11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég verð fyrir vonbrigðum með hæstv. sjútvrh. Hann les upp úr plaggi sem var upphaf viðræðna fulltrúa og formanna fjögurra stjórnmálaflokka í sambandi við myndun samstjórnar þeirra flokka, þjóðstjórnar. Í umræðum um þessar hugmyndir þróuðust málin þannig, að ég lagði að lokum fram yfirlit um hvort tilteknar niðurstöður gætu náð saman sjónarmiðum þeirra er þátt tækju í þessum umr. Ég fór alveg nákvæmlega yfir greinargerðina sem ég gaf síðan um þessar viðræður. Þ. á m. var ávallt í viðræðunum tekið fram m.a. um samráð varðandi kjaramál við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins. Það var sömuleiðis ávallt talað um sem úrlausnarefni í þessum viðræðum, að menn yrðu að gera upp hug sinn um hver rammi fjárlaganna ætti að vera, þ.e. hvort byggja ætti t.d. á fjárlagafrv. 102. þings eða þess sem rofið var í haust. Ég veit að þegar hæstv. sjútvrh. hugsar sig betur um minnist hann þessa.