12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þótt ég sé einn í þeirra hópi sem gjarnan vildu gleyma því strax, að kratar hefðu setið á ráðherrastólunum hér frá því í haust, þá minnist ég þess nú samt, að þeir sátu þarna jafnvel fram eftir síðustu viku. Stólarnir þeirra voru enn þá volgir þegar hæstv. núv. ráðh. settust í þá, og einhverju tóku þeir við af skuldbindingum úr þeirra hendi og verður efalítið umdeilanlegt í hvaða tilfellum hæstv. núv. ráðh. gætu komist hjá því að framkvæma nú samstundis rangar, en tímabundnar ákvarðanir hæstv. fyrrv. ráðh.

Það má vel vera, að hæstv. sjútvrh. hafi rétt fyrir sér þegar hann sagði okkur áðan, að hann hefði ekki átt annarra kosta völ heldur en að taka nú ákvörðun um framkvæmd ákvörðunar sem hæstv. fyrrv. sjútvrh. tók í vikunni sem leið varðandi stöðvun á loðnuveiðum. Það má vel vera, að hann hafi ekki átt annarra kosta völ. Sjálfur er ég persónulega þeirrar skoðunar, að ákvörðunin um stöðvun loðnuveiðanna, sem tekin var í fyrri viku, hafi verið röng. Nú getur hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson lagt fyrir mig spurningu, eins og hann lagði fyrir hv. þm. Matthías Bjarnason, og spurt hversu mikið ég vildi þá láta veiða úr loðnustofninum til viðbótar. Það yrði erfitt að varna þessu, og ég geri ráð fyrir því að það yrði erfitt fyrir hv. þm. Matthías Bjarnason að svara þessari spurningu nákvæmlega upp á tonn, eins og Daninn segir: „Pá stáende fod“. Ég treysti mér ekki til þess, af því að einnig ég vil taka tillit til útreikninga fiskifræðinganna, sérfræðinganna, með vissum fyrirvara, jafnframt því sem ég vil taka tillit til annarra þjóðhagslegra stærða sem hljóta að ráða í sumum tilfellum enn þá meiru um það en fyrrnefnt álit fiskifræðinga, hversu mikið við tökum úr hinum ýmsu fiskstofnum okkar, því nauðsynjar eru margar sem við verðum að taka tillit til þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, og flestar þær ákvarðanir eru pólitísk eðlis.

Ég vil vekja athygli á því, að menn þurfa ekki annað en að fletta hefti af tímaritinu Ægi frá því nú fyrir jólin í vetur til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að skakkar allt að því um 50% á 10 ára tímabili að meðaltali á útreikningum fiskifræðinganna á stofnstærðum, á veiðispá og síðan raunverulegri veiði á þessu tímabili. Það skakkar hvorki meira né minna en 50%. Ég er ekki með þessu að varpa rýrð á störf fiskifræðinganna eða fræði þeirra. En ætlast menn svo til þess, að íslenskir stjórnmálamenn byggi efnahagsmálaáætlanir sínar að öllu leyti á niðurstöðum fiskifræðinganna sem skakkar þó um þetta? Og hverju haldið þið að skakki raunverulega í þjóðhagsdæmum okkar þegar um er að ræða 50% af úrteknu aflamagni úr þorskstofninum einum saman?

Jú, ég viðurkenni það alveg fúslega, að engir aðrir fræðingar á landi hér og síst af öllu stjórnvísindamenn vita meira um stofnstærðir nytjafiska okkar eða hegðun þeirra heldur en fiskifræðingarnir. En fiskifræðingarnir vita ekki allt og við getum sótt vitneskju okkar víðar, a.m.k. til að nota sem bakgrunn fyrir niðurstöður fiskifræðinganna þegar við komum að því að taka pólitískar ákvarðanir.

Ég minnist þess, að Bjarni heitinn Sæmundsson, faðir íslenskrar fiskifræði, sá sem skrifaði bókina um fiskana sem varð öfundaratriði líffræðinga um allan heim og þótti á sínum tíma merkilegasta rit sem skrifað hafði verið um líffræði Norður-Atlantshafsins, sagði í blaðagrein í títt nefndu tímariti Fiskifélagsins, að 90% af þeirri vitneskju, sem saman væri komin í þessari öfunduðu bók hans, hefðu komið rakleitt frá sjómönnum, en ekki fyrir eigin athuganir.

Aukin framleiðni í fiskveiðum og fiskiðnaði er áraviðfangsefni, en hún er líka viðfangsefni líðandi stundar og verður ekki til af sjálfu sér. Ég vil aðeins, vegna þess að raunar stend ég nú hér í pontunni vegna þess að ég hafði kvatt mér hljóðs um þetta málefni er umræður fóru fram utan dagskrár s.l. fimmtudag um skipulag á loðnulöndun og nýtingu á fiskstofnunum, vekja athygli á því sem þar var lítillega drepið á. Við erum að tala um framleiðni í sambandi við nýtingu fiskstofnanna og þá sérstaklega loðnunnar. Í nóv. s.l., þegar tekin var ákvörðun af hæstv. þáv. sjútvrh. um stöðvun loðnuveiðanna til þess að geyma sér eitthvað til hrognatöku, eins og það var kallað, var ástand loðnunnar í sjónum, sem verið var að veiða, þess háttar, hún var svo miklu gæðameiri, bæði að fitu og þurrefni, heldur en sú loðna sem verið er að veiða núna, að á sama aflamagni skakkaði hvorki meira né minna en 2 milljörðum kr. í verðmætum, sem við töpuðum á því að geyma loðnuveiðarnar frá því í nóv. fram í jan. og febr. Vitaskuld átti sjútvrn. að hafa hugmynd um að það hefðu safnast upp óseld loðnuhrogn í Japan, því að þau seldust ekki, beinlínis vegna þess að það var búið að fletta ofan af „blöffinu“ sem notað var í söluskyni við Japana, að menn yrðu svo náttúrumiklir af því að éta loðnuhrogn. Japanir voru búnir að þaulprófa þetta með svona lélegum árangri. Vitaskuld vissi rn. að þessi loðnuhrogn voru óseld, og gott ef hæstv. ráðh. hefur ekki sjálfur prófað að éta þessi hrogn.

Ákvörðunin um að fresta loðnuveiðunum í nóv. var tekin á röngum forsendum af skriffinnum í rn. Ég kalla þá ekki skriffinna í niðrandi merkingu. Þessi ákvörðun kostaði okkur 2 milljarða kr. Hefði þessi ranga ákvörðun ekki verið tekin, þá hefði það munað okkur 2 mill jörðum kr. í framleiðni íslenska fiskiflotans á þeirri stundu. Ákvarðanir, sem teknar eru frá degi til dags í sjútvrn., varða framleiðni.

Ég efast ekkert um að hæstv. sjútvrh. muni viðhafa skynsamleg vinnubrögð í meðferð sinni á þessu þýðingarmikla rn. og hafa samband við sjávarútvegsnefndir Alþingis og þingflokka um jafnmikilsverð málefni og þau sem lúta að nýtingu fiskimiðanna kringum landið.

Ég er hæstv. sjútvrh. sammála um það, að fásinna væri að ætlast til af honum að hann hlypi til sjávarútvegsnefndarmanna Alþingis og þingflokka út af smávægilegum ákvörðunum sem varða framkvæmdaatriði í rn. þessu hverju sinni. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Ég er líka sammála honum um það, að meginatriði er að koma sér saman um grundvallaratriðin varðandi nýtingu fiskstofnanna og fylgja síðan þeim samþykktum sem gerðar eru um grundvallaratriðin. En þá er líka mikið í húfi að forsendurnar fyrir þeim ákvörðunum séu réttar, og þar kemur miklu fleira til en líffræðilegt álit þeirra hjá Hafrannsóknastofnun. Þar koma miklu fleiri atriði til og flest af þeim eru pólitísks eðlis.

Ég vil svo aðeins að lokum lýsa yfir þeirri staðföstu trú minni að þannig verði á málunum haldið, að ágreiningsatriði eins og þetta, sem við ræðum nú í dag, verði ekki ríkisstj. að falli.

Ég efast ekkert um það. En ég get ekki ímyndað mér eigi að síður, að loðnustofninn, jafnvel þó að ástatt sé nú um hann eitthvað í áttina við það sem fiskifræðingar eru hræddir um, hefði hrunið niður þótt það hefði verið látið bíða svo sem einn dag að taka þessa ákvörðun til þess að hægt væri að ræða málið í sjávarútvegsnefndum og í þingflokkunum á Alþingi. Ef svo mikið hefði verið í húfi, þá hefði þegar verið búið að tefla allt of tæpt því þetta hefði ekki tekið nema einn dag, það hefði ekki tekið nokkra daga.