12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hefur margt komið fram í þessum umr., sem ég held að hafi verið mjög nauðsynlegar, þótt margt hafi verið lítt málefnalegt í þeim.

Að mínu mati eru sjálfsagt þrjú markmið sem menn þurfa að hafa í huga í sambandi við þessar veiðar. Það er í fyrsta lagi hámarksveiði, hvað skynsamlegt er að veiða. Það er í öðru lagi, að það verði sem mest verðmæti sem á land komi. Og í þriðja lagi verði um sanngjarna dreifingu á þessum verðmætum að ræða. Það er auðvitað ljóst, að þessi markmið stangast meira og minna á í þessu máli eins og öðrum. En vandamálið er fyrst og fremst það, að hér var ríkisstj. sem sá fram á að hún var að fara frá völdum, taldi sig ekki geta tekið á þessu máli, og síðan kemur önnur ríkisstj. um það leyti sem aflinn er kominn nálægt því hámarki sem menn höfðu áður talað um.

Menn eru undrandi á því hér, að menn skuli hafa á þessu mismunandi skoðanir innan flokka. Er það ekki eðlilegt í þessu máli eins og öllum öðrum, sérstaklega varðandi fiskveiðistefnuna, að þessi mál séu rædd hér af hreinskilni? Hæstv. fyrrv. sjútvrh. gerði hér ágæta grein fyrir skoðunum sínum í þessu máli s.l. fimmtudag. En að mínu mati er málið það nú, hvernig verður best bætt úr því ástandi sem nú liggur fyrir. Það liggur fyrir að verksmiðjurnar á sunnanverðum Austfjörðum og í Vestmannaeyjum munu fá lítið sem ekkert hráefni. Það er ljóst að þau skip, sem nú hætta veiðum, munu sigla með þann afla til heimahafnar, og ég býst ekki við að heimahöfn margra þessara skipa sé á sunnanverðum Austfjörðum eða í Vestmannaeyjum. Það á ekkert þeirra heima á sunnanverðum Austfjörðum og aðeins örfá í Vestmannaeyjum. Og þannig mun einnig verða ef veiðar verða hafnar að nýju. Sagt er að ákvörðun um að geyma hluta af þessu magni muni koma þessum stöðum til góða. Skipin munu að sjálfsögðu sigla með þennan afla fyrst og fremst til heimahafna. Ég sé því ekki fram á að þær ákvarðanir, sem nú liggja fyrir, tryggi á nokkurn hátt atkomu þessara byggðarlaga.

Ég var þeirrar skoðunar í s.l. viku, að það hefði verið skynsamlegt, til þess að dreifa þessu magni með sanngjörnu móti, að loðnunefnd beitti lagaákvæði því sem hún hefur á valdi sínu til þess að loka á Norðurlandshafnirnar með það í huga að dreifa aflanum suður eftir landi. Það er líka að mörgu leyti óhyggilegt að stöðva veiðarnar og geyma mikið aflamagn, vegna þess að nú fer fitumagn loðnunnar óðum minnkandi, minnkar um u.þ.b. 1% á viku, og það liggur í reynd ekkert fyrir um hversu miklu meira verðmæti væri hægt að ná með því að geyma til hrognatöku og loðnufrystingar. Málið er hins vegar það, að þetta svæði hefur nú að undanförnu gert ráð fyrir því, að verulegt magn yrði veitt á þessum tíma, og þar með að þetta svæði fengi verulegt magn til bræðslu. Ég vil sem sagt ítreka það, að við áframhaldandi með höndlun þessa máls verði sem best reynt að tryggja sanngjarna dreifingu þess magns sem eftir er. Mér heyrist að allir séu sammála um það, sem hér hafa tekið til máls, og ég sé ekki að það verði gert með þeim ákvörðunum sem nú liggja fyrir í þessum máli.