11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja nokkur orð að gefnu tilefni, en vænti þess að tefja tímann ekki lengi.

Hæstv. sjútvrh. vitnaði nokkuð í þær hugmyndir sem ég lagði fram þegar ég hafði á hendi stjórnarmyndunartilraunir og voru til þess ætlaðar að freista þess að samræma sjónarmið þeirra fjögurra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Hann taldi að þar hefðu engin takmörk eða þak verið á ríkisútgjöldum eða ríkisumsvifum. Ég vil í þessu sambandi, með leyfi forseta, lesa úr grg. sem ég gaf fjölmiðlum að loknum þessum stjórnarmyndunartilraunum, en þar stendur eftirfarandi:

„Varið sé 18 milljörðum kr. til lækkunar beinna skatta og/eða hækkunar tryggingabóta, miðað við fjárlagafrv. 102. þings, til að vega á móti niðurfellingu 15 prósentustiga í verðbótum á laun. Upphæðar þessarar sé aflað með lækkun útgjalda, 8 milljarðar kr., útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði umfram það sem áður hefur verið ráðgert, 5 milljarðar kr., og sölu skuldabréfa til banka og annarra fjármálastofnana, 5 milljarðar kr.“

Hið síðast nefnda var fram tekið að gæti falist í lækkun á fyrirhugaðri afborgun til Seðlabanka ef fjár væri ekki unnt að afla með öðrum hætti.

Ég lagði fram yfirlit yfir hvernig þessu yrði þá háttað í heild sinni hvað ríkisfjármál snerti, og með þeim hætti voru ríkisútgjöldum og ríkisumsvifum sett ákveðin takmörk. Ég vek athygli á því, að það er munur að tala um 18–25 milljarða kr. lækkun á sköttum eða hækkun á tryggingabótum annars vegar eða beinlínis um 25 milljarða kr. hækkun á ríkisútgjöldum, sem nauðsynlegt verður að afla skatta til að standa undir.

Þá sagði hæstv. sjútvrh., að það væri samhljóða í málefnasamningi núv. stjórnar og hugmyndum mínum að vextir hækki ekki 1. mars, það er alveg rétt, og síðan að vextir lækki með verðlagi. En sá munur er á málefnasamningnum og hugmyndum mínum, að samkv. hugmyndum mínum og mati Þjóðhagsstofnunar á þeim hefði verðbólgustigið verið komið niður í 25–26% í ágústmánuði í haust, en nú samkv. málefnasamningnum er áframhaldandi útlit fyrir 40–50% verðbólgu. Þess vegna var unnt að lækka meðalvexti, sem nú eru um 36.5%, samkv. hugmyndum mínum þegar í stað fyrir haustið og koma á jákvæðri ávöxtun sparifjár. En samkv. málefnasamningi núv. stjórnar er ekkert útlit fyrir annað en að áfram haldist sú þróun að sparifé almennings sé skert.

Þá sagði hæstv. sjútvrh. að það væru engin mörk á fjárfestingu í hugmyndum mínum en þar var tekið greinilega fram að erlendar lántökur ættu að miðast við 70–75 milljarða eða sem næst því að erlendar skuldir stæðu í stað og ykjust ekki.

Þá sagði hæstv. sjútvrh., að varðandi kjaramál hefði ekki átt að hafa nein samráð við launþegasamtökin. Um kjaramál segir:

„Stefnt sé að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að verðlagsuppbót á laun verði samanlagt 15 prósentustigum minni 1. mars og 1. júní n.k. en samkv. núverandi fyrirkomulagi. Þetta sé bætt með þeim skattalækkunum og bótahækkunum sem getið er um hér á undan.“

Ég taldi alveg nauðsynlegt að leiðrétta hæstv. sjútvrh., formann Framsfl., þegar hann fer svo villur vegar sem hann var í ræðu sinni.

