óska- og loforðatisti. Vinstristjórnarsamningurinn 1971 var upphaf þeirrar óðaverðbólguöldu sem skall yfir Íslendinga og fram hefur haldið með örstuttum hléum á s.l. áratug. Í þessum samningi er ekki um það að ræða, að nein ráð séu tiltekin til að vinna bug á verðbólgunni sem slíkri. Markmið er sett um það, að verðbólgan, eigi að vera komin niður í u.þ.b. 10% eða minna á árinu 1982, ef marka má málefnasamninginn sjálfan. En í einstökum þáttum og þegar um er að ræða samræmda efnahagsmálastefnu fyrirfinnst hún engin.

Í kjaramálum er ekkert fram tekið í raun og veru annað en að taka skuli til nokkra fjárupphæð til félagslegra umbóta, og væntanlega verður þeirri fjárupphæð eytt án tillits til hvaða viðtökur sá félagsmálapakki fær hjá launþegasamtökunum. Það er góðra gjalda vert, að samningar um kaup og kjör skuli vera á hendi aðila vinnumarkaðarins.

En einn er sá kjarasamningur sem alfarið hlýtur að vera á vegum ríkisstj. sjálfrar. Það er samningur við opinbera starfsmenn, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Engin afstaða er tekin til stefnu ríkisstj. varðandi þann samning. Formaður Framsfl. hefur lýst því yfir, að það komi ekki til greina að veita nokkra grunnkaupshækkun vegna krafna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um 15–37% grunnkaupshækkun. Umboð ríkisstj. í þessum samningum hefur fjmrh. og hefur ekki fengist fram hjá honum yfirlýsing um afstöðu hans til þessa samningsfrekar en ríkisstj. í heild.

Í þessum málefnasamningi er ekkert ráð tiltekið hvernig eigi að rjúfa vítahring verðlags og kaupgjalds, sem er spegilmynd af verðbólguþróuninni. Þá eru í málefnasamningnum mörg atriði um útgjöld og aukin ríkisumsvif, sem hljóta að leiða til aukinnar skattheimtu, hallarekstrar og seðlaprentunar og vaxandi erlendra skulda, eins og getið er um í ályktun þingflokks Sjálfstfl. Það má telja þessa útgjaldaliði saman, og ef þeir eru saman taldir munu þeir nema eigi lægri upphæð en um 25 milljörðum kr. á þessu ári og a.m.k. 35 milljörðum á næsta ári. Það er ekkert sagt um tekjuöflun og ekkert um lántökur, nema að greiðslubyrði erlendra lána eigi að vera innan 15% á ári, sem er það hæsta sem verið hefur eftir áföllin 1968 og 1969.

Í peningamálum er rætt um það, að vextir eigi að vera óbreyttir fyrst í stað, en með vaxandi verðbólgu þýðir þetta aukningu á neikvæðum vöxtum, þ.e. að sparifjáreigendur tapa meira af sparifé sínu heldur en nokkru sinni áður. En í næstu grein á eftir er talað um að verðtryggja sparifé landsmanna, og af því leiðir að það verður að lána það fjármagn út með verðtryggingu eða vöxtum í samræmi við verðbólguna. Af þessu hlýst, að sparifjármagnið flyst yfir í verðtryggða reikninga, og af því leiðir, að vaxtakostnaður eða fjármagnskostnaður hlýtur að stórhækka með vaxandi verðbólgu, því að málefnasamningurinn leiðir ekki til neinna ráðstafana til að stöðva verðbólguna, og því mun hún verða um 40–50% á ári. Þarna er dæmi um það, hvernig stefna Alþb. um lækkun vaxta er í framkvæmd og hvernig Framsfl. snýst í hring. Um aðra þátttakendur í stjórnarsamstarfinu þarf ekki að ræða.

Ekkert takmark er sett fyrir ríkisútgjöldunum, eins og lögð hefur verið áhersla á, og eins og ég hef sýnt fram á fara þau vaxandi.

Varðandi verðlagsmálin hafa framsóknarmenn hrósað sér af því, að beitt sé niðurtalningaraðferð framsóknarmanna í verðlagsmálum. Að vísu stendur í málefnasamningnum, að það eigi að lögbjóða að verðbólgan minnki, verðlagshækkanir eigi ekki að vera nema 8, 7 og 5% næstu þrjá ársfjórðungana eftir 1. maí. Það er ekki haldgott ráð að setja í lög, að verðbólga skuli ekki vera meiri en ákveðið hlutfall á hverjum ársfjórðungi. Ég hygg að öllum sé ljóst að það er vita þýðingarlaust, enda eru í þessum kafla undantekningarákvæði sem gera út af fyrir sig þessa reglu ómarktæka. En hér er ekki heldur um niðurtalningaraðferð Framsfl. að ræða í verðlagsmálum, heldur niðurtalningaraðferð Alþb. miklu fremur, vegna þess að framsóknarmenn vildu einmitt láta það koma fram, að kaupgjald hækkaði minna á hverjum ársfjórðungi heldur en verðlag og með þeim hætti yrði verðbólgunni komið niður, gagnstætt því sem hér er um að ræða.

En hver er afleiðingin og hvert er haldið með þessu ákvæði málefnasamningsins, þegar fyrirsjáanlegt er að kaupgjald muni hækka um 40% á þessu ári? Er þá nokkur von til þess, að verðlag geti haldist innan við 25%, eins og gert er ráð fyrir með þessari niðurtalningaraðferð? Afleiðing af þessu yrði stórkostlegur hallarekstur fyrirtækja, sem lánastofnunum væri um megn að fjármagna og leiddi til stöðvunar og greiðsluþrots fyrirtækja, uppsagna starfsfólks og atvinnuleysis, ef framkvæmt yrði.

Í þessu sambandi er rætt um hækkun niðurgreiðslna eða réttara sagt verðtryggingu niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum, þannig að þær séu ávallt sama hlutfall af verði landbúnaðarafurða. Aðeins þetta ákvæði mun kosta um 2.5 milljarða á þessu ári, umfram það sem skortir á í fjárlagafrv. til þess að standa undir núverandi niðurgreiðslustigi, Þetta ákvæði mun kosta ekki minna en 8 milljarða á næsta ári, og fyrir þessu fjármagni er ekki séð fyrir tekjuöflun að einu eða neinu leyti. Þetta er gagnstætt stefnu efnahagsmálafrv. sem samþykkt var hér í aprílmánuði s.l., svo að dæmi sé tekið.

Ég hlýt að víkja að stefnunni í atvinnumálum. Þar er allt bundið við forsjá hins opinbera, allt bundið við atvinnumálaáætlanir og fyrirskipanir að ofan, gagnstætt því sem ætti að vera: að byggja á framtaki, frumkvæði, hugmyndum atvinnurekenda sjálfra, einstaklinganna sem taka þátt í atvinnurekstri. Þar er gert ráð fyrir því, að lánveitingar verði bundnar við framkvæmd opinberra atvinnumálaáætlana, en ekki fyrir því, að fyrirtæki í atvinnurekstri geti byggt upp eigið fjármagn. Af þessu leiðir meiri sókn í lánsfé, meiri verðbólguþenslu, minni framleiðniaukningu eða raunar stöðvun framleiðniaukningar og vaxtar í atvinnurekstri og atvinnulífi landsmanna.

Hér er í raun og veru verið að taka upp slíka ríkisforsjá og slík ríkisumsvif, að atvinnufyrirtæki og einstaklingar í landinu verða í athöfnum sínum að sækja á náðir hins opinbera, skömmtunarstjóra hins opinbera, til þess að sjá atvinnurekstri sínum og atvinnu borgið.

Þá er athyglisvert, að um stóriðju er sagt að hún eigi að vera á vegum landsmanna sjálfra. Væri fróðlegt að fá skýringu á því, hvernig eigi að skilja þetta orðalag, hvort það eigi að skilja sem svo, að Íslendingar eigi ávallt að eiga meiri hluta í stóriðjufyrirtækjum eins og Grundartangaverksmiðjunni t.d., eða hvort Íslendingar eigi alfarið að byggja upp stóriðjufyrirtæki með lántökum og jafnvel hvort ekki megi taka erlend lán í þessu skyni. Forsjá þessara mála er falin Alþb.-manni, en Alþb. hefur, eins og kunnugt er, verið andvígt stóriðjuframkvæmdum, sem þó eru einn veigamesti þátturinn til þess að bæta lífskjör í landinu.

Í málefnasamningnum er ekki minnst á skattamál, ef frá er tekið að athugað skuli að lækka útsvör af lægstu tekjum. Það er ekki minnst á það að draga úr auknum skattaálögum vinstri stjórnarinnar. Það er ekki minnst á það að lækka skatta á almennum launatekjum, eins og nauðsynlegt er að gera. Í þessum málefnasamningi er byggt í raun og veru á hæsta fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram, frv. Tómasar Árnasonar. Og nýveríð hefur verið tilkynnt, að hinn nýi fjmrh. ætli að semja þriðja fjárlagafrv. á þessum vetri, sem auðvitað mun slá öll met hvað útgjaldaupphæðir snertir.

Í málefnasamningnum er fáum orðum farið um kjördæmamálið. Rætt er um, eins og skylt er, að stjórnarskrárnefnd ljúki störfum á þessu ári, en talið fullnægjandi að afgreiðsla kjördæmaskipunar og kosningalaga eigi sér stað fyrir lok kjörtímabils. Mér sýnast öll sólarmerki benda til þess, að gengið verði til kosninga áður en þessu kjörtímabili ætti í raun að vera lokið. Og ég tel nauðsynlegt, að frá breytingum á kjördæmaskipun og kosningalögum verði gengið þegar á næsta vetri og um það mál verði einnig kosið í næstu kosningum, svo að réttlátari skipan fáist í þeim efnum en nú hefur verið um skeið. Hér er um að ræða jöfnun kosningaréttar. Hér er um að ræða að Alþ. sé rétt spegilmynd af flokkaskipuninni í landinu. Hér er um að ræða að efla persónutengsl milli þm. og umbjóðenda þeirra.

Í þessum málefnasamningi er talað um einföldun og hagræðingu og hagkvæmni í störfum stjórnarráðsins og opinberum rekstri. En það er ekkert einasta nýmæli til framkvæmda í þeim efnum. Hvað snertir einföldun og hagkvæmni í Stjórnarráði Íslands er framkvæmdin sú hin fyrsta að fjölga ráðherrum eins og raun ber vitni og við sjáum í fögrum röðum fyrir framan okkur.

Þá er í þessum málefnasamningi merkilegt að taka eftir kaflanum um utanríkismál. Þar er ekki minnst einu orði á aðild Íslendinga að varnarsamstarfi vestrænna ríkja í Norður-Atlantshafsbandalaginu né heldur varnarsamstarfið við Bandaríki Norður-Ameríku. Það er athyglisvert, að orðalag málefnasamningsins nú, 1980, er ákaflega svipað orðalagi málefnasamnings fyrstu vinstri stjórnarinnar 1971. Í þessum málefnasamningi segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur áherslu á að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Í því sambandi verði þátttaka Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs sérstaklega styrkt.“

Af þessu er nærri að draga þá gagnályktun, að úr því að á að styrkja þátttöku Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs, þá eigi að draga úr starfi Íslendinga t.d. í Atlantshafsbandalaginu. En látum það vera. Taki menn eftir orðalaginu sjálfu og beri það saman við málefnasamninginn 1971, sem er svo hljóðandi:

„Stefna Íslands í alþjóðamálum verði sjálfstæðari og einbeittari en hún hefur verið um skeið og sé jafnan við það miðað að tryggja efnahagslegt og stjórnarfarslegt fullveldi landsins. Hafa skal sérstaklega náin tengsl við Norðurlandaþjóðirnar. Innan Sameinuðu þjóðanna og annars staðar á alþjóðavettvangi ber Íslandi að styðja fátækar þjóðir til sjálfsbjargar og jafnréttis við efnaðri þjóðir.“

Þegar svo langt er komið eru sem sagt alþjóðastofnanirnar, sem Íslendingar eiga þátt í, Norðurlandaráð og Sameinuðu þjóðirnar, einar teknar inn í myndina, en hins vegar ekki Norður-Atlantshafsbandalagið.

Hins vegar tekur stjórnarsamningurinn 1971 núverandi stjórnarsamningi þó fram að því leyti, að þar er sagt berum orðum:

„Ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Að óbreyttum aðstæðum skal þó núgildandi skipun haldast. En ríkisstj. mun kappkosta að fylgjast sem best með þróun þeirra mála og endurmeta jafnan stöðu Íslands í samræmi við breyttar aðstæður.“

Þetta vekur þá spurningu, hvort nú sé enginn ágreiningur milli aðila stjórnarsamstarfsins um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Eru allir ráðherrarnir sammála um þá afstöðu, úr því ekki var þörf á að nefna Atlantshafsbandalagið á nafn? Það er nauðsynlegt að vita um það. Og enn þá nauðsynlegra væri að vita í hvaða farveg samstaðan hefur farið.

Herra forseti. Ég skal stytta mál mitt. En af því, sem ég hef hér sagt, er ljóst að Sjálfstfl. er í andstöðu við þá ríkisstj. sem nú hefur verið mynduð.

Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að unninn sé bugur á verðbólgu með öflugum og samræmdum aðgerðum á sviði fjármála, peningamála og launamála. Samkomulagið, sem okkur hefur verið kynnt í dag, gerir ekki ráð fyrir öflugum aðgerðum á neinu þessara sviða og samræmingar gætir hvergi.

Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að dregið sé úr umsvifum ríkisins og ríkisútgjöld lækkuð. Samkomulagið, sem hér hefur verið tilkynnt í dag, gerir ráð fyrir auknum ríkisumsvifum og ríkisútgjöldum og samsvarandi skerðingu á umsvifum og frelsi einstaklinga í landinu og ráðstöfunarrétti á eigin aflafé þeirra.

Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að atvinnulífinu séu sköpuð skilyrði til frjálsrar starfsemi á heilbrigðum fjárhagslegum grundvelli til þess að bæta kjör allra landsmanna. Samkomulagið, sem kynnt hefur verið hér í dag, gerir ráð fyrir að þjarmað sé að atvinnulífinu með ýmsum hætti og jafnframt séu ríkisafskipti af atvinnulífinu stóraukin með fyrirskipandi áætlunargerð og lánveitingum úr opinberum sjóðum.

Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að frjálsræði í viðskipta- og gjaldeyrismálum sé aukið, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Samkomulagið, sem hér er kynnt, gerir ekki ráð fyrir neinni viðleitni í þessa átt.

Aðdragandi að myndun þessarar ríkisstj., málefnasamningur sá, sem hún byggir starf sitt á, og skipting ráðuneyta og starfa innan ríkisstj. er allt með þeim hætti, að lítil gæfumerki er að sjá. Engu að síður er það von mín og ósk, að betur rætist úr en á horfist.