19.12.1979
Efri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur tekið til meðferðar frv. það, sem hér er til umr., og haldið þrjá fundi til þess að ræða málið. Á fund n. komu iðnrh. og rafmagnsveitustjóri ríkisins til þess að ræða um frv. við okkur.

Þess vil ég geta, að á fund n. komu einnig bæjarstjóri og rafveitustjóri frá Siglufirði. Þeir lýstu fjárhagserfiðleikum hjá Rafveitu Siglufjarðar og óskuðu eftir að bætt yrði úr þeim vanda með því að veita Rafveitu Siglufjarðar hlutdeild í ráðstöfunarfé því sem verðjöfnunargjaldið gefur. Nm. töldu ekki fært að gera þetta að tillögu sinni. Hins vegar telja nm. ljóst, að Rafveita Siglufjarðar eigi við fjárhagserfiðleika að etja, og leggja til að stjórnvöld aðstoði við að leysa þann vanda með sérstökum aðgerðum.

Þá vil ég og geta þess, að n. barst bréf frá Sambandi ísl. rafveitna sem felur í sér mótmæli gegn verðjöfnunargjaldinu. Í þessu bréfi er þó tekið fram að það sé ljóst, að leysa þurfi fjárhagsvanda fyrirtækja þeirra sem gjaldsins njóta, þ.e. Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Og það er enn fremur tekið fram í bréfinu og vitnað til þess, sem stjórn Sambands ísl. rafveitna hefur sagt áður, að hún telji að leysa beri fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestjarða á annan hátt en með verðjöfnunargjaldi, m.a. með beinum framlögum úr ríkissjóði, eins og segir í bréfi þessu. Þá segir í bréfi þessu að Kristján Jónsson og Hafsteinn Davíðsson taki fram, að þeir teysti sér þó ekki til að mótmæla gjaldi þessu, þ.e. verðjöfnunargjaldinu, meðan ekki koma til aðrar lausnir á fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en þeir menn, sem þarna eru tilgreindir, eru fulltrúar Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í stjórn Sambands ísl. rafveitna.

Það varð niðurstaða n., að hún mælir með samþykkt frv. Tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara.

Þetta frv., sem hér um ræðir, er framlenging á lögum um verðjöfnunargjald af raforku. Hér er um að ræða 19% verðjöfnunargjald og að því verði skipt á milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða þannig að Rafmagnsveiturnar hljóti 80% af tekjum af verðjöfnunargjaldi, en Orkubú Vestfjarða 20%. Þetta er óbreytt frá gildandi lögum.

Í frv. þessu segir að verðjöfnunargjaldinu skuli varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þetta orðalag hefur verið í þessum lögum frá því að þau voru fyrst sett í þessu formi árið 1974. Það hefur verið litið svo á, að þetta orðalag rúmaði bæði það, að þetta fé, sem kemur inn fyrir verðjöfnunargjaldið, væri beinlínis notað til þess að lækka taxta viðkomandi orkufyrirtækja, og svo óbeinlínis — með því að bæta fjárhag þeirra — þá er að sjálfsögðu dregið úr fjármagnskostnaði þeirra og skapaður grundvöllur fyrir lægra orkuverð. Þessi skilningur hefur verið á framkvæmd þessara laga hingað til og það er tekið fram í grg. með þessu frv., en þar segir um þetta efni á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjaldið er nauðsynlegt til þess að bæta úr fjárhagsörðugleikum fyrirtækjanna og til þess að hamla gegn hinum mikla mun á raforkuverði í landinu sem bitnar mest á viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.“

Þetta mál, sem hér um ræðir, er, eins og allir vita og ég vék að áður, ekki nýtt. Sögu þess má rekja allt aftur til 1965, þegar með lögum var stofnað til sérstaks verðjöfnunargjalds til þess að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. 1 því formi, sem núgildandi lög eru og þetta frv. sem hér er lagt farm, hefur þetta mál verið síðan 1974, með lögunum sem þá voru sett, lög nr. 83 frá 1974. En lögin hafa verið framlengd óbreytt síðan með tveim undantekningum, þ.e. að í fyrra var sem kunnugt er verðjöfnunargjaldið hækkað úr 13% í 19%, og við stofnun Orkubús Vestfjarða, sem tók hluta af veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins í sínar hendur, var ákveðið að skipta fé því, sem verðjöfnunargjaldið gefur, á milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í réttu hlutfalli eða því sem næst við umsvif Rafmagnsveitna ríkisins eins og þau voru á Vestfjörðum, en út úr því dæmi kom að eðlilegt væri að Orkubúið fengi 20 % af þessu fé og Rafmagnsveitur ríkisins 80%.

Það er augljóst, að þörf hefur verið fyrir þetta gjald allt frá þeim tíma að það var fyrst innleitt 1965. Og ég hygg að það leiki ekki nokkur vafi á því, að ekki sé nú minni þörf en áður á þessu gjaldi og þeirri aðstoð sem það gerir mögulega, nema síður sé.