Þá ræddi hæstv. forsrh. um að það væri óþarfi að geta um aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu, vegna þess að menn vissu um afstöðu flokka þeirra er að ríkisstj. stæðu til þátttöku í því. Þetta er alveg ný kenning. Það er einmitt nauðsynlegt að geta í málefnasamningi um afstöðu til mála þar sem fyrir fram er vitað um ágreining á milli flokka. En þetta er einmitt einkenni á þessum málefnasamningi. Hann greinir ekki í neinu tilviki frá hvaða stefnu ríkisstj. ætlar að taka í málum sem ágreiningur hefur verið um meðal samstarfsaðila hér á þingi. Menn mynda stjórn venjulega til að leysa vandamál, og þá er ekkert óeðlilegt út af fyrir sig að ágreiningur sé á milli flokka um lausn vandamálanna. En það er lágmarkskrafa, þegar ríkisstj. er mynduð, að almenningi sé gerð grein fyrir hvaða stefna er ríkjandi og hvaða úrlausn er valin í slíkum tilvikum.

Ekki einungis vekur athygli að ekki er getið um þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, heldur er ekki einu orði minnst á varnarsamstarf við Bandaríki Norður-Ameríku. Hvorugs þessa er getið á þeim tíma þegar Sovétríkin standa grá fyrir járnum og hafa ráðist inn í nágrannaríki sín og skert mannréttindi, jafnvel frekar en nokkru sinni áður.

Það er svo athyglisvert, þótt ég sé alveg sammála um að tilefni sé til að endurskoða hönnun flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli vegna breytinga á Atlantshafsflugi, að það skuli vera lagt á vald Alþb. hvort af framkvæmdum verður eða ekki, og því með slíkum hætti falið neitunarvald.

Ég get ekki heldur stillt mig um að segja, að það er athyglisvert að komast að raun um að ríkisstj. treystir á stuðning annarra þm. til þess að við höldum áfram þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Þá taldi forsrh. algerlega út í hött að tala um 25 milljarða kr. útgjaldaauka á þessu ári, sem málefnasamningurinn hefði í för með sér. Ég held að í þeim orðum hans felist annað tveggja, að meiningin sé alls ekki að efna þau loforð, sem málefnasamningurinn sérstaklega getur um, eða þá að það verði ekki gert fyrr en seint og síðar meir. Það er talað um félagslegar framkvæmdir við kjarasamninga, niðurfellingu útsvars af lægstu launum, niðurfellingu sjúkratryggingagjalds, tekjutryggingu aldraðra, verðtryggingu lífeyrissjóða, verðtryggðar niður greiðslur, Iðnrekstrarsjóður fái fé sem áður rann í ríkissjóð, uppbætur af landbúnaðarafurðum, sem ekki er útkljáð hvort eigi að koma úr ríkissjóði eða Byggðasjóði, eins og við sjálfstæðismenn leggjum til. Ekki er tekin afstaða til hvernig fjármagna skuli jöfnun húshitunar, félagslegar framkvæmdir RARIK, vegáætlun, mennta- og menningarmál, Lánasjóð ísl. námsmanna, þjóðarbókhlöðu, Skipaútgerð ríkisins og flugvelli, félagsmál, fæðingarorlof, húsnæðismál, nýja landgræðsluáætlun. Allt er þetta í stjórnarsáttmálanum. Flest eru þetta góð mál, en framkvæmd þeirra kostar peninga. Ég hef látið leggja mat á útgjöld vegna þessara þátta, og er ekki allt upp talið með því sem ég hef gert grein fyrir. En hæstv. forsrh. segir að þetta kosti ekki neitt.

Þá skal ég að lokum taka það fram, að við sjálfstæðismenn erum ekki andvígir áætlanagerð sem slíkri til viðmiðunar. En við erum andvígir bindandi áætlanagerð og við erum andvígir því, að opinberar áætlanagerðir eigi að ráða fjárveitingum og lánveitingum. Og við erum andvígir þeirri stefnu núv. ríkisstj. að halda áfram skattaáþján á atvinnureksturinn í landinu, sem í raun og veru tekur eignarnámi eigið fé atvinnufyrirtækjanna í þeim tilgangi að gera atvinnufyrirtækin háð opinberum skömmtunarstjórum. Það er ekki vænlegt til að bæta kjör landsmanna.