Nú mætti halda hér langa tölu um þarfir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í þessu sambandi og nauðsyn þess að samþykkja frv. sem hér liggur fyrir.

En þetta mál er svo alkunnugt og raunar mikið rætt, að ég sé ekki ástæðu til þess nú að vera fjölorður um það.

Það orkar ekki tvímælis nú, að Rafmagnsveitur ríkisins þurfa á þeirri aðstoð að halda sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Ég get til upplýsingar getið þess, að talið er að vextir og afborganir af lánum Rafmagnsveitna ríkisins á árinu 1979 nemi um 330 millj. kr. Er áætlað af Rafmagnsveitum ríkisins að verðjöfnunargjaldið árið 1979 muni gefa rúmar 2000 millj. eða 2100 millj. kr. til Rafmagnsveitnanna. Með hliðsjón af þessu og þrátt fyrir þessa aðstoð er áætlað nú — eða það var byggt á áætlun sem gerð var í sept. s.l. og er ekki talið að hafi breyst neitt svo að orð sé á gerandi síðan — að rekstrarhalli Rafmagnsveitna ríkisins á árinu 1979 muni nema um 1000 millj. kr. Þessar fáu tölur bera þess glöggt merki, hver þörf Rafmagnsveitna ríkisins er fyrir þá aðstoð sem gert er ráð fyrir með þessu frv.

Ég vík þá aðeins nokkrum orðum að Orkubúi Vestfjarða. Aðalvandi Orkubús Vestfjarða í dag er fólginn í því, að Vesturlínu er ekki lokið og verður ekki lokið á þessu ári, eins og gert var ráð fyrir og raunar fyrirheit gefið um þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað. Af þessum ástæðum verður Orkubúið að búa við það ástand að treysta svo mjög á framleiðslu rafmagns með dísilvélum, að talið er að töfin á Vesturlínu — miðað við það að Vesturlína tefjist um eitt ár frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og það er öruggt nú að svo verður — kosti Orkubúið um 1000 millj. Þetta er nettóupphæð, því að það eru hartnær 1.5 milljarðar sem olíukaupin nema af þessum ástæðum, en frá dregst auðvitað kostnaðarverð á rafmagni sem keypt væri um byggðalínu. Er því af þessu, þó að ég nefni ekki fleira, augljóst hve mikil þörf Orkubúsins er nú á að fá aðstoð sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég hef aðeins í fáum orðum vikið að fjárhagsstöðu fyrirtækjanna sem hér um ræðir. En það þarf naumast að taka fram að enn sem áður skera þessi fyrirtæki sig úr öðrum orkufyrirtækjum á landinu fyrir það, hvað orkuverðið er hátt. Síðustu tölur í því efni sýna, ef tekið er rafmagn til heimilisnotkunar, að verðið í Reykjavík er 36.25 kr. á kwst., hjá Orkubúi Vestfjarða 51.08 kr. á kwst. og hjá Rafmagnsveitum ríkisins 55.68 kr. á kwst. Og ef við tökum taxta til húshitunar og berum saman við Reykjavík sem áður, þá er verðið 8.60 kr. í Reykjavík, 14.30 á Vestfjörðum og 10.05 kr. hjá RARIK. Taxti fyrir vélar er í Reykjavík 22.53 kr. á kwst., hjá Orkubúi Vestfjarða 38.78 kr. á kwst. og hjá Rafmagnsveitum ríkisins 34.03 kr. á kwst. Þetta eru síðustu tölur um þessi efni og sýna þær, eins og ég sagði, að það er óbreytt ástand, að Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða skera sig úr í þessum efnum og hafa algera sérstöðu, eins og hefur verið allan þann tíma sem verðjöfnunargjaldið hefur staðið hvað varðar Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubúið síðan það var stofnað.

Ég sagði áðan að n. mælti með samþykkt þessa frv. Ég vil taka það fram, að í því felst ekki nein yfirlýsing af hálfu n. eða einstakra nm. um að það fyrirkomulag, sem nú er notað til verðjöfnunar, hljóti að vera það eina rétta og ekki komi til greina aðrar leiðir í þessu efni. Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða það mál hér frekar, enda kemur auðvitað ekki til greina að taka upp aðrar leiðir nú við afgreiðslu þessa máls, vegna þess að svo vandasamt mál verður ekki leyst á tveim dögum eða jafnvel þrem. Ef menn viðurkenna þörfina á þessari verðjöfnun, þá er nauðsynlegt að afgreiða frv. þetta fyrir jólaleyfi. Og ég vil ekki efast um það, að menn viðurkenni nauðsynina á þessari verðjöfnun. En með tilliti til þessa vil ég taka undir orð hæstv. iðnrh. sem hann viðhafði, þegar hann mælti fyrir frv. þessu við 1. umr., og skoraði á d. að hraða afgreiðslu málsins svo að það tækist að ljúka því í báðum deilum fyrir jólaleyfi